Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom hlægjandi mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppaði niður brekkurnar og faðmaði aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá fór yfir bakka og allur hinn mikli dalur var undir vatni. Mér þótti merkilegt að sjá stíflumannvirkin sem bændurnir í dalnu höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi. Og svo þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég hamslaus veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskolaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatni hefur aldrei farið en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannsi hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt ótrúlegan grúa barna. Ég hef útdeild víni sem er vatn i altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig.