María Reyndal er öflugur höfundur og leikstjóri. Er ég mamma mín? er meðal þeirra merkilegu verka sem hún hefur skrifað. Það hafði djúp áhrif á marga og varð ýmsum tilefni til að hugsa um eigið líf, mótun og áhrif. María hefur nú skrifað nýtt leikrit sem heldur áfram að skoða tengsl eða þó fremur tengslaleysi mæðgna og fjölskyldufólks. Titill leikritsins Með Guð í vasanum dró okkur Elínu Sigrúnu í leikhús. Þegar upp var staðið var enginn Guð í vasanum hvorki á söguhetjunni né í leikritinu. Heitið er því smellubeita án innstæðu.
Ása er söguhetja og burðarpersóna verksins. Við kynnumst smátt og smátt persónu hennar, öldrunarferli og heilabilun. Varnarhættir og viðbrögð Ásu eru túlkuð og oft með spaugilegu móti. Ást Ásu á tónlist verður henni til styrks en tónlistariðkunin líka flóttaleið. Átakanleg ferð Ásu inn í óminni heilabilunar er sálarslítandi. En ferðarlýsingin fer þó aldrei á dýptina en er túlkuð með smáhúmor og nokkrum klisjulegum kynningum.
Hin ýmsu lífshlutverk dóttur Ásu eru opinberuð í framvindunni og að hún kiknar undan þeim. Dóttirin fær sálarþyngsli í arf frá móður og ömmu og líður og farnast illa. Hún er í stöðugri baráttu við móðurina en reynir þó að gera gagn og tryggja velferð hennar. Hefð kvenna í þrjá ættliði er heilabilun og hryllingur hennar í lífi einstaklinga og fjölskyldu. Sólveig Arnarsdóttir leikur dótturina með trúverðugum hætti. Hlutverkið er grunnt og Sóveig hafði því ekki úr nægilega miklu að moða.
Alter-egó Ásu fær sérstakt hlutverk sem birtist í að því er virðist yfiskilvitlegri helgiveru. Ég hélt að veran ætti að vera guðleg nánd en svo kom í ljós að hún var brengluð sjálfsmynd Ásu. Englisguðinn varð því grynnri en búast hefði mátt við af fyrri hluta verksins. Vegna heilabilunar er Ása upptekin af sjálfhverfum minningum og á í vandræðum með tengsl. Sjálfsmynd hennar er því grunn og sú helgi sem leikstykkið gefur þessu alter-egó gufar upp. Persónan sem túlkar sjálfsmyndina verður því að engu. Spennandi persóna í fyrri hluta verksins hrundi og skaddaði framvindu verksins. Katla Margrét Þorgeirsdóttir lék Ásu snilldarlega en er fyrir minn smekk of ung í þetta hlutverk fyrir gamla konu með heilabilun. Ég skil vel að söng- og leikhæfni Kötlu hafi freistað leikstjórans en valið gekk ekki upp.
Kristbjörg Kjeld lék gamla vinkonu Ásu og var pottþétt í sínu hlutverki. Svo voru Rakel Ýr Stefánsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson í ýmsum litríkum hlutverkum og skiluðu sínu með sóma. Leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur framúrskarandi og lýsing Pálma Jónssonar sömuleiðis.
Leikritið Með Guð í vasanum er ekki fullburða, heldur fremur eins og fínt uppkast að leikverki. Eftir er að dýpka persónur, djúptengja við ættarsögu, ættarfylgjur, gildi, trú og ótta fólks við heilabilun. Búið er að safna saman ýmsum skondnum setningum eins og uppistandari gerir gjarnan. En eftir er að vinna úr góðum efniviði og búa til dýpri heild. Sýningin er kliður af klisjum.
sáþ 30. september, 2023. Kynningarmynd Borgarleikhússins á Með Guð í vasanum.