Maðurinn á meðfylgjandi mynd hefur í mörg ár verið mér vottur og vitnisburður um frelsi. Maðurinn er fatlaður en lætur þó ekki fötlun sína takmarka sig. Hann hefur frekar áhuga á möguleikum en hindrunum. Hann kom einn í Hallgrímskirkju í hjólastól. Hann var svo frjáls hið innra að hann aflaði sér tækja til að bæta aðgengi sitt og möguleika. Hann ferðast um allan heim. Ég talaði við hann og hann sagði mér frá lífi sínu og að mikilvægt væri að virða frelsið meira en hömlurnar. Svo spurði ég hann hvort ég mætti taka mynd af honum því mér þætti vænt um hugrekki hans og frelsi. Það var heimilt, líka að birta myndina.
Er ég frjáls, ertu frjáls? Lífsviskan staflast ekki upp innan í okkur af sjálfri sér. Það er ekkert sjálfsagt eða sjálfkrafa í lífinu. Vilji okkar, úrvinnsla, ákvarðanir okkar koma við sögu. Lífið er köflótt, oft flókið og erfitt og dregur okkur niður. En þó er lífið samt alltaf opið og veitir tækifæri til góðs og vaxtar. Mér var innrætt strax í bernsku þessi frumafstaða að fagna dögum og árum sem opnum veruleika. Ég las síðar bók Viktor Frankl um reynsluna af fangabúðalífi og að hver manneskja nýtur innra frelsis, jafnvel í hræðilegustu aðstæðum. Ég heillaðist af þessari afstöðu.
Ég aðhyllist róttækt frelsi en ekki niðurnjörvað líf og einhver skipuleggi líf okkar eins og við værum dúkkur í leikhúsi einhverra yfirskilvitlegra stjórnenda. Vissulega hafa erfðir og aðstæður áhrif en okkar er þó valið. Ég og þú veljum stefnu og hvað við gerum. Það er okkar ábyrgðarmál að bregðast við lífinu. Við megum velja hvort við tökum lífinu og vekefnum þess með skapandi hætti – eða ekki. Við getum valið að verða til góðs, þjóna öðrum og fara mjúklega með ungt og viðkvæmt líf. Þú velur lífssýn og lífsafstöðu. Róttækt frelsi opnar og hjálpar. Við búum öll við einhverjar skroður og hömlur en við ákveðum hvort fötlun okkar verða heftandi skorður eða ekki. Róttækt frelsi er stórkostleg gáfa hvers manns.