Portrett

Eftir að ég þjónaði einu sinni við útför var mér tilkynnt að fjölskyldan vildi gefa mér listaverk sem þakkarvott – ekki eitt verk heldur tvö! Mér var líka tjáð að verkin væru eiginlega portrett af mér. Annað er með fjörlegum en fínlegum litum. Hitt er gulleitt og hrífur vegna geislandi birtu og hreyfingar. Portrett – það voru skilaboðin. Nú er ég búinn að hengja verkin upp og vinir óskuðu skýringa. Þeim þótti merkilegt að myndirnar væru portrett en sögðust skilja hvaða áherslur kæmu fram í verkunum og að raunveruleg tenging eða líkindi væru milli mynda og mín. Ég fékk svo ítarlegri skýringar sem nægðu mér. 

Við lýsum fólki, viðburðum og reynslu með orðum og sögum og við getum líka málað mynd til að tjá áhrif og líðan í tengslum. Sumar myndir í orðum eða litum heppnast en aðrar síður. Þær geta miðlað  skynjun og lyft upp ákveðnum atriðum sem við viljum tjá eða túlka. Stundum þarf mörg protrett til að tjá eina en flókna mannveru.

Abstraktmyndirnar drógu fram þætti en kortleggja ekki heild persónu. Þær gefa sjónarhorn en eru ekki nákævæmur persónuprófíll. Ég horfi á þessar myndir og velti vöngum yfir hver ég er. Ég get ímyndað mér ýmsar víddir og túlkað lík, jafnvel farið á djúp kenningarinnar um guðsmynd og dregið úr því margt merkingarbært. En ég veit líka að ég verð aldrei fullkomlega séður og túlkaður nema í skuggsjá eilífðar. Ef ég og ástvinir mínir vita ekki fullkomlega hvað og hver ég er hvernig er hvernig getum við þá lýst Guði? Guðsportrettin eru vissulega mörg í veröldinni! Sum þeirra eru góð og tjá að mínu viti sannleikbrot og eru góð vísun. Takk fyrir mig.