Ármann Snævarr +

Í dag hefði Ármann Snævarr orðið eitt hundrað ára. Ármann var vinur minn, sótti kirkju í Neskirkju, stoppaði mig á gangstéttum til að ræða stóru málin. Og svo þegar hann lést árið 2010 var ég fenginn til að þjóna við útför hans. Í dag verður hátíðarathöfn í HÍ til minningar um þennan öfluga fræðaþul og mannvin. Minningaroðin eru hér að neðan. 

Minningarorð + Ármann Snævarr 

Hver var hann Ármann? Af hverju var hann svona hlýr og glaður? Af hverju stoppaði hann okkur á vegi til að grennslast fyrir um fjölskylduhagi og velferð. Hann hafði óflekkaðan og óbilandi áhuga á okkur samferðafólki sínu. Af hverju stóð hann alltaf með börnum í lífi og fræðum? Hann var maður verndar. Af hverju varð hann þessi bonus pater familiae? Hann var sendiboði þess kærleika sem skapað hefur heiminn. Hann var ekki aðeins einhver mesti vinnuþjarkur sem við kynntumst, ekki aðeins einn af fremstu fræðimönnum þjóðarinnar heldur var hann valmenni. 

Hvort er reynd eða sýnd mikilvægari? Hvers virði er hið ytra í samanburði við hvaða menn hafa að geyma hið innra? Á fyrri öldum var mótun innri manns talin æviverkefni og lífsmál. Það sem menn gerðu úr hæfileikum sínum og gáfum – það varð innrætið – eða það sem kallað var habituseinstaklings. Við þekkjum habitusí enska orðinu habit, sem merkir venja eða jafnvel kækur. Mennskan er ekki fullmótuð og verkefni okkar allra er að bregðast við aðstæðum og gangast við sjálfum okkur. En líf er hreyfing og að vera maður er kall til átaka, að stæla hið innra og ytra til góðs. Habitus, innræti þroskaðs manns, er m.a. fólgið í viskusókn, iðkun elskunnar, að taka þátt í undri lífsins. Ármann var þroskaður maður. Hann hafði unnið með sinn innri mann og stælt til átaka en líka mannástar, mannúðar. Hans habitusvar mótaður af hinu trúarlega inntaki, að taka lífinu með gleði, standa vörð um fræði, visku, mannvirðingu og bregðast við því góða og gleðilega. En sá þroski verður ekki til fyrirhafnarlaust. Og nú vil ég gjarnan segja eina litla sögu sagði kennarinn Ármann gjarnan til skýringar. Þetta er lykilsaga um átök til stælingar og mótunar.

Ármann stæltur til lífs

Árið 1933 hóf Ármann nám í Menntaskólanum á Akureyri. Þegar hann átti tvö ár eftir nyrðra höfðu armar kreppunnar rústað samfélagið svo að enga vinnu var að fá. Dag eftir dag og viku eftir viku fór Ármann á fætur og stóð klukkutímum saman í biðröð eftir uppskipunarvinnu, en án árangurs. Þar sem hann beið kaldur og útskúfaður dagaði á hann að hann yrði aldrei stúdent eins og bræður hans. Hann yrði að sætta sig við stöðu sína og vonbrigðin. Hann ákvað að menntast hið innra þótt hann fengi ekki húfu og háskólamenntun. Hann settist niður með skruddurnar í verkleysinu og lærði eins og hann ætti líf að leysa. Ármann fékk óvænt að taka utanskólapróf. Hann glansaði ekki aðeins heldur fékk líka – gegn vonum – að vera á heimavist upp á krít síðasta veturinn í MA. Á þessum æskudögum lærði Ármann að láta aldrei einangraðan vanda stöðva sig. Vandi er verkefni til lausnar. Þetta er eina rétta kreppuviðbragðið. Í lífi Ármanns var ljóst að markmið voru mikilvægari en hindranir. Ármann varð afar stefnufastur. Og mikilvægur þáttur íhabitushans varð áræðni og andlegt þrek.

Minningarorðunum sem á eftir fara er skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum geri ég grein fyrir námi og störfum Ármanns. Í hinum seinni, eftir að Sólveigarsöngur Griegs hefur verið sunginn, færum við okkur heim til þeirra Valborgar og ræðum um heimilismanninn.

Líf og störf

Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði 18. september árið 1919. Hannn lést 15. febrúar síðastliðinn. Stefanía og Valdimar, foreldrar hans, voru ráðin í að nefna hann Gunnstein og eftir bróður hans sem hafði látist skömmu áður. Nóttina fyrir skírn, dreymdi Stefaníu að til hennar kæmi ungur maður, sem hafði látist skömmu áður og bað um að hann fengi að vera hjá þeim. Hún tók þessari nafnvitjun vel og drengurinn fékk tvö nöfn en ekki eitt. Ármannsnafnið er því draumnafn og það notaði fjölskyldan og nafnberinn æ síðan. Ármann var yngstur fimm systkina. Hann átti sér eiginlega tvær mömmur, því Ína móðursystir hans bjó á heimilinu, stækkaði tilveru systkinanna með guðsorði, taflmennsku og ekki má gleyma öllum draumunum. Heimilið var menntunarsækið og plássið var gjöfult.

Nám reyndist Ármanni sem leikur. Móðurbróðir minn deildi heimavistarherbergi með honum síðasta ár í skóla fyrir norðan. Hann var sjálfur mikill námsmaður en sagði mér, að Ármann hefði verið öllum fremri hvað varðar vinnuskipulag og öguð vinnubrögð. Á undan öllum var hann kominn á fætur og hafði unnið gott dagsverk þegar aðrir vöknuðu. Ármann var árisull og borinn til stórvirkja. Hann varð dúx á stúdentsprófi og hæstur í landinu.

Laganámið

Svo fór hann suður í lagadeildina, sem var til húsa í Alþingishúsinu. Í frímínútum kynntust stúdentar þingmönnum, lærðu á þinglífið og hvernig átök urðu til og voru leidd til lykta. Ármann og félagar lærðu mælskufræðina í frímínútum. Hann lagði grunn að fræðum sínum, hann tengdist kennurum sínum djúpum vináttu- og virðingarböndum, tók nærri sér sóun stríðsins sem var í algleymi og hreifst af lýðveldishugmyndum. Ármann varð síðasti konunglegi lögfræðingurinn, sem útskrifaður var frá HÍ áður en til lýðveldisstofnunar kom. En fagnandi veitti hann slitum atkvæði sitt og leyfði Íslandssögunni að hvelfast yfir sig á Þingvöllum 17. júní 1944. Og hann hafði í sér tilfinningavíddir til að lifa mikilvægi þess atburðar í sögu þjóðarinnar.

Hann var aðeins fjórtán ára þegar hann fór að heiman, fór í skóla sem naut kennslu manna, sem höfðu dvalið langdvölum erlendis. Lunderni og mótun skópu útsýn Ármanns. Hann kunni illa heimóttarstíl. Eftir að hann var búinn að þjóna sem bæjarfógeti á Akranesi fór hann utan. Honum var fullkomlega eiginlegt og eðlilegt að fara í framhaldsnám, ekki bara til Danmerkur, heldur var að auki sitt hvort árið í Noregi og Svíþjóð við fræðaiðkun. Hann þorði líka að skoða lögfærðina í stóru samhengi. Undrandi Reykvíkingur spurði þegar það fréttist, að Ármann væri að læra réttarheimspeki: “Hvernig getur lögfræðingur lært heimspeki? Ég hélt þeir fengjust aðallega við að innheimta víxla!” Nei, Ármann var í sönnum jús. Og hann varð síðar margfaldur heiðursdoktor í lögum.

Prófessorinn

Ármann var á leið til Cambridge þegar kallið kom að heiman. Hann fór ekki yfir Ermasundið heldur til Íslands. Hann var settur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands 28 ára, frá hausti 1948 og skipaður prófessor einu og hálfu ári síðar. Ármann kenndi flestar greinar lögfræðinnar og varð víðfeðmur í fræðunum. Sifjarétturinn varð fyrsta kjörlendi hans og þar endaði hann líka með stórvirki sínu, Hjúskapar- og sambúðarréttur, sem hann gaf út á árinu 2008, yfir þúsund blaðsíðna grundvallarrit á sínu sviði. Ármann naut þess að kenna og hélt áfram kennslu fram á síðustu ár. Hann kenndi líka guðfræðinemum kirkjurétt. Við dáumst að fræðaþulnum en einnig mannkostamanninum sem umvafði okkur með hlýju sinni.

Á kennsluárunum styrkti Ármann erlendu tengslin og var gistikennari við háskóla bæði vestan og austan Atlansála. Hann var alla tíð afar virkur í erlendu samstarfi. Flestir dómarar, lagakennarar og fjöldi lagastúdenta á Norðurlöndum þekktu Ármann, nutu hans, sóttust eftir honum til starfa og fyrirlestra. Hann var góður sendiherra íslenskra gæða, fræða og menningar.

Ármann var eljusamur í útgáfumálum sínum, skrifaði alla tíð mikið og greinar fyrir erlend fræðirit einnig. Ritaskrá Ármanns er löng og bókleitarkerfið Gegnir listar dugnaðinn á átján síðum. “Hver kennslustund var tilhlökkunarefni” sagði hann gjarnan og það er mjög merkilegt að horfa á sjónvarpsviðtöl af Ármanni þegar hann talaði um kennslustarfið. Þar er gleði í augum og fögnuður. Hann var elskur að nemum sínum, vildi gera þeim allt til þroska og eflingar og bar hag þeirra fyrir brjósti, ekki bara á námsárum heldur alla tíð síðan eins og þið þekkið sem hér eruð í dag. Hann vildi vita um afkomu, lífslán, breytingar og tók til hjarta áföll og dauða. Hann var í senn hinn besti meistari af gamla skólanum, prestur í nánd sinni og engill í falslausri velvild.

Rektorinn

Það hafði ekki verið til siðs að velja unga menn til forystustarfa í Háskóla Íslands fyrstu fimmtíu árin og fæstum datt í hug að fertugur Ármann væri rektorsefni. En Ármann var margþátta og fjölhæfur og hentaði því vel þörfum háskólans á uppgangstíma. Hann þekkti þróun erlendra háskóla og vildi að raunvísindin fengju styrkari stöðu í skólanum. Svo var Ármann svo skemmtilega opinn, félagslyndur, hæfur í samskiptum, áræðinn og framsækinn að hann varð rektorskandídat og var kjörinn rektor í síðla árs 1960. Þá hófst eitt mesta þróunar- og framfara-tímabil Háskóla Íslands fyrr og síðar. Ármann höndlaði svo um að flest gekk upp. Ekki hafði hann verið í rekstri eða stjórnað fyrirtækjum en virkjaði snilligáfu sína í þágu skólans. Dæmi um þetta er að honum tókst á undraskömmum tíma að ljúka byggingu Háskólabíós, sem hafði verið í stoppi vegna fjáreklu. Þegar hann var að raka sig einn morgunin fékk hann þá hugmynd að Landsbankinn hefði útibú í bíóinu og borgaði leiguna áratugi fram í tímann með einni greiðslu. Þessa hugmynd um framvirkan samning trítlaði hann með niður í bæ, sannfærði bankastjórann, fékk svo græna ljósið frá ríkisstjórn og nokkrum dögum síðar var allt á fullu í Háskólabíó. Salurinn var tilbúinn nokkrum mánuðum síðar og fyrir fimmtíu ára afmælishátíð háskólans. Í skjóli Ármanns eða vegna áhrifa frá honum urðu til Raunvísindastofnun, Reiknistofnun háskólans, Árnastofnun, Lögberg og hjónagarðarðar. Rektorinn heyrði ágætlega raddir stúdenta og beitti sér fyrir byggingu Félagsstofnunar stúdenta og var til reiðu nætur og daga á álagstíma stúdentauppþota.

Hæstaréttardómarinn

Mannkostir og menntun Ármanns nýttust vel á þessum rektorstíma hans, sem lauk árið 1969. Árið 1972 varð hann svo hæstaréttardómari. Fyrr og síðar talaði Ármann um ábyrgð þess að dæma og tók nærri sér að fella hina endanlegu dóma. Hann gekkst við ábyrgðinni, var verkefninu og vandanum vaxinn. Lögfræðiþekking og elja hans nýttist fullkomlega. Í árslok 1984 fékk hann lausn frá störfum í Hæstarétti og gat helgað sig fræðimennskunni að nýju.

Ármann hélt sína síðustu háskólaræðu þegar Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr var stofnuð síðastliðið haust. Þá hafði hann – vegna sjóndepru – ekki lengur hald í blöðum og af stöfum en töfraði úr sjóði hjarta og visku fallega ræðu og endaði með blessunarorðum: Heill sé Háskóla Íslands. Hann uppskar klapp og virðingu. Heill sé Háskóla Íslands, já heill sé menntun þjóðarinnar, heill sé háskólum þjóðarinnar. Og megi eiginda og afstöðu Ármanns Snævarr verða minnst þegar um sanna menntun er talað og sanns menntamanns er minnst.

Lífið og heimlið

Árman Snævarr var ekki aðeins virkur og virtur prófessor, rektor og dómari. Hann var maður tengsla, eiginmaður, faðir, afi, vinur og félagi. Ármann hafði ekki aðeins nautn af umgengni við fólkið í háskólanum. Hann var svo félagslyndur að hann var jafnan fyrstur til dyra og líka þegar sendill kom með vörur úr KRON-búðinni, dreif sendilinn inn og settist niður og spjallaði. Hann staldraði við hjá okkur börnunum í hverfinu, spurði að nafni og sagði sitthvað eftirminnilega hnyttið við okkur og hlýlegt um okkar fólk. Engan mannamun gerði hann sér, hann frúaði og frökenaði konurnar og umgekkst karlana með hlýlegri virðingu. Allir þekktu Ármann og alla þekkti hann. Hann var því eftirsóttur til félagsstarfa. Miðað við mikið og stöðugt vinnuálag er furðulegt hve víða hann kom við sögu og hve stórvirkur hann var í félagasögu þjóðarinnar. Hann beitti sér ekki aðeins að stofnun og starfi félaga lagamenntaðra, heldur starfaði í mörgum vinnuhópum um ýmis opinber mál, og í ræktunarfélögum lands og lýðs. Ármann var félagsjarl. Ég vísa í æviskrárnar og get ekki annað en þakkað fyrir hönd tuga félaga, sem hann þjónaði með stjórnarsetum fyrr og síðar.

Ekkert af þessu hefði verið möguleg ef Valborg hefði ekki staðið við hlið manns síns og stutt með ráðum og dáð. Hún var skóladúx eins og Ármann. Í september 1948 hittust Valborg og Ármann í Oslo. Hún var á námsför og hann á fræðaspretti. Og Ármann bauð Valborgu út að borða – og það var nú kannski ekki beinlínis upp úr franskri eða ítalskri kúsínu sem þau völdu sér – heldur borðuðu hvalkjöt. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri rómantískt. Þetta var þeirra útgáfa af Food and Fun. En svo fóru þau heim og ástin kviknaði – enda hvalkjöt staðgott. Þau gengu í hjónaband í kapellu Háskólans 11. 11. 1950. Sr. Stefán á Völlum, bróðir Ármanns, gaf þau saman og var svo snjall að leggja út af orðinu mannval. Og hjónaefnin voru ekki aðeins mannval, heldur kyssast nöfnin þeirra svo fallega að helmingur Ármanns og helmingur Valborgar verður mannval.

Það var auðvitað snjallt hjá þeim að ganga í hjúskap á vopnahlésdaginn og hefja vígsluathöfn kl. 11. Bæði stórveldi í sjálfum sér, en þó vel slípuð, bæði yngst í barnahópum, mótuð af lífsreynslu langferða um lendur mennta og landa. Vopnahléð hélt og lífið var fjölbreytilegt. Það var ekki aðeins einhliða stuðningur, sem Valborg veitti manni sínum. Hann var henni alltaf stoð í brautryðjendastarfi hennar við uppeldismenntun þjóðarinnar og mótun kynslóða leikskólafólks, sem jafnframt var einnig efling kvennamenningar, kvennavirðingar og stuðlaði að jafnari stöðu kynjanna í samfélaginu. Þau unnu bæði með framtíðarfólki og að mótun framtíðarmenningar þjóðarinnar. Ekki er að efa að Valborg hefur haft mikil áhrif á skilning Ármanns og eflt visku hans. Hæfni hans verður ekki numin og skilin til fulls nema með vísan til hennar líka. Hann var lánsmaður.

Barnalán og heimili

Þeim Valborgu og Ármanni varð fimm barna auðið. Þau eru Sigríður Ásdís, sendiherra. Hennar eiginmaður er Kjartan Gunnarsson. Næstelstur er Stefán Valdemar prófessor í Noregi. Í miðjunni er Sigurður Ármann, borgarhagfræðingur. Kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir. Valborg Þóra, hæstaréttarlögmaður, er næstyngst systkinanna. Hennar eiginmaður er Eiríkur Thorseinsson.Yngstur er Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi í Brussel. Afkomendur Ármanns og Valborgar eru samtals ellefu og stjúpbarnabörnin þrjú.

Valborg var “útivinnandi” og Ármann var “heimavinnandi.” Hann tók ákvörðun að vera heima við skriftir og kennsluundirbúning. Ritvélarpikkið varð eins og hjartsláttur á heimilinu. Gögn, bækur og blaðabunkar flóðu yfir borðstofuborð, en var sópað til hliðar fyrir máltíðir. Borðið varð miðja veruleikans og börnin kölluðu sína veru inn í fræðin og hinn akdademíski andi seitlaði til baka í æðar og vitund þeirra. Það er ekkert einkennilegt að þau séu líka fræðaþulir. Þeim var lagið að flytja sitt mál. Engum lá lágt rómur, oft var tekist á og heimilisfaðirinn kímdi yfir málflutningnum. Einhverju sinni gall við í Ármanni: “Mikið er ég hamingjusamur að hafa ykkur öll hérna – og allir að rífast.” Hann hafði alið af sér mannval, leiftrandi fólk. Lof sé þeim fyrir að halda merki Ármanns og Valborgar á lofti, heill sé íslenskri þjóð. Strákarnir hefðu auðvitað á viðkvæmum aldri frekar kosið að pabbi þeirra kynni á gröfu fremur en að vera prófessor og grafa upp lagagreinar. Ármann kom í gættina á partíkvöldum unglingsára barnanna, heilsaði öllum viðstöddum gestum alúðlega og bauð rúsínur eða kandís. Þetta þótti krökkunum ekki smart. Hann hringdi í fólkið sitt skv. reglu og vildi fá fregnir af öllu því sem gladdi eða bjátaði á. Og hann gat á tíræðisaldri hrópað upp yfir sig þegar sonardóttir hans náði almennu lögfræðinni með glæsibrag. Heimilislífið var fjölbreytilegt, rökfimi stunduð, aginn skerptur og gleðin lofuð.

Gunnsteinn Ármann Snævarr var kyndilberi íslenskrar menningar og lýðveldissögu. Hann var sem tákn um gæði og menningu. Hann miðlaði áfram og var svo stór í sjálfum sér að hann efldi fólk en lamdi ekki niður til að sjást sjálfur. Umtalsfrómur var hann alla tíð. Hann var svo umgengnisgóður að hann bar virðingu fyrir stólum. Ármannn sótti í djúpin, fór að baki lagagreinum og bókstaf og greindi dýpri rök og þarfir fólks og lífs. Hann stóð alltaf með lífinu og þeim sem varnar þörfnuðust. Eins og hann var mikill alþjóðamaður var hann vel tengdur þjóðmenningu og íslenskum gildum. Nú gildir að vitja visku Ármanns og læra af. Hann er farinn, lyftir ekki lengur hattinum sínum, frúar og frökenar enga.

Ármann  sótti kirkju sína af sömu reglu og hann rækti allt annað í lífinu. Einu sinni kvaddi Ármann mig við kirkjudyr og sagði: “Nú er ég glaður. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri lagagrein nefnda í prédikun.” Þá var rætt um 125 grein. almennra hegningarlaga. Og hann veðraðist upp. Ármann var í trúmálum sínum jafnheill og í öðru og honum var last trúar og trúarefna óhugsandi en um það fjallar greinin eins og lögfræðingarnir vita. Ármann hafði tekið sér traust til hjarta, líf hans var heilt og í góðum faðmi. Hann var okkur öllum samverkamaður af því að hann átti í Guði slíkan. Trúariðkun hans var heillandi skýr og einföld, hann umgekkst Guð sem félaga og bandamann, sem hann ræddi við óhikað við og opnaði sig fyrir. Ármann átti sér ákveðinn bænatíma á kvöldin og ef hann var ekki nærri konu sinni gátu þau í sitt hvoru lagi beðið sitt Faðir vor á ákveðnum tíma og deitað þannig hvort annað á himneska vísu. Guð var Ármanni sálgætir, besti vinur, sem var honum nærri í gleði en líka andblæstri og sorg. Því umlauk hann sitt fólk í bænum sínum, umspennti allt sem skipti hann máli, sem reyndar var stór og litrík veröld. Tilvera hans var óbrotin. Það var himneskur jús, í öllu sem hann gerði í vinnu, fræðum og einkalífi. 

Hver var Ármann? Sendiboði ögunar og fegurðar, ármaður gleðinnar og elskunnar. Ávallt Guði falinn og fullur þroskaðs trausts. Blessaðu minningu hans með því að stæla þinn innri mann, til þjónustu við Guð og menn. Vertu slíkur Ármann í lífinu.

Guð geymi Ármann Snævarr og blessi Valborgu, börn, tengdabörn, afkomendur og ástvini. Guð veri með okkur.

Amen

Eftir þessa útfararathöfn verður kista Ármanns borin út og þar geta allir gengið að og kvatt. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsett verður síðar í dag í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Þar fæddist meistari Jón Vídalín. Um hann var sagt að hann væri ingenio ad magna nato– borinn til stórvirkja, og það er góður eftirþanki um Ármann Snævarr.

Æviágrip

Gunnsteinn Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði þann 18. september 1919 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Valdemar V. Snævarr, sálmaskáld og skólastjóri f. 22. ágúst 1883, d. 18. júlí 1961, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir f. 6. nóvember 1883, d. 11. desember 1970. Systkini Ármanns voru Gunnsteinn f. 16. mars 1907, d. 12. júní 1919. Árni Þorvaldur, verkfræðingur og ráðuneytissjóri f. 27. apríl 1909, d. 15. ágúst 1979.  Laufey Guðrún, húsmóðir f. 31. október 1911, d. 9. nóvember 2002. Stefán Erlendur, prófastur f. 22. mars 1914, d. 26. desember 1992. Gísli Sigurður f. 21. júlí 1917, d. 21. janúar 1931. Eftirlifandi fóstursystir Ármanns er Guðrún, húsmóðir f. 5. júlí 1922.

Ármann kvæntist þann 11. nóvember 1950 Valborgu Sigurðardóttur uppeldisfræðingi og fyrrv. skólastjóra Fósturskóla Íslands, f. 1. febrúar 1922. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorólfsson skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka og seinni kona hans Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsmóðir.

Börn Ármanns og Valborgar: 1. Sigríður Ásdís, f. 23. júní 1952 sendiherra gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4. október 1951 lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. júlí 2007. 2. Stefán Valdemar, f. 25. október 1953 prófessor í Lillehammer í Noregi. 3. Sigurður Ármann, f. 6. apríl 1955 borgarhagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. júní 1961 aðstoðarframkvæmdastjóra hjúkrunar á Landsspítala. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2. nóvember 1982 og Ásdís Nordal, f. 21. ágúst 1984. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. nóvember 1984 og Sigurlaug Thorarensen, f. 18. desember 1990. 4. Valborg Þóra, f. 10. ágúst 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17. september 1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, f. 18. janúar 1981. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16. maí 1988. 5. Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4. mars 1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1. ágúst 1988 og Þorgrímur Kári, f.12. október 1993.

Ármannvarð stúdent frá MA 1938 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944. Hann stundaði framhaldsnám lögum við háskólana í Uppsölum,  Kaupmannahöfn og Ósló árin 1945-1948 og sérnám og rannsóknir við Harvard Law School 1954-1955. Hann var skipaður prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1948 og gegndi því starfi til ársins 1972. Árið 1960 var Ármann kjörinn  rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 1969. Ármann var skipaður hæstaréttardómari árið 1972, en lét af því embætti árið 1984. Eftir Ármann liggur mikill fjöldi bóka og annarra fræðirita um lögfræði. Vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt. Kennsluferill hans við lagadeild Háskóla Íslands spannaði hálfa öld. Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1993 og við fjölda erlenda háskóla. Honum hlotnuðust ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima. Í tengslum við níræðisafmæli Ármanns setti Háskóli Íslands á fót við lagadeild sína Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

myndin af Ármanni er mynd Þorkels í Morgunblaðinu. Myndin af þeim Valborgu og Ármanni er frá Vísi.