„Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. En hvað um Guð?
Hallgrímur Pétursson var ofurpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur lífs. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma. Hún er saga um hvernig hægt væri að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi og sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir allt ástarfólk.
Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur getum við komist að mörgu um Guð. Við getum líka skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.
COVID-tíminn er tími þrenginga og endurskoðunar. Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort leggjum við á flótta og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd, þarfir eða áföll. Í Biblíunni og öðrum klassískum, kristnum bókmenntum eins og Passíusálmum er sagt frá lífi fólks. Þar er sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er svo sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins og öðrum áföllum. Það er erki-ástarsagan, um Guð, um heiminn og saga um fólk. Kristnin kennir að lífið er ekki aðkreppt heldur ástarsaga möguleikanna. Líf okkar er svo sannarlega stundum furðulegt, gleðilegt og sorglegt. En saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um okkur öll. Það er gott að elska.
Gleðilega páska á COVID-tíma.
Grein í Mbl á skírdegi 2021. Myndin er af gluggaskreytingu í stórverslun í San Francisco sem ég tók í janúar 2018.