Ég eldaði þennan rétt eftir að Íslendingar sigruðu Frakka í handbolta með átta marka sigri, 29-21. Þetta var einn glæstasti handboltaleikur Íslendinga síðan gott silfur var gulli betra. Rétturinn er við hæfi á frábærum degi. Afar fallegur á diski. Svo voru allir svangir eftir mikil hróp og átök í sófanum 🙂
2 bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir
1 sæt kartafla
1 poki spínat
1 dós niðursoðnir kokteiltómatar
1 lítill rauðlaukur fínskorinn
Mangó- chutney 3 msk
2msk ólífur
Parmesan-ostur
Balsamik ca 1msk
Hitið ofninn í 190°. Flysjið sætu kartöfluna og sneiðið með ostaskera, flysjara eða mandólíni. Látið sæt-kartöfluflögurnar í stórt eldfast mót eða fat. Sletta af góðri ólífuolíu yfir, saltið og piprið og kryddið með eftirlætiskryddinu. Bakað í ofni í ca. 15 mínútur.
Steikið kjúklinginn á heitri pönnu. Kryddið með salti, pipar og rósmarín eða öðru eftirlætiskjúklingakryddi. Ég bæti oft chilikryddi við, en það er nú smekksatriði. Í lok steikingar setjið ofurlítið af mangó-chutney á kjúlinginn á pönnunni.
Þegar kartöflurnar hafa verið steiktar í 15 mínútur eru þær teknar út. Þá er spínatið sett yfir sætu kartöflurnar og síðan kjúklingurinn yfir spínatið. Koktailtómatarnir og ólífurnar síðan sett yfir kjúkling og rauðlauk síðan þar yfir. Að lokum parmesan-ostur og svolítilli ólífu-olífuolíu skvett yfir allt.
Setja síðan í ofn og bakið í 30 mínútur.
Þegar rétturinn kemur úr ofninum er balsamik-ediki dreift yfir allan réttinn. Borið fram með fallegu salati.
Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.