Allt líf þarfnast vatns. Vatnsvernd er stórmál í nútímanum. Sigurður Árni Þórðarson, Hallgrímskirkjuprestur, hefur mikinn áhuga á vatni. Á fjórum þriðjudögum í hádeginu talar hann um vatn í veröldinni, menningu, trúarbrögðum og framtíð. Fyrsti hádegisfundurinn verður 15. september og síðan 22. og 29. september og 6. október kl. 12,05 -12,45. Fundirnir verða í kirkjunni.
Þriðjudagur 15. september kl. 12,05
Vatnið og tuttugasta og þyrsta öldin
Hefur vatn eitthvað með trú að gera? Af hverju ætti prestur að tala um vatn? Eigum við ekki að láta stjórnmálamennina um að ákveða nýtingu vatns? Trú tengist alltaf stóru málum lífsins. Í trúfræði og siðfræði eru mál skoðuð skipulega og ígrunduð stefna mótuð á forsendum ábyrgðar og kærleika. Vatn í veröldinni, þorsti Jesú og lífverur heimsins.
Þriðjudagur 22. september kl. 12,05
Biblían er blaut
Vatn flæðir um kafla Biblíunnar og áin Jórdan er stórtákn. Um aldir afmarkaði hún hinn biblíulega heim. Þau sem fóru yfir ána fóru úr einum tíma í annan. Jórdan tengist lykilviðburðum Biblíunnar. Jesús fór að Jórdan til að hefja starf sitt. Þar með breyttist heimurinn. Hvað með Jórdan, rennsli hennar um menninguna og bleytuna í samtíð okkar?
Þriðjudagur 29. september kl. 12,05
Vatn, kona og kristni
Fólk lifir ekki af vatninu einu heldur þarfnast margs að auki. En allt það sem er að auki lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífverum á lífi, fólki líka. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Samverska konan sem talaði við Jesú við Jakobsbrunn var skörp. Konan og sagan eru klassík fyrir mannkynið allt.
Þriðjudagur 6. október kl. 12,05
Hver á vatnið? Hvað um eignarrétt og vatnarétt?
Lögin um Þingvelli segja í fyrstu grein að Þingvellir skuli vera „friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.“ Hvað þýðir svona ljóðrænt helgistaðamál? Þingvellir voru kirkjueign. Á kirkjan þá vatnið eða er það ríkið sem á alla dýrðina og þar með kristalstært vatnið í gjánum, vatnsbirgðir framtíðar Íslands? Hverjir eiga vatn? Hefur kristnin eitthvað að segja um vatn og nýtingu þess?