Þetta er jurt englanna, já og líka erkiengla. Hún heitir á latínunni Angelica archangelica, engla – erkiengla, eins og þurfi að ítreka engileðli, engiláhrif, engilráð. Að baki nafninu er reynsla fólks í þúsundir ára. Jurtin var ætihvönn, notuð til næringar, líka notuð til kryddunar í víngerð og til að bragðstilla rótsterka drykki. En það var lækningamáttur plöntunnar sem tengdi hana helst við engla. Klaustrin og kirkjumiðstöðvar voru lækningastöðvar fortíðar. Þar voru laukagarðar. Lækningajurtir voru ræktaðar, lyf þróuð og reynd. Kristnistöðvarnar voru eins og englar – til að bæta líf fólks.
Fyrirtækið Saga Medica varð til eins og arftaki laukagarðanna. Á þeim bæ hefur hvönn verið notuð til að bæta líðan og heilsu. Þráinn Þorvaldsson og fleiri stofnuðu fyrirtækið til hagsbóta fyrir fólk. Ég legg til að Þráni verði veitt fálkaorðan og hvönn verði í framtíðinni kölluð englahvönn.
Vinir mínir í Noregi kalla hvönnina Tromsö-pálma. Hvaðan kemur nafn rússnesku borgarinnar Arkangelsk? Frá nafni englahvannar eða frá hinum himnesku sendiboðum Guðs?
Myndina tók ég við Ægisíðu. Í forgrunni er hvönn og engilbjört ljóssúla hnígandi sólar speglast í Skerjafirðinum.