Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.
George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?
Kirkja sem leiktjöld
Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan.
Hver er heilagur?
Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar. Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það.
Samfélag og Ísland
Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.
Valdið styrkst en vitið veikst
En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.
Að friða en sundra ekki
Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“
Við erum Trump
Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum. Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags. Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu. Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.
(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)