Jórdanáin gegnir ríkulegu táknhlutverki í Biblíunni. Jórdan er nefnd eða kemur við sögu í meira en áttatíu skipti í Gamla testamenntinu. Hún er nefnd þegar í fyrstu bók Biblíunnar og gegnir stöðu fljótsins á heimsenda. Jórdan er á mörkum heimsins. Að fara yfir hana var að fara úr einni veröld í aðra. Þar voru skil heima. Fljótið hafði því nánast yfirjarðneska stöðu. Það var táknrænn gjörningur þegar Jósua fór yfir Jórdan með örkina. Þá breyttist allt. Og þegar Davíð konungur fór yfir Jórdan var það sem sigurvegari. Eftir að Jakob glímdi við engilinn fór hann yfir hliðará Jórdanar. Elía klauf vötn Jórdanar og hlutverk hans og stafur fór yfir á arftakann Elísa, sem einnig hafði vald vatnaskila og lækninga eins og fyrirrennarinn. Á fyrri tíð, áður en farið var að dæla upp úr árfarveginum megninu af árvatninu, var Jórdan stórá. Þá var erfitt að þvera ána. Engir nema þau, sem áttu brýnt erindi, fóru yfir ána. En þó það væri kannski ekki beinlínis lífshætta fór enginn að gamni sínu.
Frá fornöld hefur Jórdan verið meira en fljót. Áin varð táknveruleiki. Fólk hefur vitjað hennar af djúpum tilfinninga- og menningarástæðum. Það var ástæða fyrir að Jóhannes skírari fór til árinnar og Jesús Kristur einnig. Jórdan var ekki aðeins stórá fortíðar heldur varð hún og er enn stórá táknmálsins. Þegar Gyðingar voru reknir út um veröldina eftir fall Jesúsalem árið 70 eKr. dreifðust þeir um heiminn og þar héldu þeir áfram að íhuga merkingu árinnar. Kristnir menn fengu síðan Nýja testamentið í hendur og Jórdan fór að renna um hugi þeirra og efla menningartákn. Jesúskírnin tengdist Jórdan og nærðist af vökvun árinnar. Og Jórdan fór síðan að blandast öllum vötnum heimsins af því Jesús skírðist ekki aðeins heldur blessaði veraldarvötnin í skírn sinni. Jórdan rennur síðan ekki aðeins niður í Dauðhafið heldur upp til lífs fólks. Til miðaldamanna og síðan áfram til inn í nútímalist og þar með menningu.
Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki til að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sora heimsins. Skírn Jesú var upphaf, var og er uppspretta og síðan árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin. Skírn Jesú var stórviðburður sem allt var miðað við á fyrstu öldum og mun mikilvægari en fæðingarfrásögnin. Jórdan var mikilvægari en Betlehem.
Á miðöldum áleit fólk Jórdanskírn Jesú vera helgun allra vatna heimsins. Jesús helgaði allt sem er. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikar altarisgöngunnar er vatnið í víninu helgað mönnum til blessunar. Í því er vökvinn sem nærir líf fólks. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.