Vinátta

Uppástand RÚV þessa dagana er vinátta. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 2022 var þessi pistill minn fluttur á rás 1 í hádeginu, skömmu fyrir fréttir: 

Því stundum verður mönnum á.
Styrka hönd þeir þurfa þá,
þegar lífið, allt í einu – sýnist einskisvert.

Þetta hefur verið sungið á mörgum böllum. Oft hefur allur hópurinn á dansgólfinu gefið í þegar kemur að niðurlaginu um vináttuna:

Gott er að geta talað við – einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Er það svo? Hverjir eru traustir vinir? Gera þeir kraftaverk? Og hvað er að vera vinur? Bandarískur fræðimaður hélt fram að fjórðungur Bandaríkjamanna ættu enga vini – bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Hvað um okkur? Eigum við bara kunningja eða líka vini? Kunningjar geta skemmt sér saman og talað margt, en þó ekki um viðkvæmu málin. Það gera vinir hins vegar. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts og trúnaðar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna gagnkvæms trausts, umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar skemmtilegir félagar, en vinir efla hvern annan. Og reynsla mín sem prests er að þau hjónabönd dugi best þegar makar eru vinir en ekki bara félagar með aðgang að sama ísskáp og rúmi.

Í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið fyrir framan skjáinn:

Ekkert jafnast á við það,
að eiga góðan vin í stað.
Að standa tveir í hverri raun
eru vináttulaun.

Þó skáldskapurinn sé ekki rismikill skilst boðskapurinn – að það sé mikilvægt vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Í afþreyingarefni er vinátta fremur tengd börnum en fullorðnum. Þegar vinátta er gúgluð á netinu birtast aðallega myndir af bangsa, teiknimyndir eða myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru bestu vinirnir dýr en mennirnir eru frekar kunningjar og félagar?

Maður, sem ég hef þekkt í áratugi, kom í heimsókn til að tala við mig. Við röbbuðum saman, miðluðum fréttum og fórum víða. En svo kom að því að viðmælandi minn fór inn á svið, sem var hvorki einfalt né auðvelt. Hann var kominn til að gagnrýna mig og benda mér á bresti mína. Hann sagði mér frá göllunum, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni, sem ég hef svo oft talað við, dáðst að, stundum pirrað mig yfir en líka hrifist af. Ég fann hversu heill hann var og talaði við mig í trúnaði. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Vinur er sá er til vamms segir.

Allir þarfnast vináttu. Djúprit mannkyns tala um vinaþörf. Í Biblíunni er Guði lýst sem vini. Jesús sagði: „Ég kalla ykkur ekki framar þjóna … en ég kalla ykkur vini.” Vinirnir styðja þig í vandræðum tjá Tommi og Jenni. Og „traustir vinir geta gert kraftaverk“ var sungið á móti sól. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mig grunar að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinatengsl. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en vinir dýrmæti. Áttu vin? Hverjum treystir þú fyrir stóru málunum? Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Uppástand, mánudaginn 4. júlí 2022. Hljóðskráin RÚV er að baki þessari smellu.