„Því vatnið, sem streymir um æðar þess, erjafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.“
Lilja Sólveig Kristjánsdóttir (11. maí 1923 – 23. apríl 2015) var ekki aðeins trúarskáld heldur orkti hún vísur og ljóð af ýmsu tilefni eins og sjá má í bók hennar Liljuljóðum. Hún átti alla tíð auðvelt með að yrkja. Náttúruljóð Lilju eru mörg og djúpsækin. Meðal þeirra er íhugun um vatnið, áhrif þess, eðli og eigindir. Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta ljóð sem varð til í átakalausri hrifningu þegar Lilja var í landinu sínu, sátt við Guð og menn og naut náttúruhljóðanna. Hún íhugaði tengsl og líkindi manns og náttúru. Þá seitlaði þetta ljóð inn í huga hennar. Það er líka tjáning á hve skynjun og túlkun Lilju var víðfeðm.
Eftir að Lilja dó árið 2015 var hún jörðuð við hlið Siguringa, manns síns, í Fossvogskirkjugarði og leiðin þeirra merkt. En mig langaði að minnisvarði um Lillju væri líka í landinu þeirra austan í Ingólfsfjalli. Vatnsljóð Lilju var sett upp og koparsteypt á skjöld og undir er eiginhandaráritun Lilju. Við Þór Sigmundsson, vinur minn og mestur steinsmiða landsins, fórum austur og festum koparskjöldinn á bjarg við lækinn sem syngur svo fallega alla daga. Þrestirnir þeyttust um skóginn í ástarbríma og undirbjuggu sumarið og fjölgun. Hvönnin var byrjuð að senda lífsprota sína upp mót himni eins og sést á annarri myndinni. Meðan við Þór brösuðum við uppsetningu hækkaði lækurinn sönginn og við gátum tekið undir hvert orð Lilju. Blessuð veri minning Lilju og Siguringa.
Lækurinn skrafar. Ég skemmti mér við
að skilja þann hugljúfa, seiðandi nið.
Í flosmjúku grasinu hlusta ég hljóð
á hljómfallið þýða, hans ættjarðarljóð.
Gróðurinn mikli, sem umhverfis er,
með angan og fegurð, er hugsvalar mér,
frá vatninu líf sitt og litauðgi fær.
Hjá læknum öll náttúran blómstrar og grær.
Hjartslátt míns lands bæði heyri’ ég og lít,
er hlusta’ ég á lækinn og friðarins nýt.
Því vatnið, sem streymir um æðar þess, er
jafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.
Dýrlegt er land mitt með lækjarins nið,
öll litfögru blómin og söngfugla klið,
með víðáttu tæra og fönnum krýnd fjöll,
þá friðsæld, er bætt getur streitumörk öll.