Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.
Missir og heimt
Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.
Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.
Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.
Um tímann og vatnið
Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.
Erindi kristni og mengun
Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.
Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.
Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.