Bergmál hamarshögganna berst til okkar á þessum degi. Í dag, 31. október, á svonefndum siðbótardegi, eru liðin meira en fimm hundruð ár frá því að munkurinn og háskólakennarinn Marteinn Lúther við negldi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg 95 tesur sínar. Og þessar tesur Lúthers voru um miðlæg efni í kristinni trú. Tesa er setning eða setningar með einni meginhugsun. Og af hverju negldi hann trúarhugmyndir sínar á dyrnar. Kirkjuhurðin var við aðalgötuna í bænum þar sem allir áttu leið um. Kirkjuhurðin var auglýsingaskilti eða heimasíða þess tíma.
95 tesur Lúthers höfðu gríðarleg áhrif því að hann fjallaði um viðkvæm málefni sem deildar meiningar voru um. Dugmiklir fjárplógsmenn fóru um héruð og seldu grandalausum kvittanir fyrir syndaaflausn. Þetta voru svonefnd aflátsbréf og hluti ágóðans af sölunni átti að fara til að byggja Péturskirkjuna í Róm. Þessi útsmogna fjárföfnunaraðferð kom við Lúther, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að enginn páfi eða mannlegur máttur gæti opnað dyr himinsins. Aðeins Guð væri megnuður þess. Verðbréf manna væru einskis virði og það væri ekki hægt að múta Guði. Þess vegna hefði Jesús Kristur komið, dáið, brotið múra dauða, sektar og opnað nýjar dyr himins, búið til nýjan gjaldeyri og kúrs fyrir mannkyn. Þessi guðfræði, sem Páll postuli kenndi t.d. í Rómverjabréfinu, Ágústínus kirkjufaðir og ýmsir fornkirkjuvitringar skrifuðu um og prédikuðu líka, hafði fallið í skuggann í puði og stofnanavæðingu og valdasókn kirkjunnar.
Þegar aflátssali seldi góðhjartaðri skósmiðskonu bréf upp á að hún fengi örugga hraðferð inn í himininn var Marteinn Lúther löngu búin að móta sér skoðun um trú, eðli hennar og fagnaðarerindi. Honum var nóg boðið og ætlaði ekki að láta fjárplóga rugla saklaust sóknarfólk hans. Það var því ekki aðeins guðfræðingurinn heldur einnig presturinn og sálusorgarinn Lúther sem mótmælti óprúttinni sölu á bréfum að lyftunni alla leið inn í Paradís. Lúther vissi að athæfið og réttlætingarnar áttu sér ekki stoð í Biblíunni. Hann sýndi líka að Biblíutúlkun kirkjunnar væri á villigötum. Hann vænti þess að hreinlynt og skynsamt kirkjufólk myndi viðurkenna hið augljósa. Þetta var baksvið og samhengi tesanna 95 á hallarkirkjuhurðinni.
Páfavaldið brást hart við Lúther og útskúfaði honum. Valdafólk gefur jú aldrei eftir vald sitt og stöðu fyrr en í fulla hnefa. Slagurinn varð harður og blóðugur og varð til að íbúar norðurhluta Evrópu urðu það sem kallað hefur verið mótmælendur, sem og meirihluti íbúa Norður Ameríku. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg. Hamarshöggin bergmála í menningu heimsins æ síðan. Að vera kristin kirkja er að stunda siðbót. og það verkefni er sístætt. Og erindi siðbótar, kristninnar, er stöðug verðandi, vernda og bæta, ekki aðeins siðinn heldur þjóðfélag, kirkju, lífshætti = síbót.
Myndina af Lúther tók ég í safni í Wittenberg.