„Hér munu íslensk lög ráða,“ sagði Heimir með áherslu. Fyrir mörgum árum voru nokkrir landar í Danmörk að erinda fyrir Skálholtsskóla. Heimir og Dóra höfðu útvegað bíl til að skoða borgina Århus. Eftir tilhlýðilega heimsókn á háskólabókasafnið settist Heimir undir stýri og ók út af bílastæðinu. Áttu ekki að beygja í hina áttina? spurðum við í kór. Hin íslenska lögverndaða leið varð afar stutt. Á móti okkur brunaði her af ógnvænlegum flutningabílum og nálgaðist óðum. Góð ráð voru engin önnur en að geysast upp á umferðareyju. Þar hló ökumaðurinn hjartanlega og við með honum. Þannig var Heimir. Hann fór sína leið, oft gegn straumi, en vissi hvenær bar að víkja. Hann sá alltaf hið skoplega, jafnvel í hinum krepptustu aðstæðum. Stundirnar með honum voru alltaf skemmtilegar, eftirminnilegar og jafnvel kostulegar.
Við leiðarlok þyrlast minningar upp. Fyrsta samræðustund okkar sækir í huga. Heimir sat í rektorssætinu “sínu” í matsal Skálholtsskóla. Pípan var í munnviki og glampi í augum. Viðmælendur sátu við borðið. Allt var eins og hann kaus sér helst. Einhver í hópnum hélt fram að gerlegt væri að vera fordómalaus og algerlega opinn. Glampinn varð að glettni og hann sagði einnig með áherslu: “Praejudicium” og bætti við spurningunni: „Er fordómleysi mögulegt?“ Honum var svarað að það væri versti fordómurinn að halda að maður væri fordómlaus. Hláturinn byrjaði í maganum, gusaðist síðan upp og höndin sló á lærið. Honum þótti snörp umræða skemmtileg. Það var gaman að rökræða og jafnvel skylmast við hann um guðfræði, pólítík, kirkju eða eitthvert mannlífsefni. Hugmyndir flugu og latína hans gerði okkur fákunnandi óörugg. Heimir var ósínkur á þekkingarmola og yddaðar setningar. Hljómfall raddar hans var ákveðið og með svo sérstæðu móti að vinir hans hermdu eftir ef vitnað var beint í hann eða haft eftir honum. Orðalagið var janfnan fyrnskuskotið og stundum barrokað. Hann var mikill íslenskumaður og lék sér á engi tungunnar.
Heimir setti svip á skólasögu áttunda áratugarins og ekki aðeins með stofnun og stjórn Skálholtsskóla. Hann skrifaði blaðagreinar og flutti eftirminnilega fyrirlestra í útvarpi um lýðháskóla og arf Grundtvigs. Heimir fór eigin leið í kynningum á helgistað þjóðarinnar þegar hann tók við störfum á Þingvöllum. Um margt var hann Skálhyltingur og Þingvellingur þegar hann varð útvarpsstjóri. Hann sá í RÚV klukku Íslands. En sú klukka varð orðið flókið tæknispilverk með óljósan hljóm og hentaði honum ekki. Í kirkjulífi var Heimir fyrirferðarmikill. Greinar hans um spíritisma 1975 vöktu athygli margra. Upphafið var grein í Kirkjuritinu “Tilvera til dauða – trúin hrein.” Þessi stutta en ágenga grein var blanda tilvistarspeki og andófs gegn spíritisma. Þetta var á þeim tíma nýr kokteill og olli uppnámi. Höfundurinn uppskar drífu af greinum bæði í Kirkjuriti og Morgunblaðinu. Þá kom í ljós hversu snöggur Heimir var að semja og hversu snjall stílisti hann var. Morgunblaðið birti hverja breiðsíðuna á fætur annarri, nánast daglega. Þær skemmtu þeim sem unnu trúfræðilegum burtreiðum. Margir töldu að Heimir væri kjörinn til biskups.
Heimir var flókin maður og margræður. Flestir kynntust honum í einhverju hlutverki og þekktu ekki manninn að baki grímu. Heimir gengdi mörgum störfum: Hann var rektor, þjóðgarðsvörður, rithöfundur, útvarpsstjóri og prestur. Hann tók þessi hlutverk sín alvarlega og gekkst upp í þeim, hafði stundum á orði: „The show must go on.“ Hann var í þjónustu málefnis eða stofnunar og þá gerði hann eins vel og hann gat. Störf Heimis voru gjarnan í margmenni, en líklega leið honum best í fámenni og samræðu. Hann var maður hinna mörgu orða og lýsinga, en leitaði kyrru og dýptar. Hann lenti í miðri röst nútíma og miðlunar en leitaði sögu. Hann sviftist til í flengingi óstýriláts tíma en leitaði hins stöðuga. Í störfum varð hann að opna sálargáttir móti poppmenningu og tæknivæðingu en mat mest forn fræði. Hann vildi fá að stjórna en leitaði sjálfur skýrrar leiðsagnar. Hann var mikill Danavinur en ræddi helst ekki um danska sögu á Þingvöllum. Hann var fræðimaður og skáld að áhuga en lengstum embættismaður að starfi. Hann var námshestur og unni háskólalífi en dró umsókn um kennarastöðu í akademíunni til baka. Hann var mikill tilfinningamaður og tók nærri sér lifun sína og bar ekki á torg. Hann mat mikils náttúru og menn en þó mest Guð. Heimir var bæði-og-maður með tilbrigðum. Hann gerði sér vel grein fyrir sálarþráðum sínum og óf með árunum æ betur úr þeim, sér og öðrum til gagns og gleði. Þegar Heimir féll frá sýnist mér sem hann hafi þrætt flest það sem laust hafði legið í lífinu fyrr.
Hann hafði snúið til baka, tekið til við fyrri störf. Hann hafði hafið nýtt líf á svo margvíslegan máta. Og það var hin íslenska leið. Enn kom Heimir á óvart. Við sem eftir sitjum erum enn að jafna okkur eftir óvænt dauðsfall. Við biðjum góðan Guð að geyma hann og líkna Dóru, börnum þeirra og ástvinum. Ég þakka allar gjafir Heimis fyrr og síðar í minn garð og minna. Dýpst er þakklætið fyrir grímulausar samræður. Við skiljum ekki þessa sóun, að hann skuli deyja svo ungur og með svo margt óunnið. En Heimir hafði lifað mikið, stundum hratt en oftast vel. Hann þekkti þessa leið sem hann fór nú. Það var hvorki íslensk eða dönsk leið eða einhver malbikuð gata. Það var leiðin heim.
Heimir lést 15. maí 2000. Þessi minningarorð birtust í Morgunblaðinu 24. maí. Myndir. Einkennismynd er af okkur Heimi syngja fimmundarsöng á fundi norrænna lýðháskóla-sambandsins. Mér sýnist á látbragðinu að það hafi verið Ó, mín flaskan fríða! Hin myndin er af Heimi í kennslustund í Skálholtsskóla og myndin er af vef Skjalasafns Árnessýslu. Heimir Steinsson leiðir Kötlu, dóttur mína, og ég hana, er við vorum á ferð á Þingvöllum 3. ágúst, 1991. Danskur lýðháskólahópur var á ferð og gisti í Skálholti og Heimir tók á móti hópnum.