Vatnaskáldið Pétur M. Jónasson

Pétur M. Jónasson er eitt hundrað ára í dag. Pétur er einhver áhugaverðasti vísindamaður Íslendinga síðustu áratugina. Ég kynntist Pétri vel þegar ég bjó og starfaði á Þingvöllum. Pétur hefur í marga áratugi vakað yfir velferð Þingvallavatns, stýrði stórkostlegum rannsóknum, sem fjöldi fræðimanna stundaði á vatninu. Svo hafði hann góð og gefandi tengsl við Þingvellinga, fólkið í sveitinni. Ég fór margar ferðir með Pétri og hann hafði alltaf stund til að fræða, kynna, örva og hvetja. Og þar sem ég hef alla tíð haft áhuga á vatni og hafði á menntaskólaárum ákveðið að verða vatnalíffræðingur var stutt á milli okkar. Mér fannst Pétur hugaður og marksækinn, skapandi hugsjónamaður, hugmyndaríkur og ég hreifst af sveitahúmor hans og manngæsku.

Einhvern tíma sagði ég að Pétur væri vatnaskáld. Sú nefning var síðan notuð sem heiti á heimildamynd um Pétur. Mér þótti vænt um að hafa náð að gefa honum þessa einkunn sem tjáir víddir hans, að hann var ekki bara niðurlútur fræðingur heldur upplitsdjarfur leiðtogi og veitull höfðingi. Myndin af okkur Pétri er tekin 8. ágúst 1993. Skemmtilegt viðtal við Hilmar J. Malmqvist um Pétur á vef RÚV https://www.ruv.is/…/…/thingvallavatnsrit-tileinkad-dr-petri Svo er hér að baki þessari smellu kynning á nýju Þingvallariti sem gefið er út til heiðurs Pétri. 

Ég þakka fyrir samfylgd með Pétri M. Jónassyni, þakka hvernig hann tók á móti samverkamanni þegar ég kom til Hilleröd, þakka fyrir hönd fræða og náttúru Íslands. 

Pétur lést í október 2020. Yfirlit um líf, fræði og störf sjá dánarkynningu í mbl https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/13/andlat_dr_petur_m_jonasson/