Slys, blóð og ástin í Barcelona

Fólk er flest undursamlegt og umhyggjusamt. Ég varð vitni að manngæðum og elskusemi þegar slys varð í Barcelona. Við sátum og biðum eftir paellu þegar hár hvellur glumdi og bergmálaði milli húsa. Allir hrukku við og ljóst var að umferðarslys hafði orðið. Ég leit upp úr Gaudi-bókinni sem ég var að lesa og sá unga konu falla til jarðar. Hún hafði brunað á mótorhjólinu sínu en ók á bíl sem hafði stoppað á rauðu ljósi. Þungar stunur bárust frá stúlkunni á götunni. Blóðið fossaði úr andliti hennar. Nærstatt fólk hljóp til og stumraði yfir henni. Tvö fluttu mótorhjólið upp á eyju. Fólk kom hlaupandi úr veitingahúsunum með servéttur og pappír til að stöðva blóðfossana. Svo byrjaði konan að gráta. Sjokkið skók líkama hennar og skjálftarnir voru rosalegir. Ég dáðist að hve fumlaust nærstaddir gengu í verkin, studdu hina slösuðu, struku engilslega bak hennar og handleggi, töluðu róandi við hana og aðrir hugguðu skekinn bílstjóra bílsins sem ekið var á. Einhver hringdi strax á sjúkrabíl sem kom eftir örfáar mínútur og annar skömmu síðar. Aðrir stýrðu umferðinni og beindu bílum frá svo hjúkrunarlið kæmist að strax. Verkaskiptingin varð á nokkrum sekúndum og margir lögðu lið. Hin slasaða var flut á sjúkrahús og vakt er yfir hjólinu þar til ástvinir koma og ná í það. Hjálmurinn sem stúlkan var með bjargaði miklu og kannski lífi hennar. Niðurstaðan um mikilvægi hjálma var okkur augljós og orðuð við borðið okkar. Slys verða en það var hjartavermandi að verða vitni að umhggju og kærleika sem konan naut. Vitundin um mannhelgi lifir í Barcelona. Mósaík lífsins er ekki aðeins í Gaudi-brotum heldur líka í fljúgandi mótorhjólum og aðvífandi englum í mannsmynd. Ást hinnar heilögu fjölskyldu sem túlkuð er í stórkostlegri basilíku Barcelona er iðkuð meðal fólksins í borginni..