Hvað er lífið? Guðsteinn var í miðju hins opinbera lífs en þó var hann líka utan við. Hann var einbeittur, skýr og klár, en þó ekki algerlega séður. Hann var hreinskiptin en svo djúpur að ekki var séð til botns. Hann vildi norræn fræði en verteraði yfir í heilbrigðisvísindin, þráði greinilega fræðimennsku og grúsk, en helgaði líf sitt beinni hagnýtingu fræðanna. Útför Guðsteins Þengilssonar var gerð frá Neskirkju 9. desember 2004. Minningarorðin voru birt á síðu sem nú er niðurlögð og ég birti ræðuna að nýju hér að neðan.
Sótti í bækur
Lítill Guðsteinn hjá ömmu á Þórðarstöðum, með bók í höndum. Hún hjálpaði hnokkanum upp í rúm, fingur fór eftir línunni, svo var lesið. Skrjáfandi blað, stafir, greinarmerki, eyður, línuskil, orð, orðasambönd, mislangar setningar. Hvað merkti þessi stafahrúga, hvernig var hægt að skilja þessa orðabendu? Orðin, fléttan og sagan öll komu til hans og fönguðu hug hans.
Svo mátti hann lesa upphátt fyrir fólkið sitt. Nýju bækur lestrarfélagsins rötuðu heim og svo fékk hann líka að lesa húslestrarbókina. Það skipti máli að lesa vel ekki síst þau orð. Alla tíð síðan las hann grannt. Hann hreifst af bókum, safnaði þeim, stráði um sig spekinni og deildi með sínu fólki ævintýrum þeirra. Eru ekki blaðsíður í góðri bók gæði fyrir lífið?
Þegar þau Guðsteinn og Jónína hófu búskap áttu þau lestrarstundir. Hún með eitthvað á prjónum eða barnaplögg í höndum og með eyrun opin. Hann með sögur herlæknisins, Gerplu, Þórberg eða ljóð Jóns Helgasonar og las fyrir konuna sína, það sem hreif hann. Hann kímdi og leiftraði.
Orð, bók og líf
Í síðustu bók Biblíunnar segir:
“Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)
Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður byrjaði með orð til að tjá veruleika lífsins, forsendur þess og tilgang. Orð voru við upphaf veraldar, engin ónytjuorð, heldur orð sköpunar og verðandi. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar. Og við enda Ritningarinnar er þessi bóknálgun enn til íhugunar. Í forsæti himins er innsigluð bók, en þá bók á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers?
Uppruni og ættmenni
Guðsteinn Þengilsson fæddist á Akureyri 26. maí 1924. Foreldar hans voru Þengill Þórðarson, frá Höfða í Höfðahverfi, og Rósa Stefánsdóttir, frá Þórðarstöðum í Fnjóskadal. Foreldrarnir bjuggu ekki saman og Guðsteinn taldi líklegast, að foreldrum hans hafi verið meinað að eigast.[1] Guðsteinn var fyrst á Akureyri en síðan næstu sjö árin á Þórðarstöðum hjá móður sinni og í skjóli afa og ömmu.
Þegar Rósa giftist Hallgrími Sigfússyni, barnakennara og pósti, árið 1932, fór Guðsteinn með þeim yfir Fnjóskána og í Grjótárgerði í Fnjóskadal. Síðan voru þau eitt ár á prestsetrinu á Hálsi, en settust síðan að á kirkjustaðnum Illugastöðum í sömu sveit árið 1937. Hálfsystur Guðsteins, samfeðra, eru Guðrún og Ásta.
Skólaganga
Guðsteinn naut skólagöngu á heimaslóð fram á unglingsár og undir styrkri og umhyggjusamri stjórn móður og kennarans, stjúpa hans. Guðsteinn gerði grín að eigin búmannsraunum og sagði að ekki hefði hann verið mörg ár við bústörfin á Illugastöðum, þegar farið var að hugsa um hvað væri hægt að gera við hann því hann hafi verið rati í búskapnum!
Presturinn á Hálsi, frænka og venslafólk ýttu á og Guðsteinn var sendur í tveggja ára fóstur til Akureyrar til móðursystur og manns hennar. Þar sem hann hafði aðeins lokið barnaprófi hjá stjúpanum settist hann fyrst í 2. bekk gagnfræðaskóla og tók svo gagnfræðapróf vorið 1944. Sama vorið freistaði Guðsteinn þess að taka inntökupróf í Menntaskólann á Akureyri. Vorið var því strembið, mikill lestur, puð en góð útkoma. Í þrjá vetur naut Guðsteinn menntaskólalífsins. Hann var orðinn tvítugur, þegar hann hóf það nám. Hafði næði til að hugsa pólitík, menningarmál, að lesa og lifa. Þetta var Guðsteini góður tími, í góðum skóla, kennarar miklir fræðarar og fyrirmyndir. Stúdent varð hann frá MA árið 1947.
Guðsteinn skrifaði sjálfur: “Nú var ég orðinn stúdent, en hvaða háskólagrein átti ég að nema? …Stúdentspróf veitir í sjálfu sér engin réttindi til eins eða neins. Loks komst ég að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að ég hafði numið í stærðfræðideild menntaskóla, að innritast í norrænudeild.” En þegar hann skrifaði þessi orð fyrir skömmu hefur hann orðað bakþanka öldungsins og bætir við: “Helst hefði ég viljað stunda framhaldsnám í stærðfræði, stjörnufræði og stjarneðlisfræði, en það hefði ég þurft að gera við erlendan háskóla. Þangað átti ég engan kost að fara, a.m.k. sá ég enga leið til þess.”
Norræn fræði stundaði Guðsteinn í tvö ár. Þegar hann hafði lokið upp hinum innsigluðu ritum þeirra fræða leitaði hugurinn annað. Sjálfsagt hefur raunvísindaþráin líka seitt og afkomuvitundin. Guðsteinn söðlaði um og hóf nám í læknadeild skólans haustið 1949 og lauk læknaprófi vorið 1956. Það sumar fór hann norður og vann kandídatstímann á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Á árunum 1957-63 var hann héraðslæknir á Suðureyri við Súgandafjörð. Þá lá leiðin til Svíþjóðar og Guðsteinn starfaði á sjúkrahúsi í Uddevalla í tvö ár og svo kallaði Hannibal Valdimarsson fjölskylduna heim á Suðureyri á ný. Þar var hópurinn til 1968 er þau fluttu suður í Kópavog.
Guðsteinn var síðan heimilislæknir í Reykjavík og síðar á Heilsugæslustöð Kópavogs. Hann var um árabil einnig fangelsislæknir. Árið 1982 var Guðsteinn ráðinn yfirlæknir við dvalarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi og gegndi hann því starfi til ársins 1996.
Á árinu 1997 hóf Guðsteinn síðan störf sem sjálfboðaliði í Þjóðabókhlöðunni við flokkun gagna og innslátt bréfasafna. Yfirgripsmikil þekking hans á fræðum, fólki og samfélagi nýttist vel í þessi sjö ár sem hann þjónaði handritadeild Landsbókasafnsins. Mér hefur verið falið að bera fram þakkir deildarinnar fyrir allt hans góða starf. Guðsteinn var á leið í vinnuna þegar hann var bráðkvaddur hinn 1. desember síðastliðinn, á leið til vinnu í bókhlöðu þjóðar sinnar, á fullveldisdegi.
Jónína og börnin
Guðsteinn og Jónína Stefánsdóttir kynntust á Kleppi sældarsumarið 1952. Hún var komin í nokkrar ógöngur því sjúklingur hafði náð taki á hári hennar og tók fast í. Guðsteinn kom gangandi með sprautu, varð vitni að stimpingunum en stökk þó ekki til fyrr en sprautan var örugglega komin í var. Þá var hann tilbúin að leggja henni lið. Jónínu þótti maðurinn bæði ótrúlega skipulagður, varkár og skýr í viðbrögðum og vildi því kynnast manninum betur. Hún var þá hjúkrunarnemi og hann læknanemi. Þau urðu kunningjar, svo vinir og settu svo upp hringana 13. desember og gengu í hjónaband 3. febrúar 1954. Þau eru því búin að eigast í meira en fimmtíu ár.
Guðsteinn var hamingjumaður í einkalífi, átti í Jónínu vin, andlegan og faglegan sálufélaga og samstiga lífsförunaut. Þau eignuðust fimm börn. Þau eru eru Stefán (f. 1954); Rósa (f. 1956); Sigríður (f. 1962); Hallgrímur (f. 1965) og Karl Jóhann (f. 1966). Þau tóku tengdabörnum opnum örmum og fögnuðu og nutu barnabarnanna, en eitt þeirra er látið. Þessu fólki, tengdabörnum, venslafólki og ástvinum var Guðsteinn glaður og hollur vinur, fræðari og stuðningur.
Ræktunarreitir
Málsgreinar í lífsbók Guðsteins eru margar og fjölbreytilegar. Guðsteinn lærði ekki aðeins orð í Fnjóskadal heldur einnig að vinna. Hann lærði hin almennu sveitastörf en náði jafnvel að sinna því einstaka starfi að vera geitasmali. Og Guðsteinn varð skógarmaður, lærði að grisja og vakta Þórðarstaðaskóg. Hvað ungur nemur gamall temur. Félagi í Skógræktarfélagi Kópavogs varð hann á seinni árum og fylgdist með skógræktarmálum. Hann varð síðan ræktunarmaður á mörgum sviðum.
Hann beitti sér fyrir ræktun lýðs. Á fullorðinsárum varð hann brennheitur áhugamaður um bindindismál. Hann hafði séð og reynt böl ofneyslu áfengis og vildi leggja lífinu lið, ritaði margar greinar um bindindismál í blöð og tímarit og sat í Áfengisvarnaráði. Þá var hann félagi í Lionshreyfingunni um árabil.
Hann vildi fræða um læknisfræði og ritaði hina merku bók Læknisfræði í ritröð Menningarsjóðs um vísindi. Þá þýddi hann fræðslurit um unglingaástir, ritaði fræðslubókina “Læknirinn svarar” sem ætluð var almenningi, sem leitaði svara um sjúkdóma og lækningar. Þá ritaði hann fjölda greina um ýmis framfaramál og þjóðmál.
Guðsteinn var hallur undir sameignarhyggju, tók þátt í pólitík öll sín fullorðinsár. Í þeim efnum var hann óhvikull og rásfastur vinstri maður. Hann var félagi í Samtökum herstöðvaandstæðinga og hvatti aðra til þátttöku í þeim félagsskap. Hann gekk Keflavíkurgöngur og 1. maígöngur. Þau Jónína opnuðu heimili sitt fyrir boðbera vinstri stefnunnar vestur á Suðureyri, hýstu þá og fæddu.
Guðsteinn var í andstöðu við hvers kyns auðvald, hvort sem það var að hernaðarbrölti í Asíu eða bauð læknaferðir í skjóli lyfjafyrirtækja. Hann afþakkaði slíkt og veitti andóf og oftast ljúfmannlega. Þau hjónin luku sínum pólitísku afskiptum með því að skipa heiðurssæti á lista Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi.
Mannúð
Í Guðsteini átti mannúðin dyggan fulltrúa. Hann bar sjálfum sér fagurt vitni og varð mér eftirminnilegur fulltrúi sinnar stéttar í því hversu vel hann sinnti föngum þegar hann varð fangelsislæknir. Í tvö sumur, á átakatímum Geirfinnsmála, fylgdist ég með með hversu gott lag Guðsteinn hafði á föngunum í Síðumúlafangelsi. Hann virti manngildi þeirra, og vann meðvitað að því að koma þeim til hjálpar og manns. Það var ekki auðvelt, en fangarnir mátu hann mikils og töluðu vart betur um nokkurn mann en fangelsislækninn.
Einu sinni sagði Guðsteinn við mig eftir viðtal að það væri alveg ótrúlegt hvað hægt væri að læra mikið af föngunum. Þeir hefðu svo mikla þekkingu á hvernig ólík lyf virkuðu saman, að þeir veittu honum meiri þekkingu en hinar lærðustu fræðigreinar. Guðsteinn bar í sér slíka jákvæða fróðleiksfýsn, sem jafnan kom út í plús og varð öðrum til manndómshvatningar.
Safnari gæðanna
Guðsteinn safnaði mörgu, ekki aðeins bókum. Hann skrifaði niður vísur, sem kannski hafa orðið honum farvegur tilfinninga og jafnframt skemmtunar. Hann kunni ókjör slíkra og um flest undir himninum. Hann gat því orðið vísnavinum til gleði í ólíkum aðstæðum með smellnu vísukorni. Hann skemmti börnum og frændum með þrautum. Hann hafði auðvitað góða þekkingu á ýmsum þáttum þjóðmenningar og skemmti sér yfir óheppilegum málsháttavillum. Hann kvakaði yfir ef einhverjum varð á að segja þjóf koma úr heiðskíru lofti.
Lífsbókin
“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?”
Hvað er lífið? Hvað er innsiglað og hvað er opinbert? Guðsteinn var í miðju hins opinbera lífs en þó var hann líka utan við. Hann var einbeittur, skýr og klár, en þó ekki algerlega séður. Hann var hreinskiptin en svo djúpur að ekki var séð til botns. Hann var stilltur sjentilmaður, þægilegur og skemmtilegur, en þó var eitthvað meira. Hann var félagslyndur en naut sín fremur í smáum hóp en stórum. Hann vildi norræn fræði en verteraði yfir í heilbrigðisvísindin, þráði greinilega fræðimennsku og grúsk, en helgaði líf sitt beinni hagnýtingu fræðanna.
Hver dýptin?
Hver var þessi maður? Engin ævi er opinber, enginn verður séður algerlega. Guðsteinn var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði vel sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð. En hann verður ekki séður, við getum aðeins leitt líkum að ýmsu í lífi hans og íhugað. Hversu miklu skipti, að þrátt fyrir gott atlæti fór hann á mis við föður á mikilvægum mótunarárum? Af hverju þessi fjölþætti og margþætti fræðaáhugi? Af hverju sótti Guðsteinn bókasöfnun svo fast?
Auðvitað varð hann alfræðingur, eins og fjölmenntaður endurreisnarmaður. En hann skildi líka manna best takmörk þekkingar. Hann las sína Biblíu ungur, las um trúarbrögð alla ævi, vissi vel um bóktengingu Gyðingdóms, kristni og Islam og hvað þröng bókfesta getur orðið skelfilegt tæki í höndum einsýnna kreddumanna, sem telja sig eina geta upp lokið lífsbókinni. Með slíkum átti hann enga samleið.
Hverju skiluðu allar bækurnar Guðsteini? Visku, vökulum huga, útsýn. Hann var vökumaður þjóðar og einstaklinga, knúinn mannúð. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. En Guðsteinn gerði sér grein fyrir að ekki var allt séð eða skilið. Fræðileg eðlisfræði og þróun í stjarnfræði kitlaði hann löngum. Hvað þýddi það, ef rauntilveran átti sér aðrar víddir, hliðstæður? Hann gerði sér alveg grein fyrir hvað þessi vísindi opnuðu margar fræðaæðar um eðli heims og manns og jafnframt flengdu upp kosmólógískum og þar með trúarheimspekilegum spurningum.
Lífsbókin. Hver er maklegur að opna? Lokið lífi. Var lífið hans Guðsteins við lok, eða er það kannski eins og hvert annað undursamlegt upphaf, eins og byrjun á spennubók sem tekur öllum fram, sem hann las á sínum tíma? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings, meiri útsýnar því sá sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verið verðugur að opna hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem öll flokkun gengur upp í himnesku Deweykerfi, þar sem fangar og frjálsir lifa saman í sameign og bræðralagi, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.
Lífsbók Guðsteins er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Aðventa er tilkoma. Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap jóla um að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, sjálfur sá lyfsteinn Guðs, sem læknar allt og allt færir til betri vegar.
Góður Guð blessi minningu öflugs liðsmanns lífsins, gefi konu, börnum, venslafólki og afkomendum líkn í sorg, og okkur öllum mátt til að lifa vel og með manndómi og elsku.
Amen.
[1] Heimild Heima er best 7/8 54. árg. júlí/ágúst 2004, bls. 296. Aðrar tilvitnanir í þessum minningarorðum eru einnig úr þeirri grein Guðsteins.
Útför í Neskirkju, 9. desember 2004. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.