Jónsmessan

Messa hvaða Jóns er Jónsmessan? Sigurðssonar, Gnarr, Vídalíns, Arasonar eða Vilhjálmssonar? Nei, messa Jóns er messa skírarans Jóhannesar Sakaríasonar sem skírði bæði Jesú og fjölda annarra iðrunarskírn. Nafnið Jóhannes er til í mörgum útgáfum t.d. Jón, Hans, John eða Jon. Jónsmessa er messudagur Jóhannesar skírara. Til hans er sjónum beint um allan hinn kristna heim á þessum tíma kirkjuársins. Kirkjuárið hefur hrynjandi og skipan. Það er engin hending að boðberi frelsarans og fyrsti Jesúprédikarinn skuli eiga sér messudag á bjartasta tíma ársins. Jóhannes skírari gegndi lykilhlutverki í fjölskyldu og sögu Jesú. Hlutverk hans var að þjóna Jesú Kristi. Hvenær er svo messudagur Jóhannesar? Jú, nákvæmlega hálfu ári fyrir jól, fæðingarhátíð Jesú Krists. Það er engin tilviljun heldur viðurkenning á hlutverki Jóhannesar í sögu kristninnar og sögu heimsins. Hann var ekki ljósið sjálfur heldur ljósvísir sem beindi fólki til heimsljóssins.

Náttúrumessan

Birtutími þessara júnídaga er unaðslegur. Það er ekki aðeins messað í kirkjum heldur er Guð með græna og lipra fingur þessa dagana. Á okkar norðlægu slóðum er messuhald náttúrunnar stórkostlegt á hinum ljósa tíma. Fuglakórar syngja í hinni miklu dómkirkju sköpunarverksins. Tré breiða út lauffingur sína mót himinhvelfingu og barrfingur beina sjónum í hæðir. Blærinn hvíslar miskunnarbænir og golan syngur sálma í kvistinum. Þeyrinn bræðir frera á fjöllum. Vatnið streymir og verður næring alls lífs og myndar jafnvel kraftgefandi dögg á nóttu. Um æðar smáplantna fer næring og messuskrúði náttúrunnar tekur fram öllu litríki tískuheims og litagnótt messuklæða og kirkjuhúsa. Egg í hreiðri eru eilífðartákn. Þegar litlir goggar gera á þau göt er það líka vitnisburður um að lífið lifir og Guð man eftir djásnum sínum. Guð kemur sjálfur og fæðist sem barn í heimi. Sól sumarsins skín skært og lengi en þó er hún aðeins endurkast birtunnar frá fæðingu frelsarans. Messuhald Jóhannesar og guðsþjónusta náttúrunnar tekur mið af ljósinu sem kom í heiminn. Þannig megum við sjá hringrás lífsins, daga okkar sjálfra og allra viðburða sem endurvarp þess ljóss sem Guð er. Á myrkasta tíma fæðist guðssonurinn. Hinum megin á hringferli ársins er Jóhannes þegar sólargangur er lengstur á norðurslóð. Vegna þess að náttúran hvíslar um Guð sáu mæður og feður kirkjunnar ástæðu til að Jóhannes fengi stöðu í kirkjuárinu hálfu ári á undan fæðingu Jesú.

Sólarhátíð

Jónsmessan er kristin hefð og hefur fengið kristna túlkun. En að baki henni er líka flókin hátíðahefð. Sólstöðuhátíðir hafa verið haldnar í þúsundir ára. Fólk hefur verið meðvitað um gjöf birtu, ljóss og samhengis við líf og fagnað og stillt sig inn á gleðibylgjur helgidóms náttúrunnar. Guðsþjónusta náttúrunnar hefur kallað á hátíðir manna til lífsstyrkingar. Arfur menningar er bæði mikilvægur og merkilegur og lífsvinsamleg kristni reyndi fremur að styrkja hið jákvæða fremur en að reyna að eyða hefðum og siðum að óþörfu. Þar sem náttúran syngur sína sálma á júnítíma sumarsólstaðna var hægt að tengja það sem rímaði í kristinni helgisögu við hátíðir fólks og fá út heild. Hvað var það í sögu Jóhannesar sem rímaði við náttúruhátíðina? Það er vatnið og helgun vatns. Vitað er að víða við Miðjarðarhaf og einnig norðar í Evrópu hefur vatn verið mikilvægt í hátíð miðsumarsins. Fólk sótti til vatns, að ám, lindum, lækjum og hafi og baðaði sig og helgaði. Á Jónsmessunótt töldu margir að vatn yrði ofurkröftugt og gott til lækninga. Þjóðsögur Íslendinga enduróma þessa gömlu hefð með sögum um að það gerði fólki gott að velta sér í dögg Jónsmessunætur. Kraftaverk voru álitin gerast á þessari máttarnótt hins lengsta sólargangs. Álagahamir féllu af sjávarverum á landi, steinar flutu upp og aðrar furðu urðu.

Postuli náttúrunnar

Jóhannes skírari benti ekki á sjálfan sig heldur Jesú. Það var hið mikilvæga trúarhlutverk hans sem er öllum kristnum mönnum fyrirmynd. Sú guðsþjónusta og hlutverk speglast í sögum um Jóhannes. Meistarinn kom til Jóhannesar til skírnar. Kristnir menn hafa síðan talið að þar með hafi allt vatn verið helgað. Það var sem sé ekki Jesús sem græddi á skírninni heldur veröldin öll. Allt vatn var helgað. Þessi blessun leiddi til afstöðu Auðar djúpúgðu sem vildi að hún yrði jarðsett í flæðarmáli. Þar væri helgur reitur vegna þess að Jesús hefði helgað vatn veraldar í skírn sinni. Jóhannes skírari er því postuli vatnsins og postuli náttúrunnar. Þess vegna var hann hentugur til að helga miðsumarshátíðir hins forna heims. Sólstöðuhátíðir urðu Jónsmessur. Náttúruhátíðir urðu Jesúhátíðir því sólarbirtan varð endurvarp heimsljóssins sem Guð birti í Jesú Kristi. Jóhannes var tengillinn sem beindi sjónum að guðssyninum.

Sólardagar hjálpræðis

Helgisagan um fæðingu Jóhannesar er sögð í Nýja testamenntinu. Faðir hans, Sakaría, var sagður hafa misst mál á meðgöngunni. En hann fékk hins vegar málið aftur þegar Jóhannes fékk nafn. Nafn er mikilvægt og skilgreinir. Jóhannes og öll önnur nöfn sama stofns merkja að Guð sé góður. Hlutverk Jóhannesar var að boða það guðseðli með því að beina sjónum að heimsljósinu. Sálmurinn sem faðir hans flutti þegar hann fékk málið að nýju segir mikla sögu.

„… þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.“

Boðskapur á sumarsólstöðum er að frelsari er mönnum fæddur. Allir dagar eru sólardagar. Sólin hefur löngum verið túlkuð sem ímynd Guðs eins og sést vel í miðaldakveðskap svo sem Sólarljóðum. Matthías Jochumsson minnir okkur á að „…í sannleik hvar sem sólin skín er sjálfur Guð að leita þín.“ Þegar Jónsmessunóttin kallar er Guð að benda á Jesú Krist. Þegar hrossagaukar syngja vængjasálma sína ljóða þeir um heimsljósið. Þegar lækur hjalar í hvammi eða foss þrumar í gljúfri má heyra rödd engilsins forðum við Jórdanskírn: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Jónsmessa er góð.