Lasarusar heimsins

Lasarus Biblíunnar á sér marga nafna í heiminum. „Litli Lasarusinn minn“ segja sumir ástríkir foreldrar við veik börn sín. Og dýraeigendurnir skrifa á facebook að litli lasarusinn sé veikur – og eiga þá gjarnan við kisa eða hvutta. Lasarusarnir eru víða. Meira að segja í Hallgrímskirkju, fyrir framan skrifstofur prestanna, er Lasarus. Hann birtist í litríkri og glæsilegri mynd Karólínu Lárusdóttur, sem sýnir Biblíupersónuna Lasarus í Betaníu. Sá Lasarus er fyrirmynd og forveri flestra Lasarusa heimsins og er frægur fyrir að hafa dáið en síðan lifnað við. Á mynd Karólínu sést Lasarus koma út úr gröf sinni og Jesús tók á móti honum með uppréttar hendur. Ættingjar hins lifnaða Lasarusar standa forviða hjá og svo er fólk og pálmar í bakgrunni. Guli eyðimerkuliturinn sýnir þurrt og heitt umhverfið. Myndin er áhugaverð og minnir á að lífið er sterkara en dauðinn. Lasarusar eru til lífs. Lasarusarsögur er endurfæðingarsögur.

Lasarus – vinur Jesú

Í texta þessa sunnudags er sagt frá hinum upprunalega Lasarusi. Í guðspjöllunum eru reyndar til tveir menn með því nafni og þeir hafa ekki verið sami maðurinn. Annar er betlari í kennslusögu Jesú um hvað væri alvöru ríkidæmi og gott líf. En svo er það hinn Lasarusinn og sá var ekki bara sögupersóna heldur raunverulegur maður og vinur Jesú. Hann bjó í þorpinu Betaníu sem var um þriggja kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Þau bjuggu þrjú saman, hann og systur hans sem hétu Marta og María. Marta hefur síðustu áratugina oft verið nefnd Martra Smarta. María var hin systirin, ein af nokkrum Maríum í guðspjöllunum en Betaníu-María var hvorki móðir Jesú né María Magdalena. Systkinin í Betaníu voru öll vinir Jesú og hann kom því reglulega við hjá þeim þegar hann var á ferð. En svo dó Lasarus skyndilega og fyrir aldur fram. Jesús var fjærri þegar hörmungarnar dundu yfir en kom svo þremur eða fjórum dögum eftir útförina. Jesús harmaði vin sinn og grét. En svo varð atburðarás sem Jóhannes guðspjallamaður segir af íþrótt sagnamannsins. Það er ofursaga um mann sem dó og var færður í gröf sína. Þrátt fyrir líkur og lögmál lifnaði líkið við og Lasarus kom fram úr gröf sinni, lifandi í líkklæðum. Endurfæddur.

Trailer um Jesú

Sagan er stíliseruð og þegar grannt er skoðað virðist hún ekki aðeins vera um vin Jesú heldur jafnvel fremur um hann sjálfan. Sagan er eiginlega bæði spegilsaga – með efnisatriðum sem eiga við um meistarann, en líka kjörnuð spásögn um líf, dauða og upprisu Jesú. Sagan um Lasarus er nánast eins og kynning á upprisuferli Jesú, eins og trailer um Jesú, stytt útgáfa til kynningar á aðalmálunum. Lasarus gefur til kynna hver Jesús Kristur er. Hann væri Guðs, ofurmaður, ofurheilari, lífsmátturinn. Lasarus sem var sprelllifandi vinur dó í blóma lífsins – en lifnaði aftur. Endurfæðingin, upprisan, verður þar sem Jesús Kristur fær að lífga.

Við vitum ekkert meira um þennan holdgaða uppvaking. En af því guðspjöllin eru fámál um framhaldið hafði ímyndunarafl fólks aldanna heilmikið að spinna úr. Því eru til fjölmargar sögur um hvað varð um Lasarus. Ein er að stjórnvöld landsins hefðu ætlað sér að koma honum í gröfina að nýju. Hann hefði því orðið að flýja því það gekk ekki að maður sem hefði verið dauður gengi um. Ein sagan segir að hann hafi orðið biskup lærisveina Jesú á Krít. Svo er líka til helgisögn um að Lasarus hafi farið alla leið til Marseille í Frakklandi og orðið þar fulltrúi Jesú og kirkjuleiðtogi. Svona sögur urðu til vegna þess að helga varð kirkjustarf í dreifingunni við Miðjarðarhaf. Og það var auðvitað betra að stofnandinn eða leiðtoginn hefði verið vinur Jesú. Það gaf vægi.

Áhrifasagan

Sem sé ekki bara Marta smarta, María milda heldur líka Lasarus líflegi og tvílífi. Áhrifasagan er mikil í tvö þúsund ára sögu kristninnar. Ekki bara er talað um litla Lasarusa. Fjöldi málara hefur málað Lasarus. Söngvar, sálmar og ljóðflokkar hafa verið samdir og sungnir. Meira að segja David Bowie notaði stefið um Lasarus í söng sem hann flutti skömmu fyrir dauða sinn. Dostojevsky fjallaði um Lasarus, líka Herman Melville í Moby Dick. T.S. Eliot ljóðaði um hann. Svo kemur Lasarus víða fyrir í afþreytingarefni síðustu áratuga, kvikmyndum og þáttaröðum,  Casper, X-files og tímaritum um Batman. Og alls konar efni ber nafn Lasarusar. Einn þátturinn í Designated Survivor ber nafn hans. Jafnvel í steingervingafræði er nafnið Lasarus notað um þá steingervinga sem koma fyrir eftir að lífverurnar hefðu átt að vera útdauðar. Sem sé þessar sem lifðu lengur en þær áttu að hafa möguleika á. Áhrifasaga Biblíunnar er þykk og margvísleg og Lasarusarstefið er um að dauðinn dó en lífið lifir. Við menn erum Lasarus og kannski allt lífríki sköpunarverksins líka. Hvað um endurlífgun þess?

Stóri Lasarus?

Síðustu daga – þegar ég hef verið að horfa á fallegu Karólínumyndina – hefur sagan um Lasarus fléttast saman við umhverfisáherslur kirkjuársins. September og fyrri hluti október er tími hinnar grænu kirkju. Þjóðkirkja íslands – eins og margar stóru kirkjudeilir heimsins minna á – að sköpunarverkið, jarðarkúlan okkar, líður. Hún er orðin Lasarus, veikluð vegna skeytingarleysis, græðgi og spillingar. Jesús Kristur stóð alltaf með lífinu og kirkja hans þiggur þá afstöðu í arf, játar mistök sín og syndir og reynir að taka sönsum og kallar til endurfæðingar, til nýrrar vitundar um stóru verkefnin; standa með fátækum; tryggja mannréttindi, réttlæti, frið og velsæld allra. Kirkjurnar hafa játað og kennt að við menn erum meðábyrgir fyrir heimshlýnun og mengun vatna heimsins. Okkar sök er plastúrgangur sem ekki aðeins drepur lífverur hafsins, heldur er farinn að berast í blóðrás fóstra í móðurkviði og í mjólk mæðra sem gefa börnum sínum brjóst. Allt í einu sá ég Lasarus líka í náttúrunni.Mengunin er alls staðar og sjúdómurinn versnar. Þessi fallega náttúra er sjúk vegna aðgerða okkar manna. Ef ekkert verður að gert mun hún smátt og smátt deyja. Hún er orðin Lasarus, vinur Jesú, en dauðvona.

Ég man eftir því að þegar ég var barn og lá heima í flensu kom mamma stundum að rúminu mínu og sagði blíðlega við mig: „Litli Lasarusinn minn.“ Einhvern tíma mótmælti ég ávarpinu og sagði henni að ég héti ekki Lasarus og vildi ekki vera litli Lasarus. Mamma benti mér þá vinsamlegast á að Lasarus í Biblíunni hefði verið mjög lasinn, hann hefði meira að segja dáið en samt hefði hann fengið nýtt líf. Lasarusar heimsins hefðu möguleika og von. Svo bætti mamma við að Guð gæfi okkur líf, heilsu, blessun og endurfæðingu. „Litli Lasarusinn minn.“ Ég sá samhengið að við værum í góðum höndum og fannst jafnvel að mér liði heldur skár. En náttúran er ekki litli Lasaarusinn heldur stóri Lasarusinn. Við viljum ekki að fyrir henni fari eins og Lasarusi í Betaníu, að hún þurfi að deyja til að lifna aftur því sá dauði væri dauði alls lífs. Guð sem faðir og móðir elskar litla Lasarusa og þann stóra líka. Ef Lasarusarsagan var trailer um Jesú er saga Jesú um veröldina líka. Við erum aðilar að mengun sem krossfestir og útrýmir dýrategundum og plöntutegundum. En okkar hlutverk er að vinna með Guði svo stóri Lasarus lifi og hressist. Nú erum við kölluð til að næra lífið en ekki dauðann – ganga erinda lífsins og þar með Guðs.

Amen. Prédikun í Hallgrímskirkju, 19. september, 2021. Þriðja textaröð. Choir of Clare College í Cambridge söng í athöfninni. Myndin meðfylgjandi er ljósmynd mín af Karólínumyndinni. 

Lexía: Job 5. 8-11, 17-18
Ég mundi leita til Guðs
og leggja mál mín fyrir hann
sem vinnur ómæld stórvirki,
kraftaverk sem ekki verður tölu á komið.
Hann gefur jörðinni regn
og sendir vatn yfir vellina.
Hann upphefur smælingja
og syrgjendum verður hjálpað.
Sæll er sá sem Guð leiðbeinir,
sá sem hafnar ekki ögun hins almáttka
því að hann særir en bindur um,
hann slær en hendur hans græða.

Pistill: Fil 1.20-26 
Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa. Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Guðspjall: Jóh 11.32-45
María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Þegar Jesús sá hana gráta og þau gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“ Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“ Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. Jesús segir: „Takið steininn frá!“ Marta, systir hins dána, segir við hann: „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“ Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.