Séra Sigurður Árni Þórðarson hefur sent frá sér bók sem geymir úrval af hugleiðingum og ræðum hans. Þar er ástin leiðarstefið, en hann segir ástina vera hið djúpa inntak kristninnar. Kolbrún Bergþórsdóttir á Mbl tók viðtal sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. nóvember. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson/mbl
Ástin, trú og tilgangur lífsins er titill bókar sem geymir hugleiðingar og ræður séra Sigurðar Árna Þórðarsonar. Hann þjónaði sem prestur um langt skeið, síðast í Neskirkju og Hallgrímskirkju, auk þess að vera háskólakennari. Áður var hann rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum og starfaði á Biskupsstofu. Bókin er gefin út í tilefni starfsloka hans og sjötugsafmælis.
„Í bókinni eru 78 predikanir, valdar úr um þúsund íhugunum og predikunum sem ég hef flutt í Neskirkju og Hallgrímskirkju á árunum 2003-2023,“ segir Sigurður Árni. „Guðsorðabækur, postillur og predikanasöfn hafa verið hluti af bókmenntahefð á Íslandi alveg frá 1200 og mikilvægur þáttur íslenskrar menningar. Sem presti finnst mér að mér beri skylda til að skila af mér og það er eftirspurn eftir predikunum í samfélaginu. Ég hef birt ýmsar predikanir mínar á vefnum og jafnvel tugir þúsunda hafa skoðað sumar þeirra þar.“
Spurður hvort það sé einhver sameiginleg áhersla eða stef í þessum predikunum segir Sigurður Árni: „Leiðarstefið í öllu safninu er áherslan á ástina. Eftir því sem ég eldist og vitkast verð ég sannfærðari um að ástin sé sá þáttur sem er hvað vanmetnaðastur, vanvirtastur og vaniðkaðastur í samfélagi okkar.
Freud lagði áherslu á hvatirnar, aðrir á valdssókn mannsins, margir á hamingjusókn en ég held að sóknin til ástar sé það djúptækasta í fari okkar. Ástin brýtur fjötra af fólki og leitar annarra. Ástin er hið djúpa inntak kristninnar. Um hvað snýst sagan um Jesú? Um það að Guð er útleitandi ást sem sækist eftir tengslum og vill halda í hönd okkar, samanber hina frægu mynd Sköpun Adams í Sixtínsku kapellunni. Hatrið á að falla fyrir kærleikanum, umhyggjunni og ástinni og hinni útleitandi, elskuríku afstöðu.“
Þjóðkirkjan þarf að breytast
Kirkjan logar of oft í innanhússátökum, sem eru særandi fyrir trúað fólk, og maður spyr sig hvort kirkjunnar þjónar gleymi stundum kærleiksboðskapnum?
„Það er líklega ástarskortur í bland við ótta við breytingar. Uppreisn gegn stofnunum er víða í samfélaginu og ég held að það sé í sjálfu sér eðlilegt. Það er eðlilegt að fólk gagnrýni það sem er orðið óþarft og úrelt og þjónar ekki lengur fólki. Í trúmálum er þarft að greina að inntak og formgerðir. Kristnin er eitt og kirkjustofnun annað. Þjóðkirkjan þarf að gerbreytast en kristnin lifir góðu lífi og heldur áfram að gagnast fólki. Allt fólk leitar merkingar og skilnings. Sálinni er órótt þar til hún tengist hinu djúptæka sem í minni túlkun er ástardjúp Guðs. Sagan sýnir að kirkjustofnanir sem tapa áttum og ástríki eru óþarfar og falla. En ástarsókn manna er lífsmerki og tákn um leitina að merkingu og trausti til lífsins sem heitir trú á máli kristninnar.“
Miklar umræður hafa verið um upplýsingar í ævisögu Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik Friðriksson og ósæmilegt athæfi hans í garð drengja. Hvernig brást Sigurður við þeim fréttum?
„Það er sorglegt en þau sem eru verseruð í guðfræði vita að það eru engir dýrlingar til í þessum heimi og allra síst í hefð okkar lútherskrar kirkju sem hefur alltaf verið tortryggin á mannadýrkun. Ég sat einu sinni í fanginu á Friðriki þriggja ára gamall og hef heyrt og lesið um margt sem hann gerði vel. En svo heyrði ég sögu frá manni sem ég treysti. Hann sagði mér að Friðrik hefði stungið tungunni upp í hann, sjö eða átta ára gamlan drenginn. Það þarf að ræða svona mál en ekki fela þau.“
Raunsæi gagnvart lífinu
Það er vanlíðan í þjóðfélaginu. Þú hlýtur að hafa séð mikla vanlíðan í starfi þínu sem prestur.
„Já, víða. Það er mikilvægt hlutverk í prestsstarfinu að heyra og nema þegar fólk þarf á því að halda. Það kemur líka sterkt fram í mínum predikunum að Guð er hin róttæka nánd sem alltaf eflir og hverfur ekki á sorgarstund. Guð sendir fólki ekki erfiðleikana. Guð ýtir ekki á snjóhengjurnar til að þær falli yfir fólk. Guð er ekki valdur að óhamingjunni. Ég þekki bara Guð sem er umhyggjusöm elska, alltaf nálæg og ætíð til reiðu. Guð skapar möguleika en skipar þér ekki fyrir. Þú hefur leyfi til að gera hlutina öðruvísi. Við menn lifum í róttæku frelsi og ég túlka þessa pan-en-teísku guðsmynd og trúartúlkun í þessari ástarpostillu sem var að koma út.“
Það hlýtur að vera erfitt að þurfa oft að standa frammi fyrir sorg og vanlíðan annarra. Hvernig vannstu úr því sem prestur?
„Ég er gamall sveitastrákur og lærði mjög snemma að glíma við hrylling þess að það sem maður elskar getur dáið eða farið. Ég fóðraði kálfana á hverjum morgni og leið ægilegar kvalir þegar þeir voru teknir og þeim slátrað. Ég harðneitaði að borða þessa vini mína. Maður gerir ekki svoleiðis. Ég held að ég hafi snemma öðlast ákveðið raunsæi gagnvart lífinu. Svo varð ég fyrir margþættum áföllum í mínu eigin lífi. Ég fór í gegnum þau, mætti þeim en flúði þau ekki. Það varð til þess að ég varð betur í stakk búinn til að mæta áföllum annarra. Lífsreynsla hjálpar prestum og öðrum fagmönnum sem vinna með fólki í djúpri sorg og miklum áföllum. Ég hef uppgötvað hversu dýrmætt lífið er og þakka fyrir hvern einasta dag og þau undur sem við fáum að njóta.“
Þú hefur greinilega mikla ástríðu fyrir prestsstarfinu, finnst þér ekki erfitt að hætta því starfi?
„Nei, ég gegni mörgum hlutverkum og lifi af ástríðu. Ég er fræðimaður í grunninn og hefði vel getað hugsað mér að gera það að ævistarfi, fékk meira að segja boð um starf í Ameríku í gamla daga. Grúskið hentar mér vel. Vefurinn er líka skemmtilegur vettvangur til að birta efni. www.sigurdurarni.is er vefsíða sem ég held úti. Ég tek mikið af ljósmyndum og ætla að læra meira í ljósmyndun. Svo er ég í magnavita-námi Háskólans í Reykjavík og læri að verða skemmtilegt gamalmenni. Þar er tekið á öllum málum sem snerta þriðja æviskeiðið, hvort sem það er hugsun, fjármál, heilsa, mataræði, siðfræði, sjálfsvitund eða menning.“
Svo í lokin, þú hefur staðfasta trú á ástinni?
„Ég er viss um að Guð er ást, ástin hríslast í náttúrunni, lífinu og okkur mannfólkinu. Þess vegna er þetta allt svo skemmtilegt.“