Vinur minn hringi í mig og spurði: „Veistu að þú ert á forsíðu Wall Street Journal?“ Nei og ég kom af fjöllum og mundi ekki eftir neinu rosalegu sem ég hefði sagt eða gert sem gæti ratað á forsíðu erlends stórblaðs. Vinurinn bætti við að ég blandaði mér í pólitík og væri á gráu svæði í Evrópumálunum. Þá mundi ég að ég hafði stuttu áður hitt erlendan blaðamann í fylgd Þóris Guðmundssonar. Við höfðum rætt tengsl Íslands við útlönd og áhrifin á menningu okkar sem var og er mér ofarlega í huga. Charles Goldsmith, blaðamaðurinn, hafði svo skrifað langa grein sem rataði í heimspressuna 30. maí 1994. Tilvitnun í prest við Almannagjá hafði farið á forsíðuna vinum mínum hér og ytra til skemmtunar. Mogginn dró svo saman efni Wall Street Journal-greinarinnar í blaðinu 1. júní. Jón Helgason, sá mæti Skaftfellingur, þingmaður og Þingvallanefndarmaður, sá ástæðu til að hrósa mér fyrir að koma Þingvöllum í heimsfréttirnar. Og Jón fullyrti að utanríkisráðuneytið gæti ekki kvartað.
Í moggagreininni segir: „Tilvistarkreppa. Íslendingar finna fyrir vaxandi einangrun meðan Evrópa og Bandaríkin draga úr tengslunum.“ „Frá lítilli kirkju skammt frá þeim stað þar sem elsta starfandi þing veraldar var stofnað rýnir séra Sigurður Árni Þórðarson á mörk tveggja heima, hrífandi gjá sem markar misgengið milli amerísku og evrópsku jarðhniksflekanna,“ segir í upphafi greinarinnar, sem er sögð skrifuð á Þingvöllum. „Jarðvegurinn hér sígur um hálfan sentímetra á ári en [presturinn] hefur meiri áhyggjur af hinu breytta pólitíska landslagi.“ „Ameríka er að færast í vesturátt og meginland Evrópu færist í austur og ég hef áhyggjur af því að við Íslendingar sökkvum hér á milli þeirra,“ er haft eftir séra Sigurði. Blaðamaðurinn, Charles Goldsmith, segir prestinn ekki einan um þessar áhyggjur.“
Svo var í greininni í WSJ rætt ítarlega um austurstefnu Evrópu og vesturstefnu Bandaríkjanna. Það var þá. Nú er allt breytt. Almannagjá er önnur en fyrir þrjátíu árum. Náttúrukraftarnir breyta landinu en áhyggjur mínar varðandi menningarþróun eru aðrar nú. Þrjátíu árum síðar sker Evrópa ekki á vesturtengsl og er svo sannarlega ekki lengur á leið í faðm austursins. Skelfilegt stríð geisar í Úkraínu. Rússland er að grafa sér pólitíska, menningarlega og efnahagslega gröf þessi misserin undir pútínskum zar. Evrópa hervæðist og pólitík og menning skautast. Í Bandaríkjunum hriktir í menningarstoðum og ekki ljóst hvers konar ræði bandaríska þjóðin muni búa við eftir næstu kosningar. Nató er öðru vísi nú en fyrir aldamót og heimspólitíkin er allt önnur en í lok tuttugustu aldar. Mengunarmál, flóttamannavandi og stríð eru ofurverkefni næstu ára. Presturinn hefur enn áhuga af breytingum í pólitík, en áhyggjurnar eru minni og ærðuleysið er meira nú en þá. Þingvellir eru dýrmæti sem mega rata í heimspressuna reglulega.