Lífskúlurnar

Kennslustund var að hefjast. Kennarinn rogaðist með stóra glerskál að kennarapúltinu og kom henni þar fyrir. Síðan fór hann að veiða úr fötu golfkúlur sem hann setti í glerílátið. Þegar það var orðið kúfað spurði hann áhorfendur hvort hann væri ekki búinn að fylla það. „Já,“ svaraði hópurinn í stofunni. Þá tók kennarinn kassa með föndurperlum og hellti yfir kúlurnar sem fyrir voru, hristi glerílátið svo perlurnar sáldruðust á milli golfkúlanna og settust í holrúmin á milli þeirra. „Er það núna fullt?“ spurði hann. „Jaaá,“ muldraði hópurinn, sem fylgdist með þessum óvænta gjörningi í stofunni. Enn á ný lyfti kennarinn íláti. Nú var það fata með þurrum sandi, sem hann hellti yfir það, sem fyrr var komið. Sandurinn rann á milli allra kúlanna. Ótrúlega mikið magn komst fyrir. „Er ílátið orðið fullt?“ spurði kennarinn. Nú var orðið augljóst, að ekki væri ráð að svara of ákveðið, enda tók kennarinn upp ölflösku, opnaði hana og hellti í ílátið, sem tók lengi við. Nemendurnir hlógu og kennarinn kímdi. „Er það nú fullt?“ spurði hann. „Já, já,“ svöruðu þau. Kennarinn sagði: „Mig langar til að þið hugsið um það, sem þið hafið séð, og svör ykkar.

Stóru kúlurnar – verðmætin

Golfkúlurnar eru tákn um það, sem skiptir ykkur raunverulega máli í lífinu. Það eru fjölskyldur ykkar, makar og börn, vinir, heimili, vinnan og hugðarefni. Ef þið misstuð allt annað en hélduð þessum þáttum væri líf ykkar samt ríkulegt og gott. Litlu kúlurnar, sem runnu á milli hinna stærri, eru tákin um allt það sem ekki skilgreinir hvað þú ert í lífinu, t.d. í hvaða húsi þú býrð, hvort þú átt bíl eða hvaða gerðar hann er, hvert þú fórst í sumarfrí, hvort þú nærð að fara í borgarferð í ár eða ekki og annað álíka. Sandurinn er það, sem skiptir enn minna máli, t.d. hvort þú varst búinn að taka til í bílskúrnum, þværð þvottinn í dag eða á morgun. Ef sandurinn er settur í glerskálina fyrst er ekkert pláss, hvorki fyrir smáar eða stórar kúlur. Ef við fyllum lífið af smáverkefnum og smáatriðum er ekki lengur pláss fyrir það, sem máli skiptir og veitir hamingju. Gefið gaum því, sem varðar lífshamingjuna. Leikið við börnin ykkar, gælið við ástina og munið eftir leiknum í samskiptum við fólk. Munið eftir að sinna heilsurækt, hinu andlega lífi og heimsækja foreldra ykkar. Ef þessum málum er sinnt og þau rækt verður alltaf tími til að þrífa á bak við eldavél eða taka til í kústaskápnum. Setjið lífsþættina í forgangsröð. Aðalmálin fyrst og síðan annað í gildaröð. Lífið fyrst og annað er sandur. Einn nemandinn lyfti hendi: „En hvað með vökvann sem þú helltir yfir hitt?“ “Gott að þú spurðir,“ var svarað. „Það er nú einu sinni svo að hversu gott og ríkulegt líf þitt er, getur verið ljómandi líka að setjast niður með vini þínum og fá sér bjór!“ 

Verðmætamat og forgangur
Er viska í þessari sögu? Hvað er sandurinn í lífi þínu? Gerir þú of mikið úr þrifunum eða puðinu? Fer of mikill tími af lífi þínu í hringsól og snatt? Er ekki ráð að þú staldrir við og spyrjir hvað það er sem skiptir þig verulegu máli. Hvað má hverfa, án þess að líf þitt blikni? Hvað skaðar hamingju þína? Hvað myndi algerlega kremja í þér hjartað og eyða lífsgleðinni? Er lífsskál þín full af sandi eða er þar nóg pláss fyrir stóru lífskúlurnar? Er í þér ástarkraftur? Áttu nægan nægan tíma fyrir vini, börn, hlátur, strokur og kossa? Er eitthvað, sem mætti fara eða jafnvel verður að hverfa, til að meira næði sé fyrir það sem máli skiptir? Er einhver möl og grjót sem er í leið þinni. Hver er dýptin og hvar er Guð í þínu lífi? Jesús stendur hjá þér: Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Brautin hefur verið rudd. Þér standa til boða stórar og smáar lífskúlur. Það neyðir þig enginn til að lifa vel, en þér er boðið í veislu lífsleikninnnar.