Jóna M. Snævarr – minningarorð

Hvað er hamingja? Hvað þarf til að líf sé gott og gjöfult? Þessar spurningar hafa laumast að mér þessa daga stríðsfrétta. Myndirnar af fólki á flótta að heiman eru átakanlegar. En íhugun um líf Jónu hefur orðið mér sem sefandi blessun þegar tíðindin af heimshörmungum hafa borist. Það hefur verið nærandi hugsa um gleðiefni hennar og hvernig hún þjónaði af umhyggju og lipurð. Hún var heima, hamingjusöm og veitandi. Heima var auðvitað fyrir norðan, í öndvegi íslenskra dala, eins og segir í svarfdælasálminum. En heima var þar sem Stefán og Jóna voru. Hamingjan var þeim heimafengin og eðlilegur heimilisiðnaður. Heima er þar sem við náum að samstilla krafta hið innra og ytra. Heima er þar sem fólki og ástvinum líður vel, börn dafna og gamla fólkið finnur til öryggis. Heimaslóð er þegar nágrannar hafa frelsi og möguleika til að njóta lífs og búa við gleðilegan frið. Þannig var Svarfaðardalur á uppvaxtartíma Jónu, uppbyggingarsveit og bóklesandi samfélag. Þar var fólk sem bjó til vegi og brýr, efndi til leiksýninga, sagði litríkar sögur, rauk á fjöll til þess að gleðjast eða ná hærri sjónarhóli, greina plöntur, ljóða um lífsins undur, drauma og gróandi þjóðlíf.

Jóna naut þess að vera í fjölmenni og gleðskap. Hún var gleðisækin, hógvær, umhyggjusöm og nærgætin. Í henni bjó djúp mannvirðing. Hún vildi gleðja fólk og gera því vel. Jóna var gestrisin og efndi fúslega til mannfagnaðar. Svo skipulagði hún og framkvæmdi. Þess var aflað sem þurfti, svo var eldað og bakað. Þegar komið var að því að dúka sætti Jóna sig ekki við annað en það besta. Hún hefði auðvitað getað látið nægja að leggja aðeins á borð og undirbúa veitingar og láta þar við sitja. Nei, lágmarksviðbúnaður var ekki hennar stíll. Hún fór lengra, hugsaði um hvað dagurinn gæfi. Hún fór gjarnan út, svipaðist um í garðinum eða umhverfinu og notaði hið óvænta og fagra sem tíminn hafði skapað. Fagrir voru reyniberjaklasarnir, blómin eða haustlaufin sem urðu skraut á borði hennar. Gestir Jónu glöddust yfir yndisaukanum og fegurð borðhaldsins. Íslensk gestrisni, glaðværð og öguð fegurðarsókn fléttaðist saman í Jónu og íslenskir og erlendir gestir fóru frá heimili hennar með fegurð í augum, hlátur í eyrum og vitund um að lífið væri gott. Jóna var velgerðarkona í lífi, störfum, afstöðu og þjónustu við fjölskyldu. Presturinn átti því alltaf stuðning í konu sinni. Jóna var fulltrúi Guðs í veröldinni og verndari heimilis síns og sveitunga.

Sökkuupphafið

Jóna Magnea Snævarr fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar árið 1925. Foreldrar hennar voru sæmdarhjónin Rósa Þorgilsdóttir og Gunnlaugur Gíslason. Jóna var elst í systkinahópnum. Hin fjögur systkinin eru Dagbjört Stephensen, Halldóra Gunnlaugsdóttir, Þorgils Gunnlaugsson og svo fósturbróðurinn Halldór Arason, sem var tekinn í fóstur sem kornabarn. Af systkinunum eru tvö látin, þau Halldóra og Halldór.

Sökkuheimilið var fjölmennt menningarheimili. Rósa og Gunnlaugur höfðu gestrisni fyrir börnum sínum, vinnusemi, manndóm, sjálfstæði og dug. Uppeldisbragurinn var glaðvær og lífsafstaðan var sókn mót sólu. Sökkubærinn stóð hátt en var þó í skjóli Hamarsins fyrir norðanáttum. Útsýn Sökkufólksins í þessu öndvegi íslenskra dala var glæsileg. Stutt var milli bæja og félagslífið ríkulegt og metnaður ríkti í menningarstarfi þessarar þéttbýlu sveitar. Gunnlaugur var forystumaður í mörgum efnum. Hann beitti sér fyrir vegarlagningu fram dalinn og unga fólkið lærði að ekkert kemur af sjálfu sér. Ég heyrði sögur í bernsku af því þegar fólkið kom af bæjunum á Austurkjálkanum með skóflur og haka til að gera veg saman. Brautin var gerð og til góða fyrir samskipti og búskap. Enn njóta íbúar framsýni hugsjónafólksins fyrir einni öld. Sökkufólkið hafði einnig getu og dug til að vinna með náttúrunni til að auka gróðurvöxt og heyfeng. Áveitukerfi var gert á Sökkubökkum og engjum með stíflum, flóðgáttum og brúm. Hægt var að veita vatni víða. Áveitubakkarnir urðu grasgefnari en ella. Ég fór oft um bakkana í veiðiferðum bernskunnar og alltaf dáðist ég að Sökkumönnum sem voru ekki aðeins dugmiklir heldur urðu fyrirmynd öðrum sveitungum um metnað og stórvirki.

Jóna var efnisbarn og lærði snemma að taka til hendinni. Hún var handlagin og henni var treyst. Faðir hennar vildi gjarnan að hún væri með honum í störfunum. Alla tíð síðan var Jóna atorkusöm, lagin, fyrirhyggjusöm og skilaði því sem henni var falið. Hún var mögnuð Jóna. Í kraftmikilli og fjölmennri stórfjölskyldu varð Jóna læs á fjölbreytileika mannlífsins. Hún var félagslega hæf alla tíð, sem kom henni að notum þegar hún varð ung prestskona á mannmörgu og gestkvæmu heimili á Völlum þar sem þrjár kynslóðir fólks bjuggu saman, sterkir og stöndugir einstaklingar.

Nám og skólar

Svarfdælingar voru svo lánsamir að barnakennar í sveitinni voru góðir fræðarar. Jóna var þakklát fyrir að hafa notið kennslu hins rómaða kennara Þórarins Eldjárns á Tjörn. Eftir skólun í heimabyggð stefndi Jóna í Menntaskólann á Akureyri. Þá var kominn til starfa bráðungur prestur í Velli, Stefán Valdimarsson Snævarr. Hann var svo elskulegur að taka frændsystkin í kennslu til að undirbúa Akureyrarskólagönguna, þau Gísla Jónsson á Hofi og heimasætuna Jónu á Sökku. Eitthvað fleira en skilningsljósin hafa lifnað í þessari prestskennslu því þegar Jóna var kominn í MA nefndi Sigurður skólameistari í hópi fólks Jónu sem kærustu Stefáns Snævars. Jóna roðnaði út að eyrum vegna þessarar opinberunar trúlofunar og vildi helst sökkva í gólf. Jóna var tvö ár í MA og ákvað að ljúka námi með gagnfræðaprófi og fara í húsmæðraskóla. Kannski hefur kærustuparið verið búið að ráðslaga um framtíð á Völlum og álitið að húsmóðurfræðin væru hagnýt ekki síður en beyging latneskra sagna. Jóna hóf nám í nýjum húsmæðraskóla. Hún var ein af 48, sem hófu nám fyrsta árs skólans árið 1945 í nýju húsi sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað. Jónu leið vel í þessu nýja umhverfi og var metin að verðleikum. Hannyrðir höfðu verið stundaðar og víða af listfengi á bæjunum í Svarfaðardal. Amma Jónu sem bjó á Hofi vann t.d. til verðlauna á heimilisiðnaðarsýningu í Reykjavík. Jóna lærði að vefa hjá Soffíu, föðursystur sinni, og þegar hún byrjaði nám í húsmæðraskólanum var ljóst að hún var svo vel að sér við vefstólinn að henni var falið að kenna samnemendum sínum.

Stefán og barnalánið

Stríði var lokið. Jóna lauk námi frá húsmæðraskólanum og ástin blómstraði. Þau Jóna og Stefán Snævarr ákváðu að vera ekki bara umtalað par heldur að festa ráð sitt. Það gengu í hjónaband 1. júní árið 1947. Svo hófst liðlega tuttugu ára hamingjutími á Völlum. Þar hafði Guðmundur góði verið prestur, líka Páll Jónsson sálmaskáld og höfundur Ó, Jesú bróðir besti. Einnig höfðinginn Stefán Kristinsson, sem var einn af þremur guðfræðingum sem luku guðfræðiprófi á tuttugustu öld með ágætiseinkunn. Vallaheimilið hafði því verið menningarsetur í uppvexti Jónu. Hún vissi um stærð staðar og dúp sögu. En hún var tilbúin, sagði já við bónorðsósk og flestum lífs- og vinnuóskum Stefáns, bónda síns. Hún var tilbúin að gera fólkinu sem kom til kirkju gott, hvort sem var í gleði-og sorgarerindum. Hún var reiðubúin að þjóna öldruðum tengdaforeldrum og líka föðursystur Stefáns, sóknarfólkinu, sveitungum og ferðafólki. Vellir voru staður um aldir og þau Jóna og Stefán sátu staðinn með sóma og gáskafullri sæmd. Þökk sé þeim og lof.

Þau bjuggu líka við barnalán og voru svo skipulögð að öll börnin fæddust á föstudegi, Gunnlaugur Valdemar m.a.s. á föstudeginum langa! Elst barna þeirra Jónu og Stefáns er Stefanía Rósa. Hún er kennari að mennt. Maður hennar er Ingimar Einarsson, félags- og stjórnmálafræðingur. Börn þeirra eru Stefán Þór og Inga Jóna. Stefán Þór Ingimarsson er lögmaður. Kona hans er Anna Guðrún Birgisdóttir, viðskiptafræðingur, og synir þeirra eru Stefán Gunnar, Birgir Hrafn og Valdemar Björn.

Inga Jóna Ingimarsdóttir er hjartalæknir. Maður hennar er Gunnar Jakob Briem, verkfræðingur. Stjúpsynir hennar, synir Gunnars, eru Baldur Fróði, Jakob Orri og Ari Sigurður.

Gunnlaugur V. Snævarr var annað barn Jónu og Stefáns. Hann lést í september á síðasta ári. Gunnlaugur var kennari og yfirlögregluþjónn. Kona hans var Auður Adamsdóttir, kennari. Dóttir hennar og  stjúpdóttir Gunnlaugs er Þórhildur Erla Pálsdóttir, kennari.

Ingibjörg A. Snævarr, leikskólakennari, er þriðja barn þeirra Jónu og Stefáns. 

Vallaheimilið og prestsheimilið

Heimilislífið á Völlum var litríkt. Þó svarfdælsku Alparnir væru háir vissi Vallafólkið vel að mannlíf og menning væri handa þeirra. Tímarit heimsins komu í bæinn. Vellir voru beintengdir útlöndum. Danir voru gjarnan á heimilinu og börnin lærðu dönsku við bústörf og eldhúsborð. Heimilisandinn var frjáls og opinn. Þau Jóna og Stefán tóku þátt í nýja tímanum og bíll prestshjónanna var einn af þeim fyrstu í dalnum. Ef sækja þurfti ljósmóður eða hjálpa til við fæðingu eða læknisstörf var alltaf hægt að leita til þeirra Stefáns og Jónu. Gamla fólkið á Vallabænum lagði til skólunar ungviðisins. Svo var sungið, hlegið og glaðvær menning ræktuð. Kirkjan var og er við Vallabæinn. Það sem var til á heimilinu var notað í þágu kirkjustarfsins líka. Meira að segja jólatréð var fært út í kirkju í jólamessuna. Einu sinni fauk jólaskrautið í kirkjuferðinni út í buskann þegar verið var að færa tréð milli húsa. Börnin lærðu snemma að hjálpa til og Jónu þótti gott að fá hjálp í bakstri og undirbúningi athafna og hátíða. Til Valla var gefin mikil kirkjuklukka sem kallaði á stórt klukkuport. Á gamlárskvöldi dreif að fólk í Velli til aftansöngs og gleði. Börn sem fullorðnir fengu þá að hringja nærri tveggja tonna Íslandsklukku Svarfdælinga. Það var sjón að sjá þegar krakkapíslir sem hin eldri flugu upp, hangandi í kaðlinum, í kampanólógískum æfingum áramótahringinga. Það er gaman að eiga slíkar og bjartar minningar. Yfir öllu vöktu þau Jóna og Stefán og brostu.

Fyrstu árin ráku þau Vallahjón búskap meðfram prestsstarfinu. Skepnuhaldi var þó sjálfhætt þegar heilsu Stefáns var ógnað. Dalvík stækkaði sem þorp og árið 1968 fluttu þau Jóna til Dalvíkur og bjuggu þar síðan meðan Stefán þjónaði sem prestur og prófastur Eyjafirðinga. Jóna var alla tíð fús að reka fjölbreytilegt og gestrisið prestsheimili. Þangað áttu sóknarbörn fjögurra kirkjusókna oft erindi, í gleði og sorg, og reyndi þá á hlutverk og hæfileika. Jóna hafði áhuga á velferð fólks. Þau hjón voru samstillt um nýta hæfileika beggja í þágu samfélagsins. Þau voru líka samstillt að styðja þau sem þörfnuðust fjáraðstoðar, líka í Frakklandi og í Noregi. Siðferðisafstaða þeirra var hinn klassíska samstöðuafstaða kristninnar. Árið 1984 urðu starfslok Stefáns og Jónu nyrðra. Börn og ástvinir bjuggu fyrir sunnan og þau fluttu suður á Seltjarnarnes. Syðra varð heimili þeirra Jónu dekurreitur fyrir barnabörnin og jafnvel nágranna líka. Eftir lát Stefáns bjó Jóna í skjóli barna sinna þar til hún futti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, haustið 2017.

Minningarnar

Hvernig manstu Jónu? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það eftirminnilegasta sem hún sagði við þig? Hvað gildum blés hún þér í brjóst og hvað siðvit hafði hún fyrir þér? Manstu smiðsauga hennar og góða rýmisgreid? Manstu listaverk hennar og handverk? Áttu jafnvel eitthvað sem hún prjónaði og gaf þér? Manstu hreinlæti hennar, þennan ríka og góða arf sem hún hafði frá Sökkuheimilinu. Manstu hvernig hún þjálfaði huga, mundi fréttir og staði og fletti upp í Landabréfabókinni? Svo kunni hún þessi ókjör af ljóðum, öll tuttugu og átta erindin af Sveini dúfu, Gunnarshólma og Skúlaskeið og fleira og fleira. Jóna ræktaði það sem kallað var fásinnisminni, að muna mikið magn af upplýsingum, muna framvindu og samhengi og tengja svo rétt. Jónu þótti gaman að spila. Hún var góð í vist og svo þjónaði hún dóttur sinni og spilaði við hana marías. Jóna var fróð á mörgum sviðum. Hún var eins og margir sveitungar hennar kunnáttusöm um jurtir og gat á gamals aldri sagt frá tugum blóma í Gerðamóunum í suðurhlíðum Hamarsins. Jóna var blómakona og ræktunarkona. Rósirnar hennar blómstruðu fagurlega, Hawairós og hortensíur. Aldrei kvartaði hún, aldrei hrutu styggðaryrði af hennar vörum. Áhugasvið Jónu var breitt. Hún var meira að segja mjög kunnáttusöm um fótbolta og gat romsað upp úr sér nöfn helstu leikmanna Manchester United. Svo gat hún líka upplýst, eins og slyngur umboðsmaður, hvað Ryan Giggs og hinir leikmennirnir höfðu kostað! Svo fylgdi hún KA í handboltanum.

Jóna var eftirminnileg, glæsilegur fulltrúi íslenskrar sveitamenningar og kristni. Mér þótti hún dásamlegur nágranni sem allir virtu og mátu. Hún var þjónn síns svarfdælska samfélags. Hún var heima í menningu Íslands. En nú er Jóna farin inn í birtuna hinum megin stórfjallanna, inn í menningu himinsins. Þar þarf ekki að skafa toppskaflinn lengur til að sjá út í Sökku bernskunnar. Engin skyndileg útköll vegna fæðinga eða slysfara. Ekki lengur sungið, spilað eða hlegið. En hún skilur eftir sig mynd verndara Svarfdælinga. Sú ímynd hvetur okkur til að gera fólki gott og búa til heimlislega og friðsamlega veröld. Glettið bros hennar lifir í minni. Hún fer ekki framar í berjamó eða ræsir út sitt lið til að bjarga aðalberjum fyrir frost. Hún nær ekki framar í fagurrauða reyniberjaklasa til að leggja á borð og gleðja fegurðarskyn heimafólks eða gesta. Hún gleðst ekki lengur yfir árituðum landsliðstreyjum eða spyr um veðrið heima. Hún er heima, hjá Stefáni sínum, Gulla og stórfjölskyldunni – á Völlum eilífðar.

Guð geymi Jónu, Guð styrki þig og efli. Amen.

Minningarorð í útför í Neskirkju 23. mars, 2022. Kistulagning sama dag. LBE, Félagar í Fóstbræðrum, EHH, F&H ÚH. Landslagsmyndir úr Svarfaðardal SÁÞ en hinar myndirnar úr myndabók fjölskyldu Jónu og Stefáns. 

Kveðja frá Þorgils Gunnlaugsyni, bróður Jónu

Til þín sendi tregatón

tengdan dalnum þínum.

Minning  þín fær mæta sjón

í mynd úr huga mínum.

 

Um götu þína glói sól

á grænum hlíðum fjalla,

með ljúfum ilm úr laut og  hól

þér lykti tíma alla.