Kjúklingaréttur fyrir elskuna

Jæja, drengir góðir, yngri og eldri. Nú er konudagurinn framundan og gerið konunum í lífi ykkar dagamun. Hér er tillaga að frábærum rétti til að elda sem reyndar er ljómandi fyrir alla góða daga. 

Fyrir 4.

Hráefni
1 msk olía
3 – 4 kjúklingabringur 800 gr
3 hvítlauksrif
100 gr sólþurrkaðir tómatar 10 -12 stk
360 gr risotto hrísgrjón (helst lúxúshrísgrjón t.d. cooks&co Mediterranean Risotto 2 pokar – fæst í Melabúðinni)
900 ml kjúklingasoð
200 ml matreiðslurjómi
salt, pipar, hvítlaukskrydd, paprika og tímían um 1 tsk af hverju kryddi.
fersk basilíka skorin niður og sett yfir hvern disk
parmesan ostur yfir réttinn

Aðferð
Skerið kjúklinginn í bita, steikið í olíunni og gegnsteikið. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar og timían. Skerið sólþurrkuðu tómatana í bita ásamt hvítlauknum. Smellið þeirri tvennu á pönnuna og steikið áfram í um 2-3 mínútur.

Hrísgrjónunum er síðan bætt út pönnuna og líka 900 ml kjúklingasoðinu. Blandið saman og setjið síða lok á og látið malla á miðlungs hita í um 20 mínútur. Mikilvægt að hræra einu sinni eftir um 10 mínútur, annars er hætt við að hrísgrjónin á botninum brenni við. Þegar 20 mínútur eru liðnar ættu hrísgrjónin að vera soðin. Blandið þá matreiðslurjómanum út í réttinn og berið fram. 

Berið fram með fersku salati. Og rífið parmesan yfir og toppið með ferskri basilíku. Hvítlauksbrauð eða niðurskorið snittubrauð.

Uppskriftin er frá Helgu Möggu í mbl og aðlöguð eigin smekk.  Svo biðst ég velvirðingar á heldur dapurlegri mynd sem er ekki í neinu samræmi við bragðgæði réttarins.