Upprisa nýguðfræðinnar?

Eftirfarandi grein birtist í ritinu Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi og var flutt að hluta áður og þá sem fyrirlestur á málþingi í Reykholti í maí 2010. 

Hvert er kall samtímans og hvernig svörum við með merkingarbærum hætti? Nærri aldamótum 1900 urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi, nýjar hugmyndir spruttu fram og höfðu áhrif á guðfræði og kirkjulíf. Í hrunúrvinnslunni nú, liðlega einni öld síðar, eru hliðstæður. Spurningar leita á: Þurfum við frjálslynda guðfræði að nýju? Hvað eigum við að gera með Biblíu, hvað með hefð okkar? Hvert er hróp tímans? Hvað getum við lagt best til bæði samfélags og kirkju? Hvaða guðfræði er þörf?

Albrecht Rischl, einn af áhugaverðustu kennimönnum frjálslyndu guðfræðinnar, minnti á: „Við skoðum söguna til að hafa áhrif á gang sögunnar.” Ernst Troeltsch endurómaði þá afstöðu: „Aðeins með sögu er hægt að bregðast við sögu.” Við verðum leiksoppar nema við megnum að líta til baka til að meta og bregðast við. Hvað skiptir máli í guðfræðisögu okkar og með opnum, klisjulausum huga þurfum við að búa í haginn fyrir framtíðarguðfræði. Um þetta voru nýgfræðingarnir meðvitaðir. Hafsteinn Pjetursson, lítt kunnur brautryðjandi nýguðfræðinnar, sagði um aldamótin 1900 að staða íslensku kirkjunnar hafi ekki aldrei verið skoðuð í ljósi sögunnar og því hafi dómar um hana verið hleypidómar og ekki sannleikanum samkvæmt. Sem betur fer hefur fræðileg geta aukist á Íslandi liðin hundrað ár. Greinendum hefur fjölgað en hin lútherska áhersla er þó enn í gildi að kirkjulega stöðu verði stöðugt að skoða. Lífinu skal þjóna. Hvað einkennir þá nýju guðfræði sem spratt fram fyrir einni öld? Hverjar voru aðferðir og hverjir voru styrkleikar? Hvað getum lært af þeim og hvernig varast veikleikana? Sem sé, eftirfarandi verður eins og líkræða og velt verður vöngum yfir framlífinu, hvað lifir eða rís upp! Eða er þessi tegund guðfræði dáin? Lifir gamalt guðfræðiefni aðeins í börnum og afkomendum?

Frjálslynd guðfræði – guðfræðilegur libealismi

Ég mun ekki fara í sauma á hinum erlenda guðfræðilega líberalisma, aðeins nefna nokkur atriði til afmörkunar. Guðfræði frelsisins meðal mótmælenda á nítjándu öld á a.m.k þrjá feður: Martein Lúther, Immanuúel Kant og Friedrich Schleiermacher. Frelsissókn og endurskoðunarþor Lúthers er upphafsblástur hins prótestantíska anda. Þekkingarfræði Kants varð til í hefð Lúthers og fléttaðist að rómantískri einstaklingsáherslu og vísindaafstöðu Schleiermachers. Af varð kraftmikil gerjun í guðfræði nítjándu aldar í Þýskalandi, á Norðurlöndum og Bretlandseyjum og einnig í Norður Ameríku. Þorðu að hugsa, sapere aude, boðaði Kant í ritgerð sinni um Upplýsinguna.[1] Og margir guðfræðilegir leysingjar nítjándu aldar þorðu að hugsa. Þeir iðkuðu fræði til að opinbera hið sanna og rétta. Vitundin um mikilvægi aðferða leiddi síðan til endurskoðunar í háskólaguðfræðinni og smitaði inn í kirkjulífið. Rannsóknir urðu tæki í þágu hins trúarlega en ekki aðeins í þjónustu þeirra, sem höfðu völd og ráð. Sögulegar rannsóknir voru iðkaðar. Í háskólum, meðal menntamanna og þar með meðal prestanna styrktist vitund um, að vísindaþekking yrði að hafa áhrif á guðfræði og að trúarhugsun yrði að vera í samræmi við gildi fræðasamfélagsins. Þessar ljósmæður fræða og nútíma vildu lausn undan íþyngjandi kennivaldi Biblíu og hefðar. Ein afleiðingin var hugmyndin um að guðsríkið varðaði ekki rétta skoðun heldur fremur góð verk. Kennivald varð meira en játningar og opinber skoðun trúfélags. Kennivald gæti aðeins verið það sem væri í samræmi við helstu gildi góðra fræða og reglur skynseminnar. Í þessum anda var lagt í gagnrýni á frumspekilega trúfræði. Áherslan á einstaklinginn var stefnumarkandi, vitundin um að í fólki verður merkingarsköpun og reynsla sem varðar alla túlkun, á veröld, gæðum, Guði og samfélagi guðstrúandi. Að beina sjónum að hinum jarðneska, mennska Jesú Kristi var sömuleiðis þarft og til mótvægis upphafningu Jesú. Kirkjan og líf hennar var ekki lengur varin né réttlætt með handaverurökum. Þar með gafst færi og frelsi til að skoða með gagnrýnum hætti skipulag, mistök, stjórnkerfi og valdakerfi, sem eru auðvitað forsenda fyrir eðlilegri þróun og breytingum til bóta. Meiri meðvitund varð um fjölbreytileika, sögulegar skilyrðingar, forsendur og fordóma. Hið forkrítíska var gagnrýnt, átoritet voru ekki lengur sjálfgefin og talin koma beint og ómenguð frá himnum. Forsendur voru metnar og arfurinn tekinn til róttækrar skoðunar og hafnað ef efnisatriðin stóðust ekki kvarða samtíðarinnar. Arfur upplýsingarinnar – að þora að hugsa – efldi frelsi og lagði grunn að gagnrýnu samfélagi. Guðfræðilegur líberalismi varð ný guðfræði sem losaði um og kynnti nýja möguleika í guðfræði og trúariðkun.

Einkenni guðfræðilegs líberalisma voru svipuð bæði austan sem vestan Atlantsála. Alfred Ernest Garvie dró hnyttilega saman einkenni frjálslyndu guðfræðinnar.[i] Þau voru:

  1. Frumspeki hreinsuð úr guðfræði;
  2. Trúarheimspekilegum þönkum um Guð vísað á bug;
  3. Í skilgreiningu á kirkjunni forðast að nota handanheimsrök – skv reglunni að frumspeki og trúarhugsun megi ekki að blanda saman;
  4. Andúð á trúarlegri dulúð sem tjáir einhverja frumspeki;
  5. Trú hagnýtt skilgreind;
  6. Trúarleg þekking er önnur en kennileg;
  7. Opinberun Guðs er í sögu og megi ekki rugla saman við náttúrulega opinberun;
  8. Hugmyndin um Guðsríkið er meginstefið og mótandi fyrir kristna trúartúlkun;
  9. Tilhneiging til að takmarka guðfræði við inntak trúarreynslu og trúarvitund.[2]

Guðfræðingar undir áhrifum guðfræðilegs líberalisma lögðu jafnan áherslu á aðferðafræðilegan hreinleika. Þeir vildu útiloka heilaleikfimi, sem ekki stæðist þekkingarfræði samtímans. Um tíma réð þekkingarfræði nýkantíanismans för, alla vega meðal þeirra sem iðkuðu sína guðfræði undir þýskum áhrifum. Og þar með var ýmsu hent út og mögum helgum kúm slátrað. Yfirlit Garvie gildir í meginatriðum fyrir nýguðfræði á Íslandi. Hér heima lagði nýguðfræðin minni áherslu á siðferði og samfélagsvídd guðsríkisins samanborið við frjálslyndu guðfræðina erlendis. Stíll nýguðfræðinnar var einstaklingstengdur, sjónum var einkum beint að trúarþeli og persónu mannsins fremur en félagslegum réttindamálum og vef menningarinnar.

Nýguðfræði á Íslandi – tveir straumar 1899-1959

Vissulega má deila um hvað er hvers og hvurs er hvað í guðfræðisögu 20. aldar á Íslandi. Mér sýnist, að tímabil nýguðfræði sé um sextíu ár og meiri hluti tuttugustu aldar. Heiti á guðfræðinni, sem tengist þessu tímabili eru flöktandi og ójós. Íslenskir líberalistar nefndu guðfræði sína gjarnan frjálslynda guðfræði eða nýguðfræði. Til aðgreiningar legg ég til að guðfræði þeirra og frá fyrri hluta 20. aldar sé kölluð nýguðfræði fremur en frjálslynd guðfræði. Það hugtak mætti fremur nota um þá erlendu guðfræði sem kennd er við liberalisma.[3] Margt er sameiginlegt íslenskri nýguðfræði og frjálslyndri erlendri guðfræði en sumt líka ólíkt, sem síðar verður vikið að. Tveir áratugir í byrjun 20. aldar voru upphafs- og kynningarskeið nýguðfræðinnar. Skeiðið hófst 1899 með deilu Jóns Helgasonar við Davíð Östulund forystumann Aðventista um mál trúar og guðfræði. Frá 1917 og til 1959 var nýguðfræði og áherslur hennar stefna yfirmanna þjóðkirkjunnar og kennara í guðfræðideild Háskóla Íslands. Nýjar áherslur hlutu síðan brautargengi þegar Sigurbjörn Einarsson var valinn biskup árið1959, enda var hann mótaður af öðrum aðstæðum og guðfræði en forverar hans.

„Heróp tímans er líf persónunnar“ skrifaði Hannes Hafstein nærri aldamótum 1900 og með þeirri einföldu setningu lýsti hann þeirri fléttu rómantíkur og einstaklingshyggju, sem varð til í andlegu lífi Íslendinga á þessum árum. Og setningin tjáir einnig löngun að losna undan oki, félagslegu, pólitísku, menningarlegu og tilfinningalegu.[4] Stefna tímans varð að sækja í dýptir sálar og anda einstaklinganna. Áberandi er í guðfræði á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar, að prestar og þar með safnaðarfólk hugsuðu og skrifuðu æ meir um trúarþel og andamál einstaklinga fremur en um mein og þarfir samfélags. Þessi trúarþelsvitund setti mark sitt á prédikun og trúfræðslugreinar. Þar sem nýguðfræðingarnir höfnuðu ýmsum klassískum trúfræðilegum forsendum urðu þeir að finna og marka nýjan vettvang eða heimili fyrir trúarumfjöllun. Þegar kennivald gömlu guðfræðinnar var gert tortryggilegt beindu þeir sjónum inn í líf persónunnar, sálargerð og sálarinnvols til að finna réttlætingu fræða sinna og lífs.

Nýguðfræði var boðuð af nokkrum af öflugustu guðfræðingum Íslendinga. Kunnastir voru prestaskólakennararnir Jón Helgason og Haraldur Níelsson. Aðrir kennarar við skólann og síðar guðfræðideild H.Í. voru samstiga þeim í flestu. Nýguðfræðilegar áherslur urðu því áberandi í kirkjulífi Íslendinga fram eftir öldinni. Hreyfing nýguðfræðinga klofnaði hins vegar í tvennt. Jón Helgason aðhylltist nýguðfræði Skandinava og Þjóðverja. Hans stefna var þýsk-dönsk og nýkantíönsk og á sér hliðstæður í norður-evrópskri guðfræði þess tíma. Haraldur Níelsson gerðist hins vegar handgenginn sálarrannsóknum, sem hann áleit að gæti fært kristni ómetanlega hjálp í baráttunni gegn aðsteðjandi efnishyggju, sem hann taldi breiðast út í menningu og akademíum heima og erlendis. Stefna Haraldar var undir enskum áhrifum, ekki síst frá Oliver Lodge, og fór því allt aðra leið fræðilega en nýkantíanisminn.

Jón og Haraldur voru báðir vel meðvitaðir um aðferðafræðilegar nýungar fræða sinna. Þeir voru og fræðilega heilsteyptir og því merkilegir frumkvöðlar. Lærisveinar þeirra, prestar og háskólakennarar, voru fæstir eins frumlegir og brautryðjendurnir. Nýguðfræðin lokaðist smátt og smátt sem trúfræðikerfi, nýsköpunin minnkaði og meira púður fór í baráttu við aðrar útlistanir. Ein ástæða stöðnunar var að tengsl minnkuðu við þróun fræðanna erlendis. Nýguðfræðilegu lærisveinarnir útlistuðu fremur og útbreiddu kenningar innlendra lærifeðra en að kynna hvað var á döfinni erlendis eða brjóta nýja akra guðfræðinnar. Þegar Jón Helgason varð biskup árið 1917 dró hann sig að mestu í hlé úr trúmáladeilum, en dró þó ekki róttæka guðfræði sína til baka. Haraldur Níelsson lést fyrir aldur fram árið 1928 og þar með var mikilvægasti guðfræðingur sálarrannsóknarmanna fallinn.

Þó nýguðfræðin klofnaði í tvennt var þó í fyrstu engin skilsmunur á milli armanna. Margir prestar töldu sig bæði aðhyllast skoðanir Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar. En hugmyndir Jóns og Haraldar urðu ólíkari því eldri sem þeir urðu og milli þeirra dró. Þrátt fyrir það má í kenningu þeirra greina ýmis sameiginleg einkenni.[5] Þeir voru báðir tvíhyggjumenn. Þeir skerptu andstæður eilífðar og heims. Þeir álitu báðir, að Guð hefði blásið mönnum í brjóst guðlegum sáðkornum, sem mönnum væri ætlað að rækta með sér til ákveðins og fullkomins þroska. Þeir guðskjarnar, sem Haraldur nefndi, voru líf, kraftur, trú, ást, auðmýkt, fegurð og friður. Jón Helgason hafði vegna nýkantískra fræðaforsendna sinna ímigust á dogmatískri eða kennilegri trúfræði og hirti ekki um að ydda guðfræði sína eins nákvæmlega og Haraldur. Í ritum hans má þó greina nokkra kjarna, trú, líf, hjarta, ást og kraft. Að auki ræddi hann oft um gleði, frelsi og staðfestu. En þessir þrír síðarnefndu má skoða sem undirstef við hina fyrri.[6] Báðir töldu, að efnisheimur væri hluti kjarna tilverunnar. Til efnisheims töldu þeir náttúruna í öllum ferlum hennar. Til þessa töldu líkama manna sem og þjóðarlíkamann, samfélag manna. Flest tengsl og samskipti manna væru á efnissviði. Margt í mannlegu atferli benti eindregið til efnisbindingar og stríð töldu þeir sýnu verst af mannanna gjörðum. Hvorugur hefði samþykkt, að efnisveröld væri án gildis. Þeir lögðu áherslu á ákveðna gildaröðun. Efnisveruleika ættu menn að setja skör neðar en hin andlegu gildi. Hlutverk og köllun mannsins í heiminum kenndu þeir að væri fólgin í að leyfa guðlegum sáðkornum að þroskast. Til að svo gæti orðið yrði að gæta þess að efnisþáttum væri ekki gert hærra undir höfði en þeim bæri. Annað leiddi til trúarlegrar bælingar og ruglings. Bæði Jón Helgason og Haraldur Níelsson töldu, að hinir guðlegu kjarnar væru andlegir og óefnislegir og væru því óbreytanleg og stöðug ódeili. Hið efnislega í heimininum ætti að meðhöndla með hliðsjón af hinum guðlegu kjörnum. Af skrifum Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar má ráða, að menn ættu að lúta tveimur lögmálum við að ná valdi á efnisveruleika og taka þroska í trúarefnum. Þessi lögmál væru vöxtur og gildastigi. Við fæðingu væru menn sem fræ, sem þyrfti að spíra og vaxa. Menn væru kallaðir til þroskans og vöxtur yrði aðeins, ef menn fetuðu sig upp eftir þrepum gildanna, til hæða andlegra gæða eilífðar.

Hverjir voru styrkleikar?

Vilji nýguðfræðinganna til fræða var lofsverður. Þeir lögðu mikið upp úr rannsóknum á þessu tímaskeiði, á sviði sagnfræði, málvísinda, já, mannvísindum almennt. Sálarrannsóknir voru í fyrstu náið tengd akademíunni og raunvísindum en glötuðu þeirri stöðu síðar og urðu viðskila við þróun í vísindahugsun eftir því sem leið á tuttugustu öldina. Nýguðfræði var einnig í góðum tengslum við samfélagsþróun og gildi samtímans. Hún var á öldufaldi tímans og túlkaði þarfir einstaklinga.  Hún var skilgetið afkvæmi píetismans því hún hélt fram skýrri einstaklingshyggju. Trúin var endurtúlkuð og leitast var við að tengja og skýra í samræmi við gildi tímans. Trúin var losuð eða jafnvel rifin úr samhengi eldri trúfræði. Nýguðfræðingarnir vildu ekki neinn gamaldags klafa og kreddu heldur vildu veita fólki merkingu í samræmi við einstaklingsþarfir. Þar með var guðfræðin skyndilega orðin breytanlegt fyrirbæri, í tengslum við strauma og stefnur tímans. Trúin var ekki aðeins tengsl við Guð heldur líf í heiminum. Þetta nýguðfræðilega fjöltengi vakti áhuga og sýndi endurnýjun og styrk þessarar guðfræði. Nýguðfræðingarnir voru sem ljósmæður fræða og nútíma vildu gjarnan lausn undan íþyngjandi kennivaldi Biblíu og hefðar. Málefni hjartans, innri viska, dýptir manneskjunnar urðu aðalmál en ekki kreddur og kenningar. Hvað svo sem mönnum þykir um einstakar útfærslur kom nýguðfræðin til móts við andlegar þarfir og merkingarsókn einstaklinga. Sú viðleitni má verða síðari tíma sálnahirðum og sálgæslufólki til aðdáunar og fyrirmyndar.

Veikleikar – tvíhyggja og þröng trúarnálgun

Þá verður vikið að veikleikum og hér verður stiklað á stóru. Á Íslandi höfnuðu nýguðfræðingar hinni lúthersk-klassísku, dramatísku og guðfræðilegu sögutúlkun, sem uppteiknaði baráttu góðs og ills í heiminum. Nýguðfræðin hafði enga þörf fyrir Satan. Á fyrri öldum hafði hið siðlega verið trúartengt. Náunginn, samfélag, heimili og veröldin voru á ábyrgð tengslanna við Guð. Þar með var allt skilið og skilgreint heildrænt og trúin var tengd siðferði, heimi manna og náttúru. Ekkert var utan baugs trúarinnar. Þessu höfnuðu nýguðfræðingarnir. Heildarkenningum um heiminn, gerð hans, eðli og tilgang var hafnað sem heilaleikfimi. Nýguðfræði kenndi því nýja mannhugsun. Íslenskir nýguðfræðingar sneru baki við siðferðilegri tvíhyggju, en hölluðu sér nær verufræðilegri tvíhyggju. Þeir álitu, að andstæður væru ekki milli siðferðilega stríðandi afla heldur fremur milli himins og heims, efnis og anda og líkama og sálar. Þeir voru sér meðvitaðir um kenningar vísindamanna og vaxandi efnishyggju, fall gamallar þekkingarfræði og baráttu kirkjunnar fyrir lífi sínu. Þeir leituðu því að nýrri guðfræðiaðferð, nýjum viðmiðum og nýju upphafi fyrir guðfræði. Þeir vildu reyna að skilgreina trúna svo, að henni stæði ekki ógn af breytingum samfélaga, vísinda og hugmynda. Í túlkun þeirra varð trúin að sambandi sálarinnar við Guð handan skarkala daga og brauðstrits. Vissulega vildu þeir að trúin gegnsýrði líf einstaklinga og samfélags. En það væri afleiðing trúarinnar en ekki frumþáttur hennar. Breytingamenn á Íslandi voru uppteknir af menningarlegum og pólitískum baráttumálum sjálfstæðisbaráttunnar, sem líklega hafði áhrif á, að þeir höfðu meiri áhuga á hinu persónulega fremur en góðum verkum og félagslegum bótamálum. Guðsríkisáherslur erlendra frjálslyndra guðfræðinga náðu ekki hlustum nýguðfræðinga. Þótt Ásmundur Guðmundsson hafi síðar á tuttugustu öldinni stöðugt notað orðið guðsríki varð það þó ekki holdgert í pólítískum, samfélagslegum eða menningarlegum átaksmálum. Að iðja væri framar hinu kennilega skilaði sér ekki vel til Íslands. Íslenska nýguðfræðin var ekki félagsgagnrýnin en mjög meðvituð um tilvistarvanda fólks. Kenning Hallgríms Péturssonar og Jóns Vídalíns hafði kannski haft þau áhrif að misskipting gæðanna varð ekki með sama móti og erlendis og nýguðfræðin bjó ekki við svipaða misskiptingu og frjálslyndu guðfræðingarnir erlendis? Nýguðfræðin óf vef merkingar og hins andlega fremur en siðferðis. Nýguðfræðingarnir tóku alvarlega vaxandi efahyggju menntamanna og vísindalegar aðferðir samtímans. Þeim var mjög í mun að varna því að vaxandi efnishyggja gerði út af við kjarna persónunnar, trúna og hin dýpri gildi. Þeir töldu sér skylt, að halda vörð um trú og kirkju en þó ekki útlistanir, skilgreiningar, kirkjuskipan og siði sem ekki væru í samræmi við þarfir tímans annars vegar og kjarna kristninnar hins vegar. Nýguðfræðingarnir töldu sér skylt að verja inntak trúar, persónuleika og þar með samfélagsins. Þeir lögðu þunga áherslu á gildi einstaklinga, trúarþel og sálardýptir, sem varð á kostnað annarra þátta.

Hvað vannst?

Aðferðafræðileg meðvitund var einkennandi í fyrstu. Guðfræðinni var reddað akademískt og talsamband hélst við aðrar greinar akademíunnnar. Um tíma þótti mönnum þeir hefðu fundið griðland trúar gagnvart vísindarýni. Trúin fékk stundarhlé í stormviðrum samfélags, menningar og stjórnmála. Frá sjónarhól nýguðfræðinnar var líka hægt að gagnrýna og brjóta niður til þess síðan að byggja upp. Næði fékkst til að gagnrýna fræðilega úreltar hefðir trúarinnar. Nýguðfræðin, eins og guðfræðilegi líberalisminn erlendis, greindi kalkvisti guðfræðinnar og hreinsaði til. Myndbrotið var iðkað af krafti og því mokað á hauga, sem ekki þótti standast kröfur tímans. Vandinn var, að hið dúalistíska – tvíhyggju – kerfi nýguðfræðinganna var bitlaust gagnvart samfélagsmeinum því trúin var andlega og persónulega skilgreind. Köllun mannsins samkvæmt þessari hugsun var inná við en ekki til farsæls lífs hið ytra sem innra. Hugur fyrstu nýguðfræðinganna var við þroskasókn trúarinnar, en athygli þeirra síður á félagslegum bótum, stöðu manna, stéttaskiptingu, misskiptingu gæða eða pólitík.[7]

Hvað lifir, hvað rís upp?

Það var brotin heimsmynd, sem var akkilesarhæll nýguðfræðinnar. Það er hún sem veldur, að nýguðfræði getur ekki risið upp sem verndarengill nútímans. Hún verður ekki verkfærataska guðfræðinga eða lausnapakki þjóðkirkjunnar. Nýguðfræði er úrelt, en hún er hins vegar til fyrirmyndar um margt. Nýguðfræðin var tilraun, sem tókst við að tengja trúarhugsun og líf einstaklinga. Hún er frumleg uppfærsla frómleika og rit hennar má nota til eflingar sjálfi og í þágu íhugunar. En megingjald nýguðfræðinnar var tap heildarhugsunar. Nýguðfræðinni tókst að opna fræðum og gagnrýnni hugsun greiðari leið inn í líf kirkju og trúar. Í því stöndum við í þakkarskuld og eigum að iðka hið sama í samtíð okkar. Gagnvart forkrítískum hefðum í trúarbrögðum heimsins er sú arfleifð hin dýrmætasta. Bókstafshyggja, hefðarhyggja, kreddufesta og einhæfni eru bölvaldar í samskiptum þjóða og menningarhópa, í pólitík og samvinnu milli heimshluta og trúarhópa. Forkrítískir hópar, sem hafa ekki farið í gegnum hreinsunareld akademískrar gagnrýni, eiga því miður eftir að úthella blóði og tárum. Slíkar trúarhefðir þarfnast hins frjálslynda anda, nýrrar guðfræði. Verum skýr í trúarhugsun okkar að við erum börn og afkomendur upplýsingarinnar og megum í engu freistast til að falla í forkrítískar vilpur. Lengi lifi sókn í frjálslyndi og gagnrýni.

BHS

Í guðfræðilegum líberalisma var tekist á um aðferðir í guðfræði. Afrakstur er víðtæk sátt um um hvernig góð trúfræði skal iðkuð. Lindir guðfræðinnar eru einkum þrjár. Biblía – Hefð – Samtímaviðmið, BHS, eru hin fræðilega þrenning og nýtist í mörgum greinum guðfræði. Þegar tekist er á um einstök guðfræðiefni koma þessi jafnan við sögu, hvort sem rætt er um hlutverk kirkjunnar, tengsl við menningu, hvaða túlkunaraðferð skal nota eða hvort samkynhneigðir mega ganga í hjónaband með samkynhneigðum eða ekki. Biblían er mikilvæg í allri trúartúlkun, en það er aðalmálið að taka hana alvarlega en ekki bókstaflega. Samtímafræðin banna einfeldningslega grunnhyggni í Biblíumálum og kenningu. Kirkjudeildir eru vissulega mikilvægar og kristnin er þéttofin hefð, sem við njótum og notum, en við megum læra af nýguðfræðingum, að kenning er ekki stjórnarskrá heldur skilyrt af hugmyndum hvers tíma. Í kokteil tísku, fordóma, arfs og félagskerfa hefur allaf verið sturtað heilmiklu af hagsmunum og valdavörslu. Ekkert fortíðardjásn hefur óumdeilanlegt gildi. Kennivald í guðfræði er takmarkað og hús þess jafnvel hrunið eins og ameríski guðfræðingurinn og spekingurinn Edward Farley hefur bent á.[8] Síðan er þriðja lind guðfræðinnar, samfélag, samtími – já gildi, þarfir, fræði og aðferðir hvers tíma. Arfur leysingja í guðfræðinni er að taka mark á þrennunni, BHS. Til hvers? Til að guðfræði sé tengd, lifi til gagns og merkingar fyrir lifandi fólk. Þetta er líka arfur ljósmæðra frelsisins á öllum öldum. Þrennan, þrír túlkunarhringir, sem þurfa að skarast og þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Þetta eru lindirnar, sem við eigum að bergja af, taka alvarlega og reyna að vinna með.

Stórmál guðfræði

Fjöldi verkefna blasa við í samtímaguðfræði og eru jafnframt áskoranir fyrir kirkjuna. Stórmál sækja að í veröldinni, sem varða framtíð átrúnaðar meðal manna, frið og ófrið, samskipti fólks og líf á hnettinum. Það eru guðfræðileg meginmál, sem ég nefni aðeins til að marka samhengi fyrir guðfræði samtíma og næstu áratuga í alþjóðlegu og einnig kirkjulegu samstarfi. Þessi mál munu falla yfir okkur og kremja ef við tökum þau ekki alvarlega. Þetta eru prédikunarefni  presta þjóðkirkjunnar og íhugunarefni fyrir guðfræðinga á lífi. Þetta eru stef nýrrar guðfræði.

Trúarbragðadeiglan er knýjandi verkefni fyrir guðfræðinga – líka á Íslandi. Hvert er gildi ekki-kristins átrúnaðar og hver eru og ættu að vera viðbrögð okkar kristinna manna gagnvart öðrum átrúnaði en okkar eigin? Hvert er hlutverk kirkju gagnvart fólki sem flyst til Íslands og ekki er kristinnar trúar? Við þörfnumst guðfræði sem tekur alvarlega fjölbreytni trúarbragða og það sem sameinar. Hið siðlega er jafnan mikilvæg djásn trúarbragða en herská grunnhyggni elur á tortryggni og stríði milli hefða. Kristnin átrúnaður lokar ekki á trúmenn annarra hefða heldur opnar faðminn ef trúin er heil.

Veldisstigar, alls konar, híerarkíur, í guðfræði og kirkju eru óhæfir stigar. Mér sýnist þeir hafa fallið í vestrænni guðfræði og kirkjuskilningi. Þarfir um aukið lýðræði eru augljósar og krafan um lýðræðislega stjórnunarhætti eðlileg. Þetta hefur áhrif á hvernig kirkjuhugsun breytist, t.d. varðandi stjórnskipulag og líka varðandi prestsþjónustu. Kirkjuleg aðgreiningar í stjórnandi presta og hlýðna leikmenn er úrelt og gamaldags. Í stað hefðbundins valdastiga kirkjunnar ætti að innleiða fjölliða eða fjölþætta stjórnunarhætti. Greina þarf milli þjónustuþátta og leyfa gáfum, hæfni manna að stýra hvernig starfað er en ekki hvernig valdapíramídinn hefur verið. Kirkjan hefur þörf fyrir lágrétta stjórnskipan, sem miðar að virkni en ekki valdi.

Fjölbreytni hins trúarlega. Trú ætti ekki lengur skoða sem lokað kerfi altækra svara, leiðsagnar og lausna. Flestir hræðast miklar breytingar en hefð ætti ekki að skoða sem lokaðan og sjálfstilvísandi veruleika. Hefð getur aðeins lifað og veitt leitandi fólki athvarf ef hún er opin og megnar að bregðast við nýjum málum, nýjum spurningum og hugmyndum. Læsingarnar deyða í samtíðinni. Spurningin er bara hvaða viðmið á að nota, hvað er gilt, svo ekki líði allt burt í gildafljóti, sem rennur sína leið inn í haf gleymsku og fortíðar? Hvernig unnið er með hjúskap samkynhneigða er dæmi um hvaða afstöðu menn hafa til hefðar og hvernig til hennar er vísað. Margar stórar spurningar vakna um mörk kristninnar. Dæmi um spurningu sem ræða verður er hvort grunnsagan um Jesú Krist sé sú eina mögulega. Er hægt að tjá fleiri sögur og án þess að kastað sé rýrð á Jesú Krist? Er Kristsfræðin lokaður heimur eða opinn, sem er önnur spurning um afstöðu manna til Guðs og líka eðlis tungu og tjáningar.

Hjöðnun patríarkalismans og aukin virðing fyrir málum kvenna leiðir m.a. til að ekki verður eins skefjalaus stigskipting milli hinnar karllegu stjórnunar og kvenlegu hlýðni og áður var. Hin klerklega verkaskipting verður ekki lengur karlmiðjuð heldur fjölbreytilegri. Kirkjan og guðfræðin verða stöðugt kvenvænni en hversu hröð þróunin verður er aðeins spámanna að tjá.

Græna víddin blasir æ betur við sem stórverkefni trúariðkunar. Það er ekki bara í pólitík, heldur á heimilum og í kirkjunum, sem iðka þarf græna eða umhverfisvæna starfshætti. Biblíu- og kirkjuhefðirnar leggja áherslu á ráðsmennskuna og Skaparann og eru því eðlilegt baksvið og hvati til að glíma við sameiginlegan vanda jarðarkringlu og allra manna. Hugsum altækt en iðkum nærtækt (Think globally and act locally).

Guðsreynsla fremur en guðsfræðsla. Þrátt fyrir efnislega auðlegð búa margir við innantómt líf í neyslusamfélagi hins ríka hluta heimsins. En flestum þessara er þó eiginlegt að þrá og leita andlegrar fullnægju. Á hverjum degi bylja á fólki öldur upplýsinga og alls konar staðreynda. Á sama tíma líður það fyrir skerandi fátækt hvað varðar djúpa og merkingarbæra reynslu. Þessi sláandi munur á ofgnótt fræðslu en fátækt merkingar varðar guðfræði og starf kirkjunnar. Ég túlka það sem svo, að fólk kalli æ meir á guðsreynslu fremur en guðsfræðslu. Getur verið að stórverkefni vestrænnar kristni sé að skapa fólki möguleika á reynslu af dýpt og gildi fremur en upplýsingum eða neyslu?

Innrými fremur en útrými hefða. Þessu tengd er innhverfing hins trúarlega. Trúin verður síður félagsleg hefð og einstaklingarnir leggja áherslu á eigin þarfir, eigin skilning, og vilja í raun kjörbúðarfyrirkomulag í trúarefnum – fara og búa til sína eigin trú samkvæmt eigin þörfum. Áherslan verður á innrými einstaklinga fremur en útrými hefða, sem einstaklingar fá að búa í og þiggja hlutverk sitt af. Sumir munu kalla þetta einstaklingshyggju í trúarefnum aðrir sálhverfingu eða vildarhyggju. Fyrir einni öld heyrðu nýguðfræðingar kall um merkingu. Á hverri tíð vinnur guðfræðin með gerð þeirra spurninga sem einstaklingar tjá og menningin lyftir upp. Kannski er þetta nútímaútgáfa reynslusóknar. 

Viðmið. Trúin er æ meir túlkuð sem afurð þarfa og óska einstaklingsins. Trúin hverfur þar með út úr almannarýminu eða útrýminu. Spurning um hvað verður um kennivaldið? Hverfur það og hvað verður mótandi í staðinn fyrir skoðun prestsins, samþykktir kirkjuþinga eða prestastefna? Verður það sjálfdæmishyggja? En sjálfhverfing og persónuáherslan hefur líka sín mörk og leitar alltaf út fyrir hið smáa og afmarkandi. Merkingarsókn heilbrigðs fólks lætur sér ekki nægja hið lága og smáa heldur leitar út. Hvernig það er túlkað og með það unnið er verkefni fyrir guðfræði.

Trú en ekki kirkja. Veigamikill þáttur átrúnaðar, líka hins kristna, er að veita fólki skilning og skynjun á að það er ekki einstæðingar eða eylönd í veröldinni. Trú er m.a. fólgin í að tengjast því sem er mikilvægt og er meira en einstaklingur eða hópur. Þó kirkjusókn sé vaxandi á Íslandi er hún almennt minnkandi um allan hinn vestræna heim. Það merkir m.a. að áhugi fólks snýst ekki um stofnanir heldur hið trúarlega. Það hverfist fremur um inntak en stúss stofnana. Hrun kaþólsku kirkjunnar og sókn í reynslukirkjurnar er dæmi um þetta. Netið tengist þróuninni einnig. Æ stærri hópur fólks fær sína næringu og trúarmótun á einhverju www – síðum á veraldarvefnum. Spákúlufólk veraldarvefsins reyna að meta þróun og einum þykir líklegast, að árið 2020 fái 30% fólks meginmótun sína af netinu, líka hina trúarlegu. Í þeim aðstæðum verður kirkjustofnun kannski ekki mikilvægust og trúin verður þá fremur skilgreind sem mál einstaklings. Kristnin og þar með guðfræðin verða í nýrri startstöðu og fjarri því að vera án hlutverks. Kannski verða þá aðstæður líkar stöðu frumkristninnar og tækifæri kirkju og trúar mýmörg og ný?

Mýturnar falla? Kirkjan verður í guðfræði sinni og praxís í æ meiri leit að sannleikanum fremur en að verja uppáhaldsvarðstöðvar sínar, hvort sem það eru kenningar, staðir, fjármunir eða félagsleg staða. Mýtur Biblíunnar verða ekki aðalatriði í framtíðinni, stjarna á himni, vitringar úr austri, englar við gröfina o.s.frv. Skírn og ritúöl í kirkjulegu samhengi verða væntanlega endurtúlkuð. Þolir guðfræðin og kirkjan slíkt? Hvernig líst mönnum á að skírn sé túlkuð sem kall til barnsins um að það virkji jarðneska hæfni sína og eiginleika fremur en að verða innplantað í himininn? Þolum við að teygja meira á hinu jarðneska án þess að missa hið himneska? Eða er þetta andstæða sem er líka að hverfa?

Hin nýja fjölbreytni

Í ljósi þessara mála sem hér hafa verið nefnd sprettur ekki ein tegund guðfræði heldur fremur margar gerðir af guðfræðilegri orðræðu. Meðal þeirra gætu verið eftirfarandi:

Kristin guðfræði og trúarbrögð kalla á iðkun samræðuguðfræði.

Reynsluguðfræði – mystík og innrými – Lifum bænaguðfræði.

Græn guðfræði – heilags anda guðfræði – Verndum útrými – en ræktum innrými.

Hið rétta er ekki eitt heldur margt og fjölbreytilegt – Orþópraxis – orþódoxía – orþómystík.

Trúin – en ekki lengur stofnun – sveigjanleg og ríkuleg kirkjufræði.

Þessi stefjavinnsla krefjst guðfræðilegs hugrekkis og opinna anda. Þau varða “frjálslynda” guðfræði en með fjölbreytilegum og nýjum hætti. Ef guðfræðin verður ekki iðkuð dugnaðarlega á næstu árum er hætt við að illa fari. Hendum klisjum á haugana, vöndum greiningu, ögum samræðu og gerum upp guðfræðisögu tuttugustu aldarinnar á Íslandi. Því betur sem okkur lánast, þeim mun betur mun guðfræði, kirkju Krists og þar með fólki verða þjónað í framtíð. Fjálslynd guðfræði eða nýguðfræði á Íslandi getur ekki risið upp í heild sinni. Stefin lifa í minningu og iðkun okkar. En þarfirnar eru nýjar á hverri tíð. Nýtt vín á ekki að setja á gamla belgi. Með BHS-þrennunni, Biblíu, Hefð og Samfélagssýn er opnað fyrir anda, gildi, stef og áherslur frjálslyndu guðfræðinnar en ekki þar með lokað fyrir breytingar. Héróp tímans er líf trúar í veröld, heimi manna og náttúru. Ég trúi á upprisu guðfræðinnar því ég trúi á Guð.

[1] Kant skrifaði ritgerðina árið 1784. Hún er m.a. prentuð í Skírni 1993; 167: 379-86 í þýðingu Elnu Katrínar Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur.

[2] Yfirlit Garvie: 1. The exclusion of metaphysics from theology; 2. the resulting rejection of speculative theism; 3. the condemnation of ecclesiastical dogma as an illegitimate mixture of theology and metaphysics; 4. the antagonism shown to religious mysticism as a metaphysical type of piety; 5. the practical conception of religion; 6. the consequent contrast between religious and theoretical knowledge; 7. the emphasis laid on the historical revelation of God in Christ as opposed to any natural revelation; 8. the use of the idea of the kingdom of God as the regulative principle of Christian dogmatics; 9. the tendency to limit theological investigation to the content of the religious consciousness. Þetta yfirlit Alfred Ernest Garvie er úr bók  James C. Livingston, Modern Christian Thought: From the Enlightenment to Vatican II, (New York: Macmillan Publishing C., Inc., London: Collier Macmillan Publishers, 1971), 246. Lýsingin tjáir vel afstöðu Jóns Helgasonar nema hvað varðar viðhorf til dulúðar. Túlkun hans á tengslum við Jesú Krist er oft með málfari dulhyggju. Áherslan á hið hagnýta varðar samband einstaklings og Jesú Krist. Aðeins trúartengsl getur orðið til að samfélag mann njóti góðs af jesú Kristi. Almennt var afstaða Jóns Helgasonar fremur nekvæð varðandi virkni hins trúaða í samfélaginu. Áherslan var á trú einstaklingsins fremur en áhrif á samfélagið eða samfélagsbætur. Guðfræðin var á prívatsviðinu fremur en hinu samfélagslega.

[3] Að mínu viti óheppilegt að nota hugtakið frjálslynd guðfræði fyrir einhverja stefnu í samtímanum. Hugtakið frjálslyndi kallar á einhverja andstæðu sem þar með verður flokkuð eða skilin sem sem þröngsýn, gamaldags eða afturhaldssöm stefna. Því hneigist notkun á hugtakinu frjálslyndi til klisjuhugsunar og flokkunarguðfræði sem ekki metur fjölbreytni og margbreytileika, sem einkennir heim guðfræðinnar í byrjun 21. aldarinnar. Þegar litið er í baksýnisspegilinn sést vel að guðfræðilegur líberalismi varðaði leið guðfræði til aukins frelsis og má því vel gefa þessari guðfræði heitið frjálslynd guðfræði. Flestar greinar nútímaguðfræði hafa tekið upp aðferðafræði og gildakvarða akademíunnar sem var stefna guðfræðilegs líberalisma en útfærslurnar eru með ýmsu móti. Ættbogi guðfræðinnar er orðinn stór, ættarmótið kannski greinanlegt í stefnum en ógerlegt að flokka í tvær krær, hina frjálslyndu eða íhaldsömu.

[4] Nokkir brautryðjendur kynntu nýjar hugmynda um trú og kirkju í lok 19. aldar.  Mest bar á Matthíasi Jochumssyni og Páli Sigurðssyni í Gaulverjabæ. Á bak við þá var frater Magnús Eiríksson, löngum vanmetinn. Hugleiðingar ungu mannanna vöktu athygli og urðu hvati til umræðu um málefni kristninnar. Þótti sumum sýnt, sérstaklega hinum yngri prestum, að endurskoða yrði kenninguna. Úr annarri átt kom gagnrýni íslensku prestanna í Vesturheimi. Var þeim tíðrætt um doðann í kirkjulífinu á Íslandi og bentu á leiðir til bóta. Öflugasti fulltrúi þeirra var Jón Bjarnason, sömuleiðis vanmetinn. Matthías og Páll hugðu að innra lífi manna og voru áhugasamir um þróun guðfræðinnar. Þeir kynntu nýjar trúarfræðiáherslur og nýjar kenningar. En Vesturheimsprestar bentu með miklum styrk á kirkjuskipulag. Vissulega voru þeir meðvitaðir um trúfræðina og kenningu kirkjunnar, en þeirra framlag var ríkulegast á skipulagssviðinu. Ávextir starfs þeirra á Íslandi voru ekki aðeins fríkirkjusöfnuðir heldur líka breytingar á hugmyndum manna um hvernig kirkjustjórnun ætti að vera og gæti orðið. Hlut þessara merku presta má ekki gleyma þegar þróun þjóðkirkjuhugmyndarinnar er rædd og metin.

[5] Þó Jón Helgason forðaðist átök í biskupsstarfi sínum lenti hann þó á þriðja áratugnum í slag við sinn gamla og fyrrverandi vin, Harald Níelsson, vegna sálarrannsókna og spíritisma. Í þessum deilum voru tveir armar nýguðfræðinnar opinberaðir.

[6] Sjá ritgerð mína Liminality in Icelandic Religious Tradition, UMI, Anna Arbor, Michigan, 1989.

[7] Undantekningarnar eru þó ýmsar, t.d. Straumamenn á þriðja áratugnum. Áherslan hér er að greina aðferðafræðivanda nýguðfræðinnar fremur en að greina atferlismynstur þeirra sem aðhylltust nýguðfræði.

[8] Edward Farley, Ecclesial Reflection: An Anatomy of Theological Method (Philadelphia: Fortress Press, 1982).

Greinin birtist í ritinu Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi (2010 : Reykholt); ritstj. Gunnar Kristjánsson. Skálholt : Grettisakademían, 2010. Glíman (Reykjavík. Prentað).