Er Guð vatnssósa? Blaut og breytt kristni

Sjómannadagur og kirkjulistahátíð eru góðar systur, sem faðmast og halda hátíð í dag í þessari kirkju. Sjómennskan er í okkur öllum og sjávarsaltið er í blóði okkar. „Föðurland vort hálft er hafið“ segir í gömlum sálmi.Við erum komin af sjósóknurum og bændum. Við erum börn náttúrunnar. En ekki aðeins það, við Íslendingar höfum séð hið stóra og háleita í umhverfi okkar. Trúin og listin hafa fléttast saman og orðið til að bæta lífið. Trú hefur verið miðlað við móðurkné og í föðurfangi, verið athvarf fólks um aldir. Og listin hefur verið íþrótt og farvegur skapandi fólks á Íslandi.

Börn anda og náttúru

Við erum börn náttúrunnar – en líka fólk andans. En það er ekkert sem er óbreytanlegur fasti. List, náttúra og trú breytast. Náttúra Íslands er ekki sú sama og var fyrir þúsund árum. Listræn iðja landsmanna er með allt öðrum hætti en var fyrir 500 árum og trú Íslendinga er ekki sú sama og var eftir kristnitöku, eftir siðbót eða á tímum Hallgríms Péturssonar. Tengsl við náttúru, fagurfræði og trúarhugmyndir og trúariðkun eru með ólíkum hætti. Við trúum öðru vísi en áður. Aðstæður eru breyttar, vald manna er aukið og ábyrgðin líka. Við þurfum að horfast í augu við allar breytingarnar, verðum að þora og axla ábyrgð. Og í trúarefnum þurfum við líka að breytast.

Hefðarbylting

Ég hef sannfærst um, að trúmenn samtíðar hafa ekki bara almenna mannskyldu að sinna náttúruvernd heldur höfum við beinlínis trúarlega köllun í þeim efnum. Guð kallar heimsbyggðina til ábyrgðar. Gætið að liljum vallarins sagði Jesús Kristur. Nú er svo komið að við gætum ekki aðeins blómum, grösum og gróðri, heldur öllu lífi. Nútíma trúarkall Jesú er: Gætið að blóðinu í smádýrunum, hvort þar séu plastagnir og mengun. Gætið að jöklum og ám, gætið að grasi og grænmeti, að hvölum, makríl og hafdjúpum.

Í dag er dásemdardagur í Hallgrímskirkju og sjómannadagur. Og þrátt fyrir atvinnubreytingar er sjávarútvegur enn afar mikilvægur velferð okkar Íslendinga og menningu. Flestir eru sammála um, að veiðar, vinnsla og einnig fiskeldi verði að skipuleggja svo að umhverfið verði ekki mengað.

Umhverfismálin eru stórmál þjóðlífs okkar. Engin sækir sjó án þess að til sé vatn – lífgefandi vatn. Vatn getur verið lifandi vatn en líka mengað og deytt. Ég er heillaður af vatni, rennandi, streymandi, hreyfanlegu og lifandi vatni. En ég hryggist yfir fúlu vatni. En mér þykir skemmtilegt að ganga með lækjum frá uppsprettu til ósa, horfa í iðuna og leyfa vitundinni að flæða með straumnum og köstum.

Vatnið er til lífs og við getum ekki lifað án vatns. Við erum að mestu leyti vatn og ef vatnið er ekki heilsusamlegt veldur það veikindum og jafnvel dauða. Hreint vatn er forsenda lífs en þó er mengun vatns heimsins skelfilega mikil og vaxandi svo æ minna er af hreinu vatni. Stór hluti mannkyns nýtur ekki heilnæms vatns. Þess vegna er svo loflegt að Hjálparstarf kirkjunnar og Kristniboðssambandið beita sér fyrir að fólk hafi aðgang að hreinu vatni í Afríku og íslensk fermingarungmenni safna á hverju ári fyrir brunnum á því svæði.

Til að minna okkur á mikilvægi ábyrgðar manna gagnvart vatni – og einkum sjó – er á vegum Sameinuðu þjóðanna haldinn í júní á hverju ári alþjóðlegur dagur hafsins. Og svo er vatnsbúskapur veraldar. Það er raunverulegt áhyggjuefni að æ minna er af hreinu vatni í veröldinni. Hvernig verður framtíð lífs á jörðinni ef hreint vatn er takmarkað? Mark Twain sagði hnyttilega, að whisky væri til að drekka, en menn berðust og dræpu vegna vatns! Þegar hreint vatn er orðið dýrmætara en olía fara einstaklingar, hópar og þjóðir í stríð vegna vatns. Tuttugasta og fyrsta öldin er og verður tuttugusta og þyrsta öldin. Lífið lifir ekki án vatns. Við erum ekki aðeins kölluð til að hemja sókn í fiskstofna, heldur kölluð til heildrænnar ráðsmennsku.

Sjómennska heimsins og einnig okkar þjóðar er háð því að vatn og sjór njóti elsku okkar og umhyggju. Mengunarslys eru afar hættuleg, en stærsti og mesti vandi okkar er áframhaldandi mengun sem hinn ríki hluti heimsins veldur, okkar hluti jarðarinnar. Við erum kölluð til ábyrgðar í sjósókn okkar, sjóvernd okkar og lífsafstöðu.

Áhrif á náttúru

Í guðspjalli dagsins fer Jesús á sjó með lærisveinum sínum. Þeir félagar hrepptu versta veður og voru í lífsháska. Og þegar Jesús vaknaði bjargaði hann. Hann hafði góð áhrif á náttúrukraftana og mennina, sem hann var með. Jesús Kristur vill, að við höfum góð áhrif á krafta náttúrunnar og mannfólkið. Við höfum lífsstyrkjandi hlutverkum að gegna eins og Jesús Kristur.

Hvað eiga þau sameiginlegt kirkja, börn, samfélag, list, fiskur og heimsbyggð? Þau þarfnast öll, að Guð elski og veiti þeim líf og heilsu. Og við erum farvegir elsku Guðs í veröldinni. Við getum skemmt, en við getum líka hlúð að lífinu, í nærumhverfi okkar en einnig fjarumhverfi. Kristin trú varðar ekki aðeins innri mann heldur allt líf okkar. Við erum ekki vegna trúar okkar á leið út úr heiminum heldur vegna trúar á leið inn í heiminn til að lægja öldur, minnka hættu, stoppa stormviðri mengunar og alls iðnaðar manna sem er til ills.

Og vatn og sjór er elskaður af Guði og þeim mönnum, sem vilja ganga erinda Guðs. Blóm og dýr eru ekki aðeins vatnssósa, heldur mennirnir einnig. Jafnvel Biblían er rennandi blaut. Vatn er nefnt – að því er mér telst til – um sjö hundruð sinnum í þeirri helgu bók.

Kristnir menn hafa um aldir talið að vatn væri heilagt vegna þess að Jesús helgaði vötn heimsins í ánni Jórdan. Við menn erum hluti þess vatnsbúskapar. Við erum ekki geimgenglar á ferð um vetrarbrautina sem koma við á jörðinni, svona svipað eins og við stoppum í vegasjoppu á leið frá himni til himins. Við erum ekki heimsfjarlægir guðstúristar, heldur er líf okkar á jörðu og til jarðar – til að lifa með ábyrgð. Við berum ábyrgð á bláa hnettinum. Já, við berum ábyrgð á fiskunum í sjónum, fuglunum, ströndum sem við viljum varna að verða plastinu að bráð. Jesús axlaði ábyrgð á hættu og beitti kröftum til góðs. Við njótum hans fyrirmyndar í því köllunarverkefni okkar að beita mætti okkur í þágu lífs.

Vatnssósa Guð – breytt vitund og trúarafstaða

Í Biblíunni er anda Guðs líkt við rennandi vatn. Og Guð sem skapari er sem vatnsuppspretta, Guð frelsarinn sem vatn í ám og hafi og Guðs andi er sem vatnið sem vökvar og nærir allt líf. Guð er í öllu, alls staðar og gefur líf. En það er okkar að virða lífgjöf Guðs og bregðast við með ábyrgð. Skírn er heilög athöfn, sem líka minnir okkur á heilagleika þess sem Guð skapar, veröldina sem við erum hluti af.

Hver er náungi minn? Hið trúarlega svar er, að við höfum hlutverki að gegna gagnvart fólki en líka náttúrunni. Náttúran er hinn náungi okkar.

Amen.

To those of you not speaking Icelandic: Today is a day for the rememberance of the Icelandic fishermen and fishing in Icelandic waters. Fishing has been of utmost importance for our country and more and more we realize how important it is to take good care of the blue planet. The text of the gospel deals with Jesus on a boat with his friends. Everything goes wrong and Jesus calls for a different approach to life and pressing issues. This also is highly practical today. Jesus affected the minds but also the processes of nature. This we are called to as a religious task: Make impact on the processes of nature in such a way that life may flourish. We are not pilgrims on the way out of the world but but as religious people we are called into the world to do good. That is the grand paradigm-shift in western Christianity. You go from the church today with blessing – and be a blessing to others, nature included.

Hallgrímskirkja 2. júní, 2019 sjómannadagur og kirkjulistahátíð.

Textaröð: B

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum
og safnað saman frá öðrum löndum,
frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Pistill: Post 27.21-25

Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“