Spænskur pönnukjúklingur

Fyrir 4.

Upprunalega uppskrift fyrir héraleggi en er dásamleg kjúklingauppskrift. Ekki nota úrbeinaða leggi heldur með beininu. 

Kjúklingaleggir 16 stk (3 – 4 á mann)

½ glas vatn og grænmetiskraftur eða kjúklingakraftur

2 gulir laukar

2 paprika – helst í lit!

1 hvítlaukur (þ.e.heill en ekki 1 lauf!)

steinselja, salvía eða annað ferskt krydd – ég átti salvíu í potti.

rósmarín 1 msk.

cayennepipar 2 tsk.

salt og kjúklingakrydd

lárviðarlauf 3-4 stk.

ólífuolía

(Fyrir þau sem vilja kraftmeiri útgáfu er hægt að steikja smátt skorið bacon með, 200-300 gr. og bæta yfir kjúklinginn áður en grænmetið er sett yfir fyrir langsuðuna. Svo er ljómandi að fínskera eitt fræhreinsað chili líka og bæta út í).

Laukurinn og paprikan grófsöxuð og steikt í olíu. Sett til hliðar. Kjúklingurinn kryddaður með kjúklingakryddi, rósmarín, cayennepipar, salti, salvíu og pönnusteiktur. Síðan er hvítlauk, lárviðarlaufi og forsteiktu paprikunni og lauknum ásamt kryddinu skellt yfir og beint á pönnuna. Uppleystum grænemtiskrafti og vatninu hellt yfir. Síðan er allt látið malla á loklausri pönnunni í 45 mínútur.

Berið fram með uppáhaldskjúklingameðlæti. Ég nota gjarnan bygg eða hrísgrjón og svo grænmeti. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.