Flóttamennirnir, Ragnar Kjartansson, Víkingur Heiðar og Bach

Víkingur Heiðar Ólafsson kom á fallegum júnídegi 2020 í himinbirtu Hallgrímskirkju. Skömmu síðar kom hópur flóttamanna í forkirkjuna. Ragnar Kjartansson var leiðsögumaður þeirra og á vegum Rauða krossins og hafði beðið Víking Heiðar um að spila! Ragnar hafði farið með karlahópinn í óvissuferð um miðbæinn. Þeir vissu ekki að Hallgrímskirkja var einn áfanginn. Við, prestar og kirkjuverðir, vorum búin að tryggja að kirkjan yrði opin. Eftir prestsávarpið talaði Víkingur Heiðar um Bach, tónlist hans og trúarafstöðu. Hann bað síðan alla um að setjast, kyrra huga og hlusta. Svo kom hann sér fyrir við flygilinn og spilaði orgelsónötu Bach no. 4 – BWV 528, þessa dásamlegu tónlist sem opnar himinn og mannahjörtu. Tónlistin hljómaði undursamlega, hvelfingarnar brostu og eyrun glöddust. Einn karlinn sagði við mig upprifinn: „Ég vissi ekkert um þetta fyrirfram, en þetta er það merkilegasta sem ég hef reynt á Íslandi.“ Hann var sér ekki meðvitaður um að hafa notið þjónustu tveggja af fremstu listamönnum þjóðarinnar. En þeir voru að þjóna landflótta fólki sem mikið hafði liðið og nutu þess besta. Þjónustuvilji þeirra félaga hreif, auðmýkt sem og hjartanleg gestrisni. Ekki verður betur tekið á móti flóttamönnum en með þessum hætti. Hallgrímskirkja var og er hlið himins.

Stutt brot frá flutningi Víkings Heiðars er að baki þessari smellu: IMG_9769