Myndskeið er að baki þessari smellu.
Guð sem ert faðir og móðir alls sem er
Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig, að hræðast ekki í návist þinni. Kenn okkur heilindi í samskiptum við þig, í orðum, verkum og vinnu, heima og að heiman. Alls staðar ert þú – þar sem við erum vilt þú vera nærri. Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar – opna fyrir þér.
Guð sem talar í náttúrunni
Gef okkur vitund um fegurð daggardropa, blómknúppa, grasnála, opnandi brums, syngjandi fugla. Kenn okkur að skynja návist þína í litum, lykt, verðandi og hræringum náttúrunnar. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur, fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.
Guð – líf kirkjunnar
Úthell blessunaranda þínum yfir alla þjóna hennar. Við biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi, fyrir kirkjuvörðum, listafólki, biskupum, söngvurum, prestum, organistum, djáknum sóknarnefndarfólki, sjálboðaliðum, messuþjónum – já öllum þeim sem gegna þjónustu í kirkju þinni.
Guð sem ert uppspretta lífs
Við biðjum um siðvit, jöfnuð og réttæti í samfélagi okkar. Gef að mannvirðing einkenni samskipti okkar og tengsl. Hjálpa okkur að rækta frið og virða vit, þekkingu og sannleika. Við biðjum þig að gefa öllum þjónum almennings vernd og þjónustuanda. Gef dómurum speki til réttlátra dóma, löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits og forseta blessun þína. Við þökkum þér fyrir samfélag okkar og menningu, fyrir öll sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð fólks, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.
Guð sem sem vitjar allra
Við biðjum þig að blessa hin sjúku og nefnum nöfn þeirra í hljóði …
Við biðjum fyrir hinum sorgmæddu og deyjandi. Við biðjum fyrir þeim sem eru í fangelsi, í fjötrum skulda, í greipum fíknar eða feni samfélagsins. Ver með þeim og leys bönd þeirra. Ver með fjölskyldum þeirra.
Þú mikli Guð
Hjálpa okkur að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið. Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina. Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.
Guð vors lands
Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Allt skapar þú, allt leysir þú og allt blessar þú og helgar. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.
2020 Bæn á bænadegi þjóðkirkjunnar. Hallgrímskirkja 5. sdepáska.