Í miklum hita sá ég einu sinni nunnur og presta í Assisi forðast að ganga í sólinni og þau gættu þess að vera alltaf í skugganum. Það var dálítið fyndið en ég skildi að með hoppum og stikli reyndu þau að forðast hitann. Ég hef gengið um Jerúsalem, Akka, Genúa, Róm, Malaga, Palma og fleiri suðrænar borgir og furðað mig á hve þétt húsin standa. Svo uppgötvaði ég að í þrúgandi hita er hagkvæmt að stutt sé milli húsa því þau verða fólki, dýrum og húsum skjól. Þau standa svo þétt svo sólskinið skíni sem minnst á vegfarendur og byggingar. Í skuggasundunum er þægilegra að ganga og sitja en í brennandi sólskini og steikjandi hita. Á suðrænum slóðum er mikilvægara að huga að hita og kulda en birtu. Því eru borgirnar í suðrinu með merkjum hugsandi skipuleggjenda. Á norrænum slóðum er mikilvægara að tryggja sem mest ljós en vörn gegn hita. Því er ólánlegt að byggja þéttstæð háhýsi í okkar heimshluta. Þá er ofuhitaarkitektúr ranglega laumað inn eða smyglað í ljósþurfandi byggðir. Þorp og borgir á að skipuleggja til að þjóna fólki og góðri líðan þess.
Í sumar fengum við fjölskyldan lánaða íbúð í gamla hluta Palma, hjarta borgarinnar. Húsið er aldrað, líklega nokkur hundruð ára. Hverfið er enn eldra og með þröngum götum sem halda brennandi sumarhitanum frá og hindra skyndikælingu á vetrum. Íbúðin er dásamleg og hefur verið gerð upp nostursamlega og smekklega. En ég furðaði mig á skipulagi hennar og húsanna í þessum gamla borgarhluta. Litlir gluggar með opnanlegum hlerum eru götumegin og mót suðri og allir svo gerðir að hægt er að loka þeim, bæði til að hindra ofurbirtu og hitamók sumardaganna en líka hitamissi í vetrarkuldum. Í miðju íbúðarinnar er enginn miðjugangur eins og í mörgum íslenskum íbúðum tuttugustu aldar. Í miðju húsanna í Palma er hins vegar ljóskeila. Húsin eru með miðjustrokk sem opinn er frá neðstu hæð og uppúr – tvær til fjórar hæðir. Gler er allan hringinn kringum ljóskeiluna. Á hæðunum hafa íbúar komið fyrir blómakerjum í strokknum og við hann. Innan við gluggana er síðan gangur sem nær í kringum ljóskeiluna og gengið er í herbergi, eldhús, baðherbergi og stofur þaðan í frá. Vissulega voru margar íslenskar íbúðir skipulagðar með hringgöngu en án ljóskeilu í miðju. Vissulega eru til síðari tíma ljóskeiluhús, eitt er í götunni þar sem ég bý og oft hef ég komið í hús með „japanskri“ miðju. Þessi Palma-útgáfa er áhugaverð og íhugunarefni. Brunahita haldið úti, vetrarkulda líka en ljósflæðið tryggt inn með ljóskeilu. Ljós frá miðju og svo inn í vistarverur. Skipulagið rímar við sólmiðju og guðsmiðju veraldar. Heillandi.