Ímyndir og raunmyndir

Hver ertu og hvernig er myndin af þér? Hvað sést þegar á þig er horft? Hvað viltu að sjáist? Viltu leyfa hrukkunum, vörtunum, andlishárunum að sjást? Er þér annt um að sjást eins og þú raunverulega ert? Eða viltu breyta í raun eða mynd. Með forritum getum við breytt útliti fólks á ljósmyndum, lagað nefstærð, hnikað til eyrnasneplum, minnkað eða stækkað, teygt og togað svo myndin verði nær þeirri ímynd, sem fólk vill að sjáist. Við erum ekki bara raunmynd heldur einnig ímynd. Og sumum reynist raunmynd eigin sjálfs og lífs svo þungbær, að líf þeirra verður stanslaus fegrun og endurhönnun ímyndar. Útlitsaðgerðir geta jafnvel deytt fólk. Leikrit geta orðið til dauða. 

Breska skáldið C. S. Lewis skrifaði m.a. Narnia-barnasögurnar og ritaði einnig bók um grísku gyðjurnar og systurnar Pcyche og Orual. Nafn hinnar fyrri er varðveitt í vestrænum heitum á sálfræði, psykologi og psychology. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að sleppa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka. Narcissistar eru með grímur og til að koma til sjálfs sín og lifa verða þeir að fella þær.

Sagan um Órúal er ekki aðeins um fólk í fornöld heldur einnig í nútíma. Líf margra er leit að grímum og ímyndum. Svo er líka úrvinnslan úr grímuleik fjölskyldu og menningar uppvaxtarins. Versti verknaður mannsins er að dýrka aðeins eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum. Þá er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi. Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er tengdur andlitum. Við spáum í og lærum að greina í andlitum reiði, gleði, voða og vegsemd. Andlit eru mikilvæg en eru þau mennsk andlit eða sýndarmyndi?

Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum, sem við komum okkur upp um sjálf okkur – því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Hvar ertu Adam spurði Guð? Spurningin hljómar enn. Ertu með sjálfri þér? Ertu í essinu þínu? Eða er Guðsmyndin þín flekkuð, falin á bak við grímu sem þarf að fella, til að þú verðir sönn og sannur. Okkar mesta mál í lífinu er ekki hvort Guð hafi mennska ásjónu, hafi orðið maður, heldur hvort við séum mennsk. Við eigum mennska ásjónu í Jesú Kristi, sem við megum horfa á, innlifast og læra af. Þegar við horfum á Jesú getum við séð önnur andlit, aðrar sálir á nýjan hátt, séð fjölskyldumót allra, hvernig sem þau eru lit eða löguð. Öll heimsbyggðin stynur af þörf fyrir að við sjáum, sjáum hina guðlegu ásjonu hvers manns, að við sjáum sjálf að við erum í mynd Guðs og litríki og fjölbreytni náttúrunnar ber einnig fingraför – mynd – Guðs.

Bæn

Kenn okkur að greina myndir veraldar, myndir okkar og mynd þína – Guð. Hjálpa okkur í myndasókn okkar. Gef okkur mynd af okkur sjálfum, raunmynd en ekki ímynd, mannsmynd en ekki glansmynd.

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen. 

Íhugun 17. okt. 2019.