Álög hafa verið lögð á mannheima. Smælkið velti stórkerfum mannkynsins. Og samkomubann var sett á Íslandi. Allt í einu var skylda að virða að tveggja metra bil milli fólks. Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgni helltust yfir mig sterk tilfinning fyrir að allt væri skakkt. Tilfinning fyrir óraunveruleika. Og mörgum finnast þessi álög vera vefur skrítileikans, þess sem ætti ekki að vera. Álög.
Mánudagsmorgunn 16. mars var ekki venjulegur. Drengirnir fóru ekki í skólann eins og venjulega því starfsfólk Hagaskóla var að ráða ráðum sínum. Mánudagar, frídagur prestsins, en ég fór strax að vinna að málum sem varða starf mitt í Hallgrímskirkju. Ræddi við rafvirkjana sem voru komnir til að laga ljós á baðinu heima. Þeir voru skemmtilegir og snöggir í störfum.
Fór svo yfir íhugun sunnudagsguðsþjónustunnar og hún fór á netið. Fundaði með kollega mínum Irmu Sjöfn. Við ræddum ýmsa þætti samkomubannsins og hvernig við getum stutt fólkið okkar sem sækir samkomur og helgihald í kirkjunni. Við fórum við yfir streymismál, upptökumál og miðlun á vefnum. Svo hittum við framkvæmdastjóra Hallgrímskirkj og annað starfsfólk. Eftir hádegið settist ég svo við að snara upplýsingaefni á ensku og setti inn á heimasíðuna, einkum þá ensku.
Dagurinn var á eyrunum. Mörg samtöl við marga, samstarfsfólk, vini og fjölskyldu um stöðu mála, horfur og verkefni.
Under kvöld skoðaði ég komur og brottfarir Ísavía. Og brá þegar ég sá hve mörgum flugum hafði verið aflýst. Innilokurnartilfinning laumaðist inn í tilfinningu fyrir óraunveruleika – álögin margþætt.
Eftir daginn situr ágeng tilfinning fyrir að allt þetta venjulega og hversdagslega er breytt. Kvíði, ótti við breytingarnar, hræðsla við smáveiru sem hefur breytt heiminum. Eftir því sem á leið daginn varð álagatilfinningin æ sterkari. Ég sofnaði þó ekki út frá álögum heldur meðvitaður um breytingar. Guð kemur úr framtíð og kristnir menn sökkva aldrei í tómi tímans. Draumarnir voru blessunarlega litríkir.