Til er helgisaga um mann, sem við ævilok leit til baka og sá lífsgöngu sína alla. Hann sá öll ævispor sín. Víða var hægt að greina tvenn spor – og hann gerði sér grein fyrir að önnur sporin voru fótspor Jesú. Hann sá einnig að á erfiðleikatímum hans voru sporin aðeins ein. Maðurinn dró þá ályktun, að Jesús hefði brugðist honum á örlagastundum og sárnaði. Þegar hann hitti meistarann í eilífðinni var honum efst í huga að fá skýringu á þessum einu sporum. „Hvar varstu á erfiðu stundunum? Yfirgafstu mig?“ Jesús svaraði: „Nei, þegar þú sérð aðeins ein spor varstu svo vanmáttugur að ég bar þig.”
Sigurbjörn Einarson ljóðaði út af þessari helgisögu og dró saman í síðasta versi afstöðu og ummæli Jesú:
Hann las minn hug. Hann leit til mín
og lét mig horfa í augu sér:
Þá varstu sjúkur, blessað barn,
þá bar ég þig á herðum mér.
(Nr 910 í sálmabókinni)
Stundum virðist Guð fjarri. Við skiljum ekki plágur lífsins og spyrjum af hverju við verðum fyrir sjúkdómum, depurð og missi. Áföll hefta og hafa áhrif á tengslin við Guð. Ef Guð virðist hafa yfirgefið okkur fyllist vitundin ugg. Er Guð jafnvel dáinn? Þegar guðstengslin rofna verðum við einmana í róttækasta skilningi þess orðs.
Í 139. Davíðssálmi segir: „Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.“
Ferðir okkar eru margvíslegar í plágum lífsins, í undirheima, upp í himininn eða í dýptir viskunnar. Alls staðar er Guð. Þó við lyftumst í roða dagrenningar – þá er Guð líka þar.