Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.