Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt.
Óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.
You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.
Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.
Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.
Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.
Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.
Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“
Fótboltinn getur fallið, Liverpool getur dalað, allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.