Fyrir 6
Frábær kjúklingur og litríkur salatréttur. Undrið er að sjóða niður appelsínu, sem er ekki aðeins bragðundur heldur gleður niðursuðan augað. Appelsínuþeytingurinn niðursoðni er síðan góður á margt annað en kjúklinginn. Hægt er að nota vorlauk og klettakál í stað fennels.
1 appelsína – lífræn því börkurinn verður notaður
50 gr hunang
½ tsk saffranþræðir
1,5 msk hvítvínsedik
300 ml vatn
1 kg kjúklingabringur (skinnlausar)
4 msk ólífuolía
2 fennel, þunnt skornir
15 gr kóríander smákorið
15 gr basilíka smáskorin
15 gr minta smáskorin
2 msk sítrónusafi
1 chilli, rautt smáskorið
2 hvítlauksgeirar, marðir
trönuber (þurrkuð) hnefafylli og skorin (má sleppa)
granatepli ca. hálft (má sleppa)
salt og pipar
Forhitið ofninn í 200 °C. Skerið ca. cm ofan og neðan af appelsínu. Skerið í 10-12 báta og hafið börkinn með. Gætið að fjarlægja steina. Setjið í pott. Vatnið yfir, hunangið sem og saffran. Hitið og sjóðið við vægan hita í nærri klukkutíma. Bætið örlitlu vatni við ef minna en ca þrjár matsk eru eftir í pottinum í suðunni. Þegar fullsoðið er – allt sett í matvinnsluvél og maukað.
Á meðan appelsínan er að sjóða niður er kjúklingurinn pipraður og saltaður og settur í olíu, síðan steiktur í 2-4 mínútur á grilli eða á grillpönnu til að ná rákum á kjötið. Þessi ráksteiking er ekki nauðsyn en fyrst og fremst fegurðarauki – sem sé hægt að nota pönnu í staðinn. Síðan sett í ofnskúffu og fullsteikt í 20 – 25 mínútur. Tryggið að hvergi sé blóðsafi eftir í bitunum áður en tekið er úr steikingu. Þegar kjúllinn er farinn að kólna er hann rifinn niður með höndum í skál og helmingnum af niðursoðna appelsínumaukinu hellt yfir (afgangurinn af maukinu sett í ísskáp og notað á feitan fisk síðar J). Hrærið og tryggið að allt kjötið verði marinerað af maukinu.
Fennelið þunnskorna, krddurtirnar niðurskornu, chilli niðurskorið, granatepli og trönuberin í skál og sítrónusafinn yfir, sletta af ólíufuolíu einig og síðan salt og pipar. Allt hrært til svo safinn berist um allt. Síðan er kjötið fært í skálina og allt hrært saman.
Allt mitt fólk, sem naut þessa réttar milli jóla og nýárs lofaði mjög. Fljótt aftur, var niðurstaðan.
Þökkum Drottni því miskunn hans varir að eilífu. Amen.
Upprunalega uppskriftin er úr Jerúsalembók Ottolenghi og Tamimi. Þökk sé þeim einnig.