Börn Jóhönnu Bergmann og Hallgríms Smára Jónssonar komu þeim á óvart á gullbrúðkaupsdaginn þeirra. Jóhanna og Hallgrímur voru gefin saman í hjónaband í Hallgrímskirkju 20. september árið 1969 eða fyrir fimmtíu árum. Á þeim tíma var ekki búið að taka núverandi kirkju í notkun heldur sögðu þau já-in sín í kapellunni þar sem nú er kórinn. 50 árum síðar tóku tvö börn þeirra sig til og bjuggu til óvissudag fyrir foreldra sína sem byrjaði með heimsókn í spa og dekri. Foreldrarnir höfðu enga hugmynd um hvað gert yrði en treystu börnum sínum fullkomlega. „Eftir veislumat í hádeginu var haldið af stað og farið upp á Skólavörðuholt og inn í anddyri kirkjunnar en þar beið þeirra skrýddur prestur. Þá fóru þau að hlæja og gerðu sér grein fyrir að heimsóknin í kirkjuna væri annað og meira en að kíkja í kirkjuna og minna á að í kórnum hefðu þau nú verið gift,“segir Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju.
„Gullhjónin, börnin þeirra, afkomendur og vinir kveiktu á kertum við kirkjuinngang. Presturinn spurði hvort þau vildu halda áfram að elska hvort annað og efla. Og þau sögðu já, já. Tár komu á hvarma allra sem voru viðstaddir og áður en yfir lauk var þetta orðin fimm klúta gleðiviðburður,“ segir hann.
Jóhanna segir að þetta hafi verið skrítinn en stórskemmtilegur dagur sem kom þeim hjónum mikið á óvart. Þetta var óvissuferð hjá börnunum sem varð að dásamlegum degi. Þau voru búin að undirbúa daginn ótrúlega vel og allt gekk upp. „Barnabörnin sungu fyrir okkur en við eigum tvö börn, tengdabörn og fjögur barnabörn. Einnig var systir mannsins míns og dóttir hennar þarna. Mér fannst voða skrítið að sjá þær í kirkjunni og varð ekki síður undrandi þegar séra Sigurður birtist í fullum skrúða,“segir Jóhanna og hlær. „Við hjónin vorum ekki með neinar svona hugleiðingar. Vinkona mín og maður hennar endurnýjuðu heitin á Flórída og við töluðum um hvað það væri sniðugt. Sennilega hafa börnin heyrt það úr því þau tóku upp á þessu. Ég mæli hundrað prósent með endurnýjun á heitinu, þetta var eins og brúðkaupsdagur, allt svo flott,“segir hún. „Þegar við gengum inn í kirkjuna réttu barnabörnin mér brúðarvönd. Hann var nákvæm eftirlíking af brúðarvendinum sem ég bar á brúðkaupsdeginum fyrir fimmtíu árum. Einnig var brúðarterta á borðum hjá dóttur minni eftir athöfnina í kirkjunni,“segir Jóhanna en það voru ekki bara tár á hvörmum fjölskyldunnar þennan dag heldur einnig túrista sem voru að skoða kirkjuna.
Hallgrímur Smári, var fyrsta barnið sem skírt var í nývígðri Hallgrímskirkju árið 1949. Þess vegna fékk hann Hallgrímsnafnið. Svo naut hann kirkjunnar þegar hann gekk í hjónaband. Jóhanna rifjaði upp daginn, við vígsluna og hló þegar minningarnar þyrluðust upp. „Það var dásamlegt að kveðja þau við kirkjudyrnar.“
Fréttablaðið 26. október 2019.