Á þessum plágutíma fór ég að hugsa um merkingu kreppu. Gríska orðið Κρίση (frb. kríse) er merkilegt. Það er orðið sem er að baki krísu í slangurmáli okkar. Á enskunni varð það að crisis og síðan Krisis á þýskunni og með ýmsum hliðstæðum á mörgum málum. Gríska orðið er notað í Nt og getur þýtt kreppa. En svo er hin merkingin. Orðið þýðir líka dómur, það að greina rétt á milli, þ.e. rétt greind. Orðið hefur því áhugaverða málvídd.
Hvað gerist í krísu? Jú, þá eru felldir dómar. Viðbrögð í aðkrepptum aðstæðum geta verið ofsafengin. Þegar við erum í uppnámi, í krísu, segjum við margt og gerum við margt sem ekki sýnir mikið vit eða yfirvegun. Við viljum helst ekki taka of afdrifaríkar ákvarðanir í uppnámsaðstæðum. Hið sama gildir í alþjóðlegum krísum – þá er ekki ráð að hrapa að niðurstöðum eða fara á alþjóðlegum taugum. En þegar að kreppir og krísan hrín yfir er mikilvægt að fella rétta dóma og iðka góða dómgreind. Dómar geta verið felldir án mikillar greindar en það þarf rétta og yfirvegaða greind í dómum til að dómarnir verði réttir. Íslenska orðið dómgreind ber vitni um orðsnilld og góða málgreind. Í lífinu eru krísur og í krísum þarf góða dómgreind.