Carl og Guðrún Ryden gáfu Hallgrímskirkju pálmann þegar helgihald hófst í kór Hallgrímskirkju árið 1948. Guðrún og mamma voru vinkonur. Mamma talaði oft við Guðrúnu í síma og þegar hún talaði um hana bætti hún alltaf frú framan við Guðrúnarnafnið. Þau Rydenhjón studdu kirkjulíf af krafti, studdu byggingu Hallgrímskirkju og lögðu fé til tækjakaupa, t.d. til kaups á klukkuspilinu í turninum. Guðrún Ryden tók þátt í kvenfélagsstarfinu og einnig starfi kristniboðsfélags kvenna. Þar sem þau hjónin ráku kaffibrennsluna Rydenskaffi gáfu þau gjarnan kaffi þegar eitthvað mikið stóð til og verið var að safna fé til framkvæmda eða útbreiðslu hins góða boðskapar í heiminum. Þegar mér var sagt að stofupálmi Hallgrímskirkju væri gjöf þeirra Rydenhjóna tengdi ég ilm af rjúkandi kaffi við pálmann. Pálmi Hallgrímskirkju var í kórkapellunni frá 1948 og til 1974. Þá var Suðursalur kirkjunnar tekinn í notkun sem guðsþjónustusalur og pálminn var færður þangað. Þar var hann til 1986 er kirkjan var vígð og farið var að nota kirkjuskipið. Þá fór Hallgrímskirkjupálminn í enn eitt ferðalagið og var komið fyrir í kirkjunni. Þar hefur hann verið síðan.
Á síðari öldum hafa pálmar og greinar þeirra verið tákn um frið og velsæld. Í frumkristninni voru pálmagreinar tákn um píslarvætti trúmanna. Meðal Gyðinga voru pálmagreinar tákn um sjálfstæði og sjálfræði. Þess vegna lagði fólk sem þráði politískt frelsi frá Rómverjum greinar fyrir fætur Jesú. Þau vonuðu að hann færði þjóð sinni hernaðarsigur. En velsæld er marglaga og margs konar. Hernaður er ekki trygging friðar. Ég sá einu sinni mynd af rómverskum peningi sem er táknræn fyrir harmsögu Gyðinga. Rómverjar slógu mynt eftir að Gyðingauppreisn hafði verið barin niður. Á peningnum er mynd af stórum pálma sem var táknmynd Palestínu og hluti hins frjósama hálfmána. Pálmar voru einkennistré og allt svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs var kallað Pálmaland – Fönikía. Þetta var Palm Beach þeirra Rómverja! Á rómverska pálmapeningnum var öðrum megin við tréð mynd af konu í hnipri. Hinum megin var mynd af stórum og ábúðarmiklum hermanni sem gætti konunnar. Konan var tákn um Gyðingaþjóð sem var ekki aðeins hersetin heldur líka kúguð. Hermaðurinn var fulltrúi þess valds sem líður ekki uppreisn. Þannig varð pálmapeningurinn tákn um gjaldþrot hinnar gyðinglegu uppreisnarstefnu sem aðeins ól hörmungar en enga von. Fólkið með pálmagreinar í höndum vænti herkonungs. Það varpaði eigin hugmyndum og þrá yfir á Jesú og vildi að hann uppfyllti sínar vonir. Það gerði hann ekki, því voru þessir pálmamenn tilbúnir að æpa hann til dauða nokkrum dögum síðar.
Alla helga daga berum við kross inn í helgidóminn í upphafi messu. Krossberi fer fyrir og heldur krossinum hátt á loft. Krossburður er tákn um að Jesús Kristur kemur til safnaðar síns. Krossinn er tákn um Jesúnánd. Í dag veifum við tveimur pálmagreinum sem voru skornar af pálma í Suðursal kirkjunnar. En við veifum líka íslenskum pálmum, þ.e. birkigreinum til að fagna komu Jesú. Hann var þó ekki á stríðsfáki eins og konungi hefði sómt, heldur reið ösnufola. Biblíufróðir rifjuðu upp hin fornu spádómsorð úr Sakaríabók að konungurinn kæmi sigursæll, lítillátur og ríðandi á ungum asna (Sak. 9.9). Fólkið veifaði pálmagreinum en innreið Jesú var ekki pólitísk eða veraldleg sigurganga. Lengi hafði þjökuð þjóð Gyðinga beðið lausnara, sem gæti hrakið burt hervald. Lengi hafði hans verið beðið sem nefndur var í spádómsbókum Gyðinga. Jesús reið ösnufola inn í samfélag vona, ekki aðeins himneskra heldur líka pólitískra, menningarlegra og hernaðarlegra. Alla fyrstu öld hins kristna tímatals kraumaði uppreisnarbál í Palestínu og er hið ógurlega samhengi sögu Jesú. Þorstinn eftir frelsi undan valdi Rómar endaði í skelfilegri baráttu Gyðinga um fjórum áratugum eftir atburði kyrruviku. Uppreisn Gyðinga var brotin á bak aftur með svo algeru móti að Gyðingar dreifðumst um allt hið rómverska ríki og áttu ekki afturkvæmt úr dreifingunni fyrr en nær tvö þúsund árum síðar með stofnun Ísraelsríkis.
Pálmi Hallgrímskirkju er fallegur. Hann er líka vitnisburður um elskusemi fólks í garð guðsríksins. Hann er eldri en kirkjuhúsið. Hann var þegar kominn til ára sinna þegar hann kom fyrst í kirkjuna. Hann er líka eldri en kirkjumunirnir. Að pálminn hefur lifað af flutninga, ryk og hitabreytingar er vitnisburður um að gott fólk hefur gætt pálmans vel og hlúð að honum. Enn hugsa ég um Rydenhjónin þegar ég sé hann í kirkjunni. Þegar ég kem að honum finnst mér ég finna daufan kaffilm af honum. En þegar ég hugsa um pálmann finnst mér mikilvægast að hugsa um hann sem Jesútákn. Ekki sem sigurtákn heldur tákn um gott líf. Flestir hafa tilhneigingu til að varpa eigin draumum á tilveru sína og vilja að allt gangi upp samkvæmt eigin skilningi. Þegar illa fer verða til ofbeldismenn sem með ofbeldi varpa eigin hugmyndum yfir á aðra og veröldina. Það er ekki leið trúarinnar. Þegar við fögnum Jesú á pálmasunnudegi hættir okkur til að fagna eigin draumi. En köllun okkar er að fagna Guði. Trúmaðurinn gengur ekki neinna annarra erinda en Guðs. Á pálmasunnudegi ættum við að leggja niður okkar eigin pálma og eigin blekkingar og opna augun fyrir djúpmálum lífsins. Nú hefst tími íhugunar á lífsdrama kristninnar sem eiginlega er um okkur, líf okkar og val. Ekkert okkar er án vanda og áfalla, en sagan er þó um að lífið er gott, Guð er nærri og sagan endar gæfulega. Af hverju er tré í kirkju? Til að minna okkur á að Guð elskar veröldina, lífríkið og mannfólkið.
2022, 10. apríl. Pálmasunnudagur.
Lexía: Sak 9.9-10
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.
Pistill: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.
Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.