Þingvallakirkja

Þingvallakirkja er smá en lykill að dyrum hennar er stór. Helgistaðurinn Þingvellir eru stórir en kirkjan er miðjan. Kirkjan var reist sumarið 1859 og vígð á jóladegi sama ár. Kirkjusmiður var Eyjólfur Þorvarðarson frá Bakka á Kjalarnesi en hann smíðaði einnig kirkjuna í Brautarholti á Kjalarnesi. Þingvallakirkja er með bindingsverki og í sama stíl og flestar timburkirkjur frá miðri 19. öld. Listasúð er á kirkjunni að utan, en spjaldaþil innan stokks. Þegar von var á konunungi árið 1907 var smíðaður nýr turn á kirkjuna. Fyrstu áratugina var kirkjan bikuð að utan, en var máluð á síðasta áratug 19. aldar. Mætti huga að bikun að nýju þegar kirkjunni verður næst gert gott til.

Úttekt 1860

Í úttekt á hinni nývígðu Þingvallakirkju segir í prófastsvísitasíu frá 1. júlí 1860: „Kirkjan er tæplega eins árs, vel byggð úr eintómu timbri. Hún er á lengd rúmar 12 álnir og á breidd rúmar 8 álnir, stafasætin 3 3/4 ál. í 5 stafgólfum. Sætisstofa í þremur fremri stafgólfum, en íbjúg súðshvelfing yfir þeim tveim innri. Hún er þiljuð innan súþarþili  til hliða í brúnása, innri gaflinn upp undir hvelfingu en fremri gaflinn upp undir bita. Altarið er lágaltari. Knéfallið er að ofan fóðrað með grænu klæði… …Til kirkjunnar er allt sem vandaðast og pryðilega frá öllu gengið.“

Besta umsjón og umhirða

Fimm árum síðar eða 1865 var lögð rennisúð á kirkjuna og turninn. Þá var turninn klæddur með timbri, en hafði áður verið varinn með þakdúk, sem reyndist illa og hefur væntanlega lekið. Næstu ár er í vísitasíugerðum sagt, að kirkjan sé góðu ástandi og njóti bestu umsjónar og umhirðu, enda hefur hún sjálfsagt notið þess að prestsaugun voru á kirkjunni og ferðamenn gistu í henni! Við úttekt vegna prestaskipta 1879 (sr. Símon Beck lést og sr. Jens Pálsson tók við embætti) sjá úttektarmenn enga galla. En tveimur árum síðar var farið að bera á fúa í listum.

Árið 1884 var gert við kirkjuna. Allt ytra þakið var tekið af henni, einnig allt innra þakið á suðurhlið og nokkuð af innra þakinu á norðurhlið. Var það timbur sem ekki var fúið síðan notað og nýju bætt við. Þá var einnig rifið það af turni, sem var rotið og fúið. Turnþak, turnveggir og allt kirkjuþakið voru þakin norskum spæni.

Árið 1890 var farið að ræða um að mála þyrfti kirkjuna. Ætlunin var að drífa í því strax það sumar. En ekki varð þó úr fyrr en þremur árum síðar, rétt fyrir vísitasíu Hallgríms Sveinssonar biskups árið 1893. Yfirvofandi biskupskoma hefur gert mörgum kirkjum gott. Í vísitasíugerð segir, eftir að getið er nýmálunar m.a.: „Kirkjan er yfirhöfuð lekalaus og í allgóðu standi. Þó vottar fyrir bilun á gólfslám í kórnum, sömuleiðis er grundvöllurinn ókalkaður og sumsstaðar dálítið bilaður og þyrfti að bæta úr því innan skamms.”

Þingvallakirkja skekktist í skjálftunum árið 1896. Þá fór að bera á fúa og hafði prestur góð orð um, að hann ætlaði að járnverja kirkjuna á næstu árum. Fyrir vísitasíu 1901 var grunnur steinlímdur, gert við bilanir á suðurhlið og austurgafli og þá var farið að járnverja því suðurhliðin var komin með járn. Þó spónn hafi verið farinn að bila eftir 17 ára álag var kirkjan lekalaus við aldamótin 1900. Á næstu árum var svo bætt við þakjárni utan á kirkjuna. Kirkjan var því um tíma nokkuð sundurgerðarleg.

Laglegur Rögnvaldarturn

Þegar prófastur vísiteraði árið 1905 sagði hann að honum þætti kirkjan of sviplítil og lagði fram teikningar húsameistara ríkisins að kirkjuturni. Áætlunin var samþykkt og 9 álna hár turn var síðan byggður. Efst var „ … kúla og þar uppaf stöng og vindhani með ártali.” Ártalið 1907 var miðað við turngerðina og hefur síðan ruglað fólk um aldur kirkjunnar.Til að auka dýrðina var turninn málaður ljósgrár að neðan en rauður að ofan og “… er yfirleitt mjög laglegur.” segir prófastur í vísitasíugerðinnni.

Þrátt fyrir góða hirðu fór margt að bila á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, en lítið var þó gert. Ástæðan var “dýrtíð og fátækt kirkjunnar.” Árið 1915 voru stokkar undir gólfi kirkjunnar eru orðnir lélegir og þröskuldur farinn að fúna. Fleira var að og metið svo, að ekki yrði undan viðgerðum vikist. Bætt er við „…ef kirkjan verði ekki endurbyggð bráðlega” svo ástandið hefur ekki verið gott. En kostnaður skyldi greiðast af landsfé, „ … þar sem kirkjan standi á svo fornfrægum stað.” Ekkert varð þó úr stórviðgerðum. Tillögur voru svo gerðar um að rífa kirkjuna og byggja “almennilega” kirkju úr steinsteypu. Úr þeirri framkvæmd varð þó ekki og dittað var að kirkjunni í tengslum við Alþingishátíðna 1930. Fyrir lýðveldisstofnun var að nýju rætt um hvort rífa ætti gömlu kirkju og byggja nýja, þ.e. úr steinsteypu. Mín skoðun er að Þingvallakirkju þyrfti að gera sem upprunalegasta í útliti, þ.e. bika hana, þótt halda mætti í turninn af arkitektúrsögulegum ástæðum.

Hver á kirkjuna?

Þingvellir voru lén (beneficium) og sátu prestar Þingvallastað, líklega allt frá elleftu öld. Eftir að 1928-lögin um helgistaðinn (þjóðgarðinn) Þingvelli tóku gildi hefur Þingvallanefnd farið með húsbóndavald á Þingvöllum. Ráðbreytingin ruglaði og ekki var ljóst hver réði hverju í málum kirkjunnar. Af varð reiptog milli heimafólks og Reykjavíkurvaldsins eins og það var stundum kallað. Oftast var þó góð samvinna þó stundum væri nuddað. Tilefnin voru ýmis, t.d. lýðveldishátíðin 1944 og hundrað ára afmæli kirkjunnar árið 1959, þröngbýli á prestsetrinu, sem Þingvallanefndarmenn hirtu oft ekki um, þegar nefndin réð fyrir einni burst bæjarins.

Árið 1962 var rætt á fundi sóknarnefndar hver ætti Þingvallakirkju og grafreitinn. Ákveðið var að skrifa biskupi til að fá úr þeim spurningum skorið. Tilefnið var m.a. hver ætti að sjá um viðhaldið og viðgerðir á kirkjunni. Þingvallanefnd hafði ráðist í framkvæmdir án samráðs við sóknarnefnd. Síðan hefur ríkisvald, þ.e. Þingvallanefnd, gætt þess að eiga góða samvinnu við heimafólk í Þingvallasveit. Hefur kirkjunni jafnan verið vel við haldið síðustu áratugina, málað hefur verið reglulega og gert við skemmdir.

Frá og með 1953 sátu prestar Þingvelli og allt til 1997. Þá yfirtók Þingvallanefnd, f.h. ríkisins, prestssetrið og breytti því í mótttökuaðstöðu forsætisráðherra og aðstöðu fyrir starfsmenn þjóðgarðsins. Lögin um þjóðgarðinn (frá 1928) breyttu ekki eignarstöðu Þingvalla. Þeir voru kirkjueign þótt lögin feli ríkinu umsjón. Þingvallalögin eru því lög um nýtingu fremur en um breytingu á eignarhaldi. Ríkið hefur í flestu verið góður ráðsmaður Þingvalla, en þarf að æfa sig reglulega í tillitssemi við eiganda staðar, kirkjuhússins, þjóðgarðs og Þingvallajarðar. Óbyggðanefnd vann ágæta skýrslu með úrskurði sínum um þjóðlendur í Árnessýslu. Nefndin kvað ekki upp úr með eignarhald Þingvalla. En ríkið eignast ekki kirkjulendur þótt því hafi verið falin ráðsmennska í nokkra áratugi.

Instrumenta et ornamenta

Predikunarstóllinn er frá 1683 en fríkkaður af Frank Ponzi á seinni hluta tuttugustu aldar. Árið 1883 var í vísitasíugerð getið, að kirkjunni hafi verið gefin klaka-öxi! Oddhaginn Einar Jónsson gerði skírnarsáinn, en kvenfélagið í hreppnum gaf hann kirkjunni. Tinfat, sem hékk á vegg og var notað við skírnarathafnir, hvarf úr kirkjunni nærri miðri 20. öld. Sögur fóru af hvarfinu og m.a. að það hafi verið notað sem púnsfat á heimili í Reykjavík. Orgel var fyrst keypt til Þingvallakirkju 1911 fyrir samskot safnaðarfólks og fyrir arð af tombólu.

Getið er í vísitasíu árið 1911, að altaristafla eftir Anker Lund hafi verið gefin kirkjunni, líklega 1896. Saga er að baki. Smekkur heimafólks í Þingvallasveit hafði breyst frá því Ófeigur Jónsson, Heiðarbæ, hafði smíðað töflu um 1834, gert liti og málað síðan altaristöflu. Ekki allir voru sáttir við hinn næfa stíl og hangikjöt á borði fyrir framan Jesú Krist. Að frumkvæði Kristjáns, bónda og hreppstjóra, í Skógarkoti var ný tafla hins afkastamikla málara Anker Lund keypt. Gömlu töflunni var svo komið í verð. Ferðagarpurinn Disney Leith, sem oft gisti í Þingvallakirkju, keypti hana og fór með til Englands. Hún gaf töfluna sem minningargjöf til sóknarkirkju sinnar, St. Peters, í Shorewell á Wight-eyju. Þar var hún og gleymdist flestum þar til farið var að undirbúa ellefu alda byggðarafmæli Íslands árið 1974. Eftir nokkra leit fannst hún og var gefin kirkjunni að nýju. Eftirgerð prýðir hina ensku kirkju, ljómandi vel unnin tafla og ástæða til að leggja krók á leið til eyjarinnar og vitja þessarar Þingvallasögu í Englandi. Báðar töflurnar, Ófeigs og Nasarenatafla hin danska Anker Lund, eru nú á austurgafli Þingvallakirkju.

Heimildir:

Máldaga-Inventaríi-og Reikninga-bók Þingvallakirkju frá 1829 – 1959.

Vísitasíugerðir biskupa: Pjeturs Pjeturssonar, 1874; Hallgríms Sveinssonar, 1893 og Þórhalls Bjarnarsonar, 1911.

Matthías Þórðarson, Lýðveldishátíðin,  m.a. bls. 271.

Skoðun Svavars Þorvarðarsonar og Aðalsteins Maack frá 3. nóv. 1989 (tilv. húsameistara K031191.STH.).

Um leitina að Ófeigstöflunni í Englandi og Disney Leith gerði Magnús Magnússon skemmtilega heimildarmynd sem er aðgengileg á youtube. Sjá https://www.youtube.com/watch?v=yKyGS6DsxSY

Meðfylgjandi myndir. Katla, Saga og Þórður uppáklædd til að fagna dr. Richard von Weizsäcker forseta Þýskalands 17. júlí 1992. Einkennismyndin er frá 1993 og Þórður er í fangi mér að fagna gestum.