Jónína Stefánsdóttir + minningarorð

Mér þótti vermandi að hitta Jónínu. Hún horfði ekki aðeins í augu mín þegar við heilsuðumst heldur brosti hún. Ekki aðeins með andlitinu heldur líka augunum. Ég hreifst af getu hennar til að fagna viðmælanda og fannst mikið til um mannvinsemd hennar. Svo hafa börnin hennar og ástvinir sagt mér sögur um hana. Ekki aðeins heimilissögur og vinnusögur heldur líka sögur um uppátæki, getu hennar og visku. Jónína var til eftirbreytni. Hún var fyrirmynd og leggur afkomendum sínum til afstöðu og gerðir til eftirbreytni.

Hvað sýnist ykkur t.d. um matarboðin hennar Jónínu? Já, hún var mjög góður kokkur og gat hæglega boðið heim og til veislu. En kannski var það ekki það sem freistaði unglinganna hennar, barnabarnanna, mest. Nei, svo hún bauð þeim út að borða. Þau máttu velja veitingastaðinn og hún borgaði. Svo naut Jónína með þeim gefandi kvöldstundar. Þau gátu rætt saman í ró og næði. Hún náði sambandi og þau kynntust skemmtilegri ömmu sem þorði. Svo fékk Jónína auðvitað í leiðinni gott yfirlit yfir matarmenningu höfuðborgarsvæðisins, hvað steikhúsið Argentína væri að gera; hvað var í gangi á Dillinu. Jónína var svo opin að hún fagnaði sjö rétta óvissumáltíð sem gleðilegu ferðalagi.

Það er eitthvað heilagt og djúpmannlegt við þessa samskiptaaðferð Jónínu. Kirkjur eru byggðar í kringum matarborð. Kristnin er matarhefð, fólk er kallað saman til að vera saman, tala, ræða um stóru málin og þau litlu. Fræðast og efla mannúð og samheldni, kærleika og lífsgæði. Það eru allt þættir í lífi Jónínu Stefánsdóttir. Hún var líka kona stundarinnar, nýunganna, hlátranna, gleðinnar og kærleikans. Hún bauð ungviðinu út að borða til að njóta, vera saman, rækta tengslin – vera. Í því er guðssambandið fólgið, opna fyrir allar víddir mennskunnar, inn á við, út á við, til náttúrunar og upp í óravíddir eilífðar, til Guðs.

Uppvöxtur og samhengi

Jónína var vorkona og fæddist í mars í Strandhöfn í Vopnafirði. Það var á afmælisári þúsund ára Alþingis, árið 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Jónsson og Sigríður Jósefsdóttir, sem bjuggu í Strandhöfn,Purkugerði og Hámundarstöðum. Jónína var næstelst í hópi fjögurra systkina. Hildur var elst og fæddist árið 1928. Hún lést árið 1991. Guðni Jóhannes var þriðji í röðinni og fæddist árið 1932. Hann er einnig látinn. Ingibjörg var yngst, fæddist árið 1939, og hún lifir systkini sín. 

Vopnafjörður var gjöfult menningarhérað á uppvaxtarárum Jónínu. Hún var sveitastúlka, gekk til allra verka, lærði að vinna og líka að trúa á mátt sinn og megin. Hún var hesteigandi. Svo var hún músíkölsk og langaði til að læra á hljóðfæri. Þegar hún var aðeins fjórtán ára unglingur bauð hún í og keypti harmóníuorgel. Það var ekki aðeins gott og hljómþýtt hljóðfæri heldur líka glæsileg stássmubla – gerð af sænska orgelsmiðnum KA Andersen (sem reyndar gerði nokkur orgel í íslenskum kirkjum, t.d. Hofstaðakirkju og Ljósavatnskirkju). 

Skólagönguna byrjaði Jónína á heimaslóð og sótt síðan nám í Alþýðuskólann á Eiðum á árunum 1947 –49. Þar naut hún skólastjórnar Þórarins Þórarinssonar og fræða úrvalshóps kennara. Jónínu gekk vel í námi og hún var afbragðs námsmaður. Hvað ætti hún að gera eftir gagnfræðapróf? Jú, Jónína var vön vinnu í sveitinni en þó hún hefði getað orðið bóndi var í henni útþrá og þjónustuþörf gagnvart fólki. Hún setti stefnuna á hjúkrun. Hún skráði sig til náms í Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist í september árið 1953. Síðan starfaði hún við fag sitt víða og á mörgum hjúkrunar- og umönnunar-stofnunum.

Jónína var hjúkrunarfræðingur við Landspítalann frá því hún úskrifaðist úr skóla og til febrúar árið 1954. Þá fór hún norður með manni sínum og vann á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá desember 1954 og til apríl árið eftir.Jónína hafði frá unglingsárum áhuga á geðheilbrigðismálum og tuttugu árum eftir hjúkrunarútskrift skráði hún sig til framhaldsnáms í geðhjúkrun og lauk í árslok 1976. Hún vann svo á sjúkrahúsum og stofnunum á höfðuborgarsvæðinu frá 1970. Fyrst á Borgarspítalanum, síðan á Kleppsspítala, þá í Hafnarbúðum, íSunnuhlíð og síðast á geðdeild Landspítalans frá 1989 og til starfsloka. Jónína hafði áhuga á fólki, velferð þess og heilbrigði. Hún ræktaði með sér mannúð og mannvinsemd og var ávallt reiðubúin að koma fólki til hjálpar. Af því að hún mat fólk jákvætt og sá í öllum fegurð hafði hún líka lag á fólki sem aðrir áttu í erfiðleikum með. Hún sá gildi í fólki, gæði í kynlegum kvistum. Hún horfði á fólk með jákvæðni og mannúð kærleikans. Jónína var því mikils metin.

Jónína og Guðsteinn

En hjúkrunarstarfið gat reynt á. Einu sinni var Jónína komin í miklar ógöngur. Sjúklingur hafði náð taki á hári hennar og tók fast í. Starfsmaður sá aðfarirnar, en hann var með sprautu í höndum og vildi ekki henda henni ekki frá sér til að koma hárreittri konunni til bjargar. Jónína sá útundan sér og í stimpingunum að hann lagði sprautuna varlega frá sér og þá var hann tilbúin að leggja henni lið. Jónínu þótti maðurinn bæði ótrúlega skipulagður, varkár og skýr í viðbrögðum og vildi því kynnast honum betur. Já, þetta var Guðsteinn, hún var þá hjúkrunarnemi og hann læknanemi. Þau urðu kunningjar, svo vinir og settu svo upp hringana og gengu í hjónaband 3. febrúar 1954.

Þau Jónína og Guðsteinn voru félagar, samstiga lífsförunautar og vinir í meira en fimmtíu ár allt þar til Guðsteinn féll frá árið 2004. Þau Jónína stóðu saman. Hún studdi mann sinn, fór með honum lífsferðirnar, umspennti hann og börnin, studdi hann í starfi, hvort sem var fyrir norðan eða í Súgandafirði, sem og fyrir sunnan. Fjölskyldan var saman í Uddevalla þegar Guðsteinn hóf sérnám, sem varð reyndar styttra en áætlað hafði verið vegna veikinda móður hans. Svo fóru þau aftur til Suðureyrar þegar þau komu frá Svíþjóð en fóru svo suður eftir að Jónína varð fyrir alvarlegum bakveikindum. Svo bjuggu þau hér á höfuðborgarsvæðinu, lengstum á Álfhólsvegi og þar var félagslífið ríkulegt og heimilið opið stórfjölskylduheimili. Jónína var auk allra annarra starfa stórhúsmóðir á heimili sínu.

Þau Jónína og Guðsteinn eignuðust fimm börn. Þau eru eru Stefán (f. 1954); Rósa (f. 1956); Sigríður (f. 1962); Hallgrímur (f. 1965) og Karl Jóhann (f. 1966). Þau tóku tengdabörnum opnum örmum og fögnuðu og nutu barnabarnanna, en eitt þeirra er látið. Þessu fólki, tengdabörnum, venslafólki og ástvinum var Jónína glaður og hollur vinur, fræðari og stuðningur. Hún sinnti barnabörnum sínum, fór á milli heimila til að taka á móti þeim er þau komu úr skóla, baka handa þeim lummur eða pönnukökur og vildi tryggja lærdóm þeirra. Þökk sé henni fyrir hve ástsamlega hún þjónaði sínu fólki.  

Minningarnar

Hvernig manstu Jónínu? Hún var góður námsmaður. Drátthög og góður teiknari og gat jafnvel teiknað dýr. Heststeikningin hennar lifir í fjölskylduminninu sem dæmi um getu hennar. Jónina var sjálfstæð alla tíð og tók eigin ákvarðanir í lífinu. Hún vildi ekki vera öðrum háð. Hún ræktaði frelsi og eigin styrk. Jónína er því fyrirmynd afkomendum sínum og vinum. Jónína var huguð og þorði að fara eigin leiðir. Hún hikaði t.d. ekki að fara nýgift og ólétt um hávetur austur til foreldra sinna þegar henni fannst hún verða að vitja þeirra. Og ferðin var mikilvæg og augljóst að hún var ekki aðeins jarðbundin heldur var líka gefin fjölskynjun og stefnufesta. Faðir hennar lést þegar hún kom og ferðin var henni því afar mikilvæg.

Jónína var fróðleiksfús og leitaðist ávallt við að efla kunnáttu sína og menntun. Og hún fór jafnvel utan til að ná betra valdi á ensku. Hún var í Edinborg í þeim erindagerðum árið 1985.

Jónína vildi alltaf láta gott af sér leiða, fólki nær og fjær. Mannúð einkenni hana og hún var gjafmild. Jónína var pólitísk og studdi þau stjórnmál sem hún taldi þjóna jöfnuði, mannréttindum og góðri sambúð við land og annað fólk.

Manstu orðaforðann hennar Jónínu? Hún mat bókmenntir mikils og þau Guðsteinn voru samstiga í áhuga á bókmenntum og ríkidæmi máls. Hún var ræktandi og blómin hennar brostu við heimilisfólki og gestum. Svo stunduðu þau Jónína og Guðsteinn skógrækt. Þau voru hugsjónafólk og sáu sig í þjónustu við samfélag og náttúru.

Manstu skaphöfn Jónínu, styrk og hversu skýrmælt hún var? Manstu hve röggsöm hún var. Jónina var dugmikil, forkur, rösk og ósérhlífin í vinnu. Hún var vel verki farin. Hún var kjörkuð og stefnuföst og vílaði ekki fyrir sér það sem var erfitt. Hún var þakklát fyrir það sem hún hafði og naut og kvartaði ekki. Í henni bjó ríkuleg og jafnvel óbugandi seigla.

Skilin og eilífiðin

Nú eru orðin skil. Jónína er farin. Hún bakar ekki lengur lummur handa þér eða býður fóki í svið. Hún teiknar ekki framar eða vefur eftir ljósmyndum. Hún saumar ekki framar eða prjónar. Listakokkurinn eldar ekki framar fyrir þig eða gerir undraveislu úr afgöngum. Hún fer ekki í hjólastóla-gondólaferð í Feneyjum eða framar á tónleika. Hún er farin inn í Strandhöfn eilífðar, til Guðsteins og allra sem hún var búin að sjá á eftir inn þá tryggu höfn. Við hugsum til hennar, þökkum fyrir hana, rifjum upp, drögum heim lærdóm og visku hennar. Og lærum af henni að rækta tengslin og þora að fara gondólaferðir þrátt fyrir hjólastóla eða í mathús heimsins til að geta horft í augun á afkomendum og ástvinum.

Guð geymi Jónínu og Guð styrki ykkur ástvini .

Amen.

Við þessi skil hef ég verið beðinn um að bera ykkur kveðjur frá Hlyni Ás Hallgrímssyni í Danmörk og ennfremur kveðjur frá Ingu og Ebergs börnunum á Álfhólsvegi 97.

Minningarorð við útför Jónínu. Kistulagning og útför 4. desember, 2020. Bálför. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.