Skírnarfontur Hallgrímskirkju

Mér þykir alltaf jafn skemmtilegt að skíra börn. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og kærleika foreldra og ástvina. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar og guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang.

Skálar skírnar

Í heimaskírnum er tekin fram besta skál heimilisins, oft kristalsskál eða vandaður hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina, gætt að hitanum og svo er hún borin þangað sem athafnirnar eru, oftast í stofunni. Þetta eru fallegar skálar og hafa tilfinningagildi í fjölskyldum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar.

Svo eru skírnarskálarnar í kirkjunum mismunandi líka. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Fontar í kirkjum hafa oft verið gefnir. Í Neskirkju í Reykjavík er t.d. fagur skírnarfontur Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og kona Þórs bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn var kominn í heiminn var hann fyrsta barnið sem skírt var í Neskirkjufontinum.[i] Fonturinn er dýrgripur. Dómkirkjufonturinn sömuleiðis. Og við getum farið um borg og land og uppgötvum þá að fontarnir eru listaverk sem hæfa undraathöfn veraldar.

Vertu Guð faðir, faðir minn

Skírnarfontur Hallgrímskirkju er dýrgripur líka. Hann er gefinn af kvenfélaginu og velunnurum. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í fontinum og myndar friðarboga og jafnvel fleiri en einn. Þegar bjart er sést líka letur bæði á dökka fletinum á fontinum og líka þeim ljósa.

Á blágrýtishlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar: „Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.“ Það er við hæfi að klappa bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann – á hverjum degi og hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Guðstengsl eru nándartengs.

Trú og skírn

En svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa biblíuvers í gegnum þykkan kristalinn. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Versið er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Orð eru í guðspjalli dagsins. Skírnarfontur Hallgrímskirkju er fontur uppstigningardags. Það er vel. Uppstigningardagur er stórdagur kristninnar þó hann hafi í vitund fólks ekki sömu stöðu og jól og páskar. En á þessum degi eru mergjaðir og máttugir textar fluttir. Textar um Guð, komu Guðs og að Guð er á ferð í þágu lífsins. Það er eins og uppstigningardagur tjái umfang hins kristna erindis gleðinnar, sé eins og summudagur jóla, páska og hvítasunnu.

Postuli Jesú

Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð, Guðjón Samúelsson og Andrés Narfi Andrésson eru helstu sjónlistarmenn Hallgrímskirkju. Ef Bach er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, unnið við prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn. Mér þótti heillandi að sjá skissur Leifs og hvernig hann vann undirbúningsvinnuna. Ákveðið var að kristallinn yrði steyptur í Tékklandi af miklum kristalssnillingum, vinum Leifs og Sigríðar, konu hans. Tékkarnir töldu vandalítið að steypa, en annað kom á daginn. Stykkin voru svo stór, að þau sprungu í kælingunni og efasemdir vöknuðu um að hægt væri að steypa svo stór stykki. En þegar búið var að lengja kælitímann í þrjá mánuði gekk verkið loks upp og hægt var að setja stykkin saman. Úr varð þetta listaverk og uppstigningardagsundur sem fonturinn er.

Nánd Guðs

Sá sem trúir og skírist – þar er tvenna lífsins. Mun hólpinn verða – það merkir að vera Guðs, búa með Guði og njóta allar blessunar tíma og eilífðar. Þessi boðskapur brosir við öllum þeim, sem koma í kirkjuna og liðast inn í sauma og vitund skírnarbarnanna sem eru ausin vatni. Þetta rifjum við upp í dag og minnum okkur á þennan uppstigningardag.

Erindi við allan heiminn

Það er fögnuður og lífsnánd í sálmum dagsins sem við syngjum. Og það er gleði í Biblíutextunum einnig. Áhersla uppstigningardags er ekki á yfirskilvitlegan viðburð, að Jesús hvarf sjónum manna, steig upp í himininn. Biblían beinir aldrei sjónum út úr heimi heldur inn í hann. Áherslan er ekki á töfra heldur gæsku og hamingju. Textar dagsins fjalla um að allur heimurinn má fá að heyra og njóta að Guð elskar. Hin mikla sýn lexíu dagsins úr Daníelsbók varðar að Guð hefur allt vald. Í pistlinum, hinni dramatísku sögu úr Postulasögunni er ljóst, að Jesús er ekki fjarlægur andi sem bara gufaði upp. Jesús Kristur var og er lifandi vera, sem borðaði með fólki, hafði ekki hugsað sér að reisa lítið konungsríki á hjara veraldar heldur vera lífgjafi öllum heimi, sínálægur, síverandi með fólki og heiminum sem Guð elskar. Og Jesús segir að boða eigi ekki aðeins mannkyni heldur öllu sköpunarverkinu gleðifréttirnar.

Dagur uppstigningar varðar að framtíðin er ekki lokuð heldur opin. Og að Guð gefur gæði, gildi og stefnu fyrir lífið. Svo er það okkar að játa þessa djúpu heims- og mannsýn kristninnar og þora að leyfa gildum og gæðum og hamingjumálum að vera forgangsmál okkar.

Gengur af himni geislabrú í gegnum jarðardal

Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans, sjá litadýrð brotins ljóss. Og friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Þannig er kærleikur kristninnar, hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.

Áðan sungum við sálm Rósu B. Böndal nr. 169 í sálmabók. Í fyrsta versi sálmsins segir, sem túlkar fontinn en líka inntak uppstigningardags:

Ljómi Guðs veru líður nú

um landsins fjallasal.

Gengur af himni geislabrú

í gegnum jarðardal.

Amen.

Uppstigningardagur 21. maí, 2020.