Þorum við út fyrir þægindaramma hins þekkta og fyrirsjáanlega? Getur verið að lífið sé bara innan ramma eða býr lífsnautnin kannski aðallega handan hans? Ég er viss um og fullyrði að tilgangur lífsins verður aldrei fundinn í ytra formi eða umbúðum. Það er ástæða til að spyrja hvort forrit huga og hegðunar séu góð og henti lífsleikni eða ekki. Við ættum reglulega að endurskoða þau mynstur lífsins sem eru á okkar valdi. Vani er góður en til lítils ef hann skilar ekki lífsnautn.
Allir þarfnast öryggis. En ramminn er ekki markmið heldur aðeins forsenda til að fólk geti undrast og glaðst. Ef lífið verður of vanabundið er hætta á að fólk fari á mis við hið góða og gjöfula. Vani getur jafnvel verið fyrsta stig dauðans því líf í vanaviðjum getur hindrað djúpar upplifanir og þar með þroska. Venjur og siðir eru lífsform en ekki inntak. Líf þarfnast ramma en líka sköpunar. Það þarfnast siðar en líka nýjungar, þarfnast venju en líka hátíðar. Allir þarfnast festu en líka ævintýris, hins djúpa og háleita. Ég tók afleiðingum af hugsunum mínum í upphafi árs. Í ár sleppi ég jólakortaskrifum og endurskoða vanaverkin. En stóra áramótaheitið sem ég strengdi er: Á þessu ári ætla ég að breytast.
Birtist í Vísi 7. janúar 2013. Myndin er af Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögmanni, á leið í samkvæmi sem Bósi Ljósár!