Mér hefur alltaf þótt gaman að smíða. Í mér kviknar djúp gleði þegar ég nýt anda og handa í samvinnu. Ég er himinsæll á öllum ljósmyndum þegar ég er við smíðar. Af hverju skyldi það vera?
Annir og veikindi á bernskuheimilinu urðu mér hvati til sjálfstæðis. Ég lærði strax sem smábarn að dunda mér og finna mér verkefni. Þegar ég vaknaði fór ég beint að dótakassanum mínum, setti saman og byggði hluti og hús úr kubbum af ýmsum gerðum. Ég var svo lánsamur að nýr leikskóli Drafnarborg var í nágrenni heimilis míns. Bryndís Zoega var stjóri og stórveldi þess skóla. Hún var ótrúlega hugmyndarík. Hún fékk m.a. bændurna á mölinni að koma með skepnurnar sínar í heimsókn í leikskólann.
Við börnin fengum verkefni við hæfi. Bryndís sagði móður minni að sonur hennar væri mikið smiðsefni. Enginn í leikskólanum væri kunnáttusamari og nákvæmari með hamar en hann. Þegar ég hitti Bryndísi mörgum árum síðar sá hún ástæðu til að upplýsa mig líka um smiðsgetu ungsveinsins.
Ég ber nafn Árna Þorleifssonar, smiðs á Sjafnargötu. Hann var guðfaðir sambands foreldra minna. Hann átti ekki afkomendur sjálfur og bað móður mína að gefa drengnum Árnanafnið. Þegar hann var orðinn blindur og lyfti hvorki sög né hamri ákvað hann að gefa mér hefilbekkinn sinn. Það var eftirminnilegt að sjá þennan gamla blinda mann kveðja vinnutæki sitt og vin í hinsta sinn. Síðan hefur bekkurinn verið í minni eigu. Nú hef ég góða aðstöðu fyrir hann í bílskúrnum. Hann er fallegur, vellyktandi og þjónar mér og mínum við smáverkin.
Smíðar geta verið einfalt verk endurtekningar. Einhvern tíma var sagt að endurtekningin væri einkenni helvítis. Einhæfni getur lamað og lemstrað. Og það er skemmtilegast þegar verkefnin krefjast samstillingar anda og handa. Andverk og handverk verða þá eitt. Maðurinn er heild og best þegar við líkami, sál og andi eru vel tengd og velvirk saman.
Fyrir skömmu var ég handlangari hjá Sverri Gunnarssyni, sem var að ljúka sérhæfðu viðgerðarverkefni á húsi mínu. Þegar Sverrir, sem er af ætt listasmiða, kvaddi sagði hann við mig: „Þú hefur verksvit.“ Mér leið eins eins og ég hefði óvænt verið útnefndur heiðursdoktor. Smiðurinn Sigurður Árni gladdist.
17. júlí, 2020.