Síminn hringdi og rödd Eddu hljómaði. Örn vissi að hún væri í Kaupmannahöfn og væri á leið heim. Honum þótti vænt um að heyra í henni áður en hún færi út í vél. Í gegnum flugstöðvarhljóðin frá Kastrup heyrði hann að með henni væru listamenn sem væru að koma á vegum i8. Svo sagði hún honum að hana langaði til að bjóða hópnum heim þegar þau væru lent. Hún spurði því bónda sinn hvort hann væri til í að kaupa þrjú lambalæri og elda fyrir hópinn. Jú, mikil ósköp, hann sá ekkert til fyrirstöðu að græja máltíð fyrir heilan hóp. Hvað væri það sem hann gerði ekki fyrir Eddu sína? Svo kvöddust þau. Örn skrapp í búðina og náði í hæfilega hangið. Flysjaði svo hvítlaukinn, stakk beitta japanska hnífunum sínum í kjötið og síðan fóru hvítlauksgeirarnir í götin. Svo var saltað, piprað og gott ef ekki kryddað líka með slatta af oreganó, tímían og rósmarín. Svo kom hann þrennunni í ofninn. Úr varð langsteiking af því Edda var svo forsjál að hringja með góðum fyrirvara. Undursamleg lyktin mætti henni og hópnum. Það var upphafið að Íslandsævintýri með gjörningum og kraftaverkum sem þau hjón gátu saman töfrað fram. Þau voru frábært teymi. Gjörningar þeirra voru fyrir öll skynfærin og samfélag við borð er öllum gleðigjafi. Eins og kirkjur eru heimili best þegar þau eru borðhús, samastaður þar sem boðið er til borðs – til tjáningar, skoðanaskipta, unaðar krydds og lyktar, til veislu til að næra sálir, hjörtu, samskipti og nánd. Örn flaug manna hæst í veitulli mennsku. Lífið lifir.
Hvernig manstu Örn? Hvað var það sem hann sagði og þér þótti markvert og jafnvel viska sem þú lærðir og hagnýttir? Manstu taktana hans? Pípurnar eða hlýtt augnatillitið? Vel snyrta skeggið, formfestuna og víðsýnið? Í Erni voru ýmsar víddir, festa en líka opnun, djúp en líka hæð, smáfegurð en líka næmni á hið rosalega. Hvað þótti þér mest áberandi og hvað varð þér til eftirdæmi? Hvað lærðir þú af honum og hvað skilur hann eftir í þér eða hjá þér?
Örn var maður tveggja tíma. Hann naut staðfestu íslenskar menningar en líka breytinga tuttugustu aldarinnar. Hann naut hins besta úr kyrrstöðumenningu fortíðar en líka breytinga í hraðri verðandi nútímans. Hann var klassíker sem sótti í gæði og miðlaði. Hann sótti í opnun hins stóra, djúpa, fagra og magnþrungna. Ísland breyttist þegar hann var að alast upp og með festu fortíðar mætti hann óhræddur nútímanum – og þorði að beita sér.
Melaskóli var nýr þegar skólaganga Arnar hófst. Barnamergðin var mikil í vesturbænum. Hvert vildi hann fljúga þessi hæfileikamaður? Örn tók stefnuna á Verslunarskólann, lærði bókhald, reglu í rekstri, fyrirhyggju og mikilvægi yfirsýnar til að allt gengi sem best. Svo var það gæfa hans að hann tengdist Morgunblaðinu snemma. Örn varð þjónn þess í fyrstu og síðan leiðtogi í framsæknum hópi hæfileikamanna. Glöggur rekstrarmaður var þarfur í hringiðu miðlunar og stjórnmála eftirstríðsáranna. Ritstjórar og stjórn Árvakurs uppgötvuðu að Erni var treystandi á rólegum dögum og líka þegar þurfti að finna fé fyrir nýjum prentvélum eða flugvélum á gosstöðvar eða staði stórræðanna. Á sjöunda áratugnum var ungu fólki ekki lögformlega treyst fyrir horn með peninga. Þá urðu menn ekki fjárráða fyrr en 21 árs. En Örn var um tvítugt kominn með ávísanahefti stórfyrirtækis, borgaði reikninga Árvakurs, gerði fárhagsáætlanir og stundaði stórbisnis. Hið kostulega var að hann hafði ekki leyfi til að eiga ávísanahefti sjálfur. Síðar tottaði Örn pípuna sína og glotti yfir þessum furðum. Hann var á undan sinni samtíð. Hann þoldi ekki aðeins breytingarnar heldur var óhvikull þegar þurfti að endurnýja tækjabúnað og bæta aðstöðu Moggans. Hann vakti yfir gæðum og þróun tækni í útgáfumálum og þorði alltaf að sækja fram. Hann fylgdi eftir flutningi úr Kvosinni og inn í Kringlumýrina til að hægt væri að kaupa nýjar prentvélar. Hann vaktaði breytinguna úr blýsetningu yfir í tölvutækni. Var á öldufaldi tölvuvæðingar. IBM-tölvurnar, upphafstölvur til almenningsnota, þessar með MS-DOS-kerfunum og Word-Perfect voru bylting. Örn hikaði ekki að kaupa því þrátt fyrir vankanta upphafsáranna voru þær þó bylting frá ritvélum og setningu. Svo keypti Örn risaprentvélar fyrir Morgunblaðið svo ekki var lengur pláss í Kringlumýrarhúsunum. Enn ýtti Örn öllu af stað og Mogginn flutti að Rauðavatni þar sem rýmið var nægilegt fyrir breytilegan rekstur. Í Erni var framtíðin opin og hann var alla tíð framsýnn. Hann hafði auga fyrir tækifærum, fylgdist með breytingum, straumum og stefnum. Hann var hagsýnn en líka með opin augu og huga. Örn var á sinni vinnstöð nákvæmur gæðaeftirlitsmaður og öflugur mannauðsstjóri. Hann lagði upp úr góðri umgengni á vinnustað og gerði óþrifnað útlægan úr prentsölunum sem ekki var sjálfgefið í salarkynnum prentsvertunnar. Hann iðkaði mannvinsemd. Vinnufélagi hans kallaði hann kúltíveraðan sjentilmann sem var fyrirmynd samstarfsfólki.
En Örn var ekki bara Moggamaðurinn. Hann var maðurinn hennar Eddu. Hjón geta verið ólík ef þau eru sálufélagar og rækta virðinguna fyrir hvoru öðru. Fyrstu kynni þeirra Arnar voru kostuleg. Örn hafði verið í skóla í Englandi og kom til baka uppdressaður úr Harrods og betri búðum í London. Hann hafði jú alltaf auga fyrir vönduðum fötum. Edda kom heim til hans á Melhagann með vinafólki. Hann var í tveed-fötum og með flókaskó á fótum, ungur maður en algerlega á skjön við twist Elvistímans eða tísku samtímans. En fegurðardísin féll fyrir gæðaleitandi og fallega Anglófíl. Edda gerði sér grein fyrir að Örn var ekki eins og hinir strákarnir. Vinskapur þeirra þróaðist svo þvert á líkindi og þau áttu síðan í hvoru öðru gangrýna samstöðu, traust, virðingu og elsku. Alltaf stóð Örn með Eddu sinni. Hann dáðist að henni, verkum hennar, hugmyndum og list hennar. Alltaf studdi hann hana og hvatti til dáða. Hann gaf henni færi á fara til náms erlendis þótt drengirnir væru á barnsaldri. Svo studdi hann hana stofnun i8, tók á móti listamönnum heimsins og skapaði trygga heimahöfn. Hann gerði Eddu fært að sinna list sinnig og rekstri og hún gaf honum víddir og lífsliti í einkalífinu. Svo bar hún virðingu fyrir gleði hans, þörfum, listfengi og naut snilldar hans í kokkhúsinu. Edda gat örugg boðið fólki í þrjú læri og vissi að hann myndi eiga nothæft vín með matnum og verða dívum heimsins góður félagi.
Já, kokkhúsmaðurinn Örn. Hvað þarf til að verða góður kokkur? Jú, áhuga á mat, getu til að njóta, forvitni, bragðsækni, lyktargleði og litasókn. Fagurkerinn í Erni sótti í gæði. Móðurleggur hans hafði lagt upp úr fágun í heimilsháttum og líka varðandi mat. Amman austur í Fáskrúðsfirði hafði verið rómuð húsmóðir og móðir Arnar var henni engin eftirbátur. Örn hafði því alist upp við áhuga á meðferð matar. Örn varð ábyrgur heimilismaður strax sem unglingur og ábyrgur heimilisfaðir við hlið Eddu. Svo þótti honum gaman að standa yfir pottum og pönnum. Eldamennska hans varð ítölsk, kryddin voru gjarnan frá Miðjarðarhafinu. Svo þegar þau Edda voru á ferð erlendis voru augu, eyru og nef Arnar opin og hann þorði að smakka til að læra. Og varð síðan þessi afbragðskokkur. Hvítlaukur varð honum yndiskrydd. Eldhúsið varð honum kyrrðarsetur sálar og jafnframt vel lyktandi tilraunastöð fyrir gjörninga. Koli og rauðspretta, osso buco eða kjúklingasúpa.
Í gegnum matarilminn fannst líka reykur úr pípunni hans. Framan á blaðinu sem þið hafið í höndum er þessi dásamlega mynd af Erni með pípuna. Pípurnar voru honum ávallt nærri, þessar með hvíta punktinum. Það var ekkert haldið fram hjá með einhverjum eftirlíkingum, nei Dunhill var það alla tíð. Stefnufastur maður Örn og hafði einfaldan smekk. Hann vildi bara það besta – og því Dunhill með hvíta punktinum. Og líka besta tóbakið. Svo hreinsaði hann pípurnar sínar, skóf þær rétt og vel, tróð með natni og vel og kveikti í. Svo hvíldi pípan í hendi hans eða hann gældi við hana og reykurinn myndaði hvelfingu í kringum Örn og gaf honum hlé. Hann var í essinu sínu.
Örn var fagurkeri og hafði í sér getu og kyrru til að njóta. Hann var líka maður hljóma. En engin tónlist verður til án þagnar. Örn var óhræddur við kyrrð og sótti raunar í hana. Hann mat þögn mikils. Ekki streituþögn heldur þessa fylltu, orðlausu og gefandi kyrru. Í þögn með Erni fylltist rýmið af nærandi nánd. Þegar á unglingsárum hafði Örn lært að vera fatlaðri systur sinni natinn og náinn og hafði lært að umvefja fólk öryggi með hlýju kyrrunnar. Síðan lærðist honum að leyfa hljómum að umvefja eigin þögn og fleyga sálardjúpin með ljósi hljómanna og verðandinnar. Hann meira að segja stýrði sjóði til styrktar tónlistinni. Þessi minningarathöfn er sett saman af virðingu við tónlistarást Arnar. Í reglusemi daganna fór hann á fætur, setti plötu á fóninn eða disk í spilara og svo hljómaði músík heimsins. Verkin sem eru leikin og sungin í dag eru dæmi um eftirlæti hans og jafnvel það sem hljómaði þegar hann fór inn í himininn.
Örn fæddist inn í vorið 1939. Hann fæddist inn í veröld og menningu síðbænda- og útgerðar-menningar Íslands, kynslóðarinnar sem flutti á mölina og var handgengin aldamenningu Íslands. Foreldrarnir voru úr sitt hvorum fjórðungnum. Sigurbjörg, móðir hans, var að austan, fædd á Fáskrúðsfirði. Jóhann, pabbinn, var af hinum enda Íslands. Hann fæddist í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og vegna mikils barnafjölda foreldranna var hann fóstraður á prestssetrinu í Bjarnarhöfn frá fimm ára aldri þar til hann fór suður til vinnu. Jóhann var starfsmaður Landsbankans. Örn fékk frá foreldrum sínum kjarnmikið uppeldi, fágun, traust í samskiptum og gott umhverfi. Hann var eiginlega uppalinn í anda aldamótakynslóðinnar. Hann skildi gildi og gæði eldra fólks. En svo var hann líka maður nýs tíma. Í honum kysstust fortíð og framtíð. Örn hafði í sér festu en líka opnun. Klassík er það sem varðar gildi, efni, gæði eða undur lífsins. Örn varðveitti í sér virðingu fyrir gildum hins klassíska en svo var í honum stöndug virðing fyrir verðandi tímans. Við getum ekki lifað án fortíðar og festu en við byrjum að deyja ef við ætlum bara að endurtaka hið gamla og vanvirða þar með opnun. Örn varðveitti skipan, festu, þolgæði, gildi, manndóm og virðingu en hann var líka opinn, hugrakkur, víðsýnn og fangstór. Hann þorði að breytast og í því er Örn okkur hinum fyrirmynd. Hann var líka mannvinur og til fyrirmyndar. Hann stóð með fólkinu sínu, líka samstarfsfólki. Hann var óáreitinn en nálægur, hlýr og áhugasamur. Hann bar virðingu fyrir unga fólkinu og hvatti til dáða. Hann spurði og þorði að kynnast, velta vöngum og þroskast.
Svo hélt hann á djúpmiðin í andlegum efnum. Lestrarhestur sem tottaði pípuna og þorði að hugsa langar hugsanir. Spurði og vissi að meira væri í kringum okkur en við fengjum séð. Lesturinn, tónlistin, Frímúrarareglan, listin og kyrrðarstundir íhugunar opnuðu Örn. Hann þorði að fljúga hátt í heiðríkju vitsmunanna og hvelfingum tilfinninganna. Hann skildi ekki aðeins hið trúarlega heldur ræktaði með sér traust og elsku sem fléttaðist svo fallega í lífi hans. Svo heldur hann inn í Haga og Mela himinheimanna. Við vitum ekki hvort þörf er á tweed eða hvítlauk en guðsríkið er veröld gæðanna ef nokkuð má trúa miðlum þessa heims.
Hvað var þér mikilvægt í Erni? Hvernig viltu kveðja hann? Og spurningin varðar ekki aðeins minningar eða sorgarstrengi heldur líf þitt. Hvernig viltu lifa svo þú lifir vel? Hvað var það í Erni sem þú vilt iðka, læra af, efla þig með, taka í notkun? Er það mannvirðingin, ást á gæðum, þor til að opna, standa með fólki, þora að opna inn í veraldir handan skynjunar? Við kveðjum Örn í kirkju með hljómum, þögn, tilfinningu, jólagleði og von. Hann fjárfesti í fólki og hugmyndum, ekki til að fá greitt til baka heldur vera öðrum til eflingar. Allur boðskapur kristni veraldar – sem einnig kemur fram í djúpmynstrum trúarbragðanna – tjá að lífið er sterkari en dauðinn, réttlæti er sterkara en hryllingur, von er styrkari en vá. Elskan er sterkari en hatrið. Örn var fulltrúi elskunnar.
Hann heldur á Dunhill. Punkturinn sést og hringurinn á fingri hans er ástartákn um sambandið við Eddu. Augun horfa djúpt, skeggið fallegta snyrt, Og svo eru þrjár myndir að baki, verk konu hans. Þrenningartákn og myndin er helgimynd – og reiknivélin skaddar ekki. Svo nálægur en líka algerlega farinn. Nú nær hann ekki í fleiri læri til að tryggja að listamenn haldi áfram að skapa, hann eldar ekki framar osso buco eða dásamlega lyktandi kjúklingasúpu. Hann flysjar ekki fleiri hvílauka eða fær sér kola eða rauðsprettu með capers og drekkur með gott chablis. En tilveran er opin. Þegar Örn horfði á fólk – með pípuna sína á lofti og íhugandi brosvipru í augum – sá hann gullið og lífið. Það er æfiverkefni okkar allra að nema og njóta, miðla og efla. Hlutverk okkar allra er að lifa vel, lifa af nautn og til gleði, vinna úr fléttum ævigjörninga eitthvert það lífsgull sem gerir okkur hamingjusöm og verður öðrum líka til láns. Í því verkefni var Örn okkur fulltrúi Guðs.
Örn Jóhannsson, 7. apríl 1939 – 5. desember 2022.
Útför. Hallgrímskirkju 29. desember, 2022. Jarðsett í Sóllandi.