+ Selma Sigurjónsdóttir + minningarorð

Það sem heimurinn þarfnast nú er kærleikur – var sungið áðan. Og systur kærleikans eru efi og trú. Og saman eru þær frábærar systur, sem þurfa helst að tala mikið saman til að lífið megi þroskast gæfulega. Og þær hafa margt að segja um líf og dauða, veg og von, tíma og eilífð. Hvað er hinum megin? Hvernig er eilífðin? Á tímanum eftir páska eru þeir textar Biblíunnar gjarnan lesnir sem varða hvað tekur við, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. Lífskraftur páska litar þennan tíma gróandans. Og ég las guðspjall síðasta sunnudags, sem greinir frá samtali Jesú og Tómasaar, sem ekki þekkti veginn, sem Jesús talaði um. Hann vissi ekki hvert Jesús færi og spurði, því trú, elska og efi bjuggu í honum. Og Jesús svaraði: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Systurnar mega gjarnan ferðast saman og upplýsa álitaefnin. Öll spyrjum við einhvern tíma um hvað taki við. Og nú kveðjum við Selmu, þökkum fyrir líf hennar og gjafir. Við minnumst hennar, blessum minningarnar og beinum huga í hæðir vonanna.

Hugsandi líf

Selma fékk að halda á nýfæddum börnum og fagna þeim. Henni var í mun að vernda smáfólkið og að ungviðið mætti lifa vel. Við, sem höfum notið reynslunnar að lykta af nýburum og skoða þá, vitum að fátt er stórkostlegra en horfa í augu þeirra og finna elskuna og umhyggjuna hríslast hið innra. Öll vorum við slík smápeð. Hvað hugsuðum við þá? Og ef við förum lengra: Um hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í. Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlífið skildir þú hana ekki. Við fæðumst öll fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hefur allt og nýtur síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og dæmið af fóstrinu er til skýringar um, hvernig við getum ímyndað okkur eða hugsað um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það hugsanlega orðið mun stórkostlegra en þú ímyndar þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér. Efinn á sér systur í trúnni og kærleikanum. Tómas efasemdarmaðurinn spurði hvernig væri hægt að vita um veginn. Svarið var: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið /  kærleikur, efi og trú.

Æviágrip

Nú kveðjum við Selmu. Boðskapur kristninnar er boðskapur vonarinnar. Heimsmyndin er opin. Trú okkar í móðurkviði náttúrunnar er trú á, að meira sé í vændum en aðeins lokaðir ferlar. Í eða af þeirri trú talar prestur við útför. Í þeim anda kveðjum við í dag.

Selma fæddist í síðsumars alþingishátíðarárið 1930. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Hjálmarsdóttir og Sigurjón Sigurbjörnsson. Mamman var að austan, úr Loðmundarfirði, en pabbinn af Vesturlandi, frá Hítarnesi. Þau höfðu kynnst á Seyðisfirði en vegna atvinnu Sigurjóns fluttu þau til Vestmannaeyja. Ingbörg sá um heimilið og Sigurjón starfaði sem tollþjónn og verslunarstjóri. Inga var eldri systirin og fæddist árið 1929, ári á undan Selmu.

Vestmannaeyjar voru gjafmildur uppeldisreitur þeirra systra. Mikil fjölgun íbúa varð í Eyjunum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar Selma fæddist voru íbúarnir á fjórða þúsund og hafði fjölgað tífalt á undanliðnum áratugum. Samfélag í þennslu er ungu fólki jafnan spennandi. Mikið var um að vera, alltaf eitthvað nýtt á seiði og oftast gaman fyrir börn að vaxa úr grasi. Selma hugsaði alla tíð með gleði til baka til bernskunnar í Eyjum. Hún naut þess, sem samfélagið hafði að bjóða og naut tengsla við marga æ síðan, jafvel vestur í Ameríku þegar þau Friðþjófur fóru til náms og starfa.

Selma sótti skóla í Vestmannaeyjum. Á unglingsárum hennar voru foreldrarnir farnir að horfa til lands. Fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur undir lok fimmta áratugarins. Þau bjuggu m.a. um tíma á Ránargötu. Sigurjón fór að vinna hjá Gefjunni og Selma fékk vinnu hjá því fyrirtæki einnig. Svo vann hún við afgreiðslustörf og m.a. hjá hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur.

Uppvaxtarárin voru ekki ein samfelld gleðitíð. Selma var átjan ára þegar hún smitaðist af berklum. Hún var send á Vífilsstaði. Hún var lánsöm og náði heilsu.

Selma eignaðist Ágústu þegar hún var 22 ára. Faðir hennar var Axel Kristjánsson.

Og svo fékk Selma óvænta hjálp við að búa Ágústu góðar aðstæður. Hún fékk happdrættisvinning, sem hún lagði inn í byggingarfélag í Kópavogi. Og svo var hús byggt og fjölskylda Selmu flutti í fallegt Sigvaldahús í Lindarhvammi.

Svo kom Friðjófur Björnsson inn í líf Selmu og Ágústu. Þau gengu í hjónaband í mars árið 1957. Ágústa sagði frá, að það hefði kannski ekki verið alveg einfalt fyrir móður hennar því dóttirin var með eyrnaverk nóttina fyrir giftinguna og því haldið Selmu á vaktinni! Haukur kom í heiminn í ágúst síðar á árinu. Lífið blómstraði hjá ungu hjónunum, sem komu sér fyrir í kjallaranum á Lindarhvammi. Selma rak verslunina Hlíð á Hlíðaveginum í Kópavogi um tíma og seldi vörur til hannyrða og einnig ritföng og snyrtivörur. Þegar þau Friðþjófur ákváðu að stækka við sig og fengu íbúð í Sólheimum lauk Selma verslunarrekstri. Sigurjón fæddist árið 1962.

Friðþjófur lauk læknisnámi og ljóst var að fjölskyldan færi út fyrir bæjarmörkin. Fyrsta stopp var Vopnafjörður, en þar var Friðþjófur héraðslæknir á árunum 1964-65. Og svo var það vangaveltan um framhaldsnám. Selma var opin fyrir ævintýrum. Þau hjónin ræddu hugsanlega námsstaði. Selma taldi að fyrsti kosturinn væri Ameríka fremur en Evrópa, Bandaríkin frekar en Svíþjóð. Og Friðþjófur hlustaði alltaf vel á konu sína. Og vestur fóru þau. Og Ameríkudvölin var þeim og fjölskyldunni mikið ævintýri. Þau voru langdvölum bæði í Baltimore og Milwaukee. Selma góð mamma sem lagði gott til barna sinna og ameríkutíminn var fjölbreytilegur vaxtar- og þroskatími.

Þegar námi lauk var stefnan tekin heim. Við tóku aðlögun, að koma sér fyrir að nýju á Íslandi, koma börnunum til manns og alls konar störf biðu þeirra allra. Selma starfaði sjálf lengst hjá Tryggingastofnun ríkisins eða í um 15 ár.

Ágústa er kennari í Fjölbraut í Garðabæ. Maður Ágústu var Þorsteinn Snædal, sem lést fyrr á þessu ári. Ágústa á tvo syni, Daða og Óttar. Börn Daða og Gunnhildar Ólafsdóttur, konu hans, eru Þórdís og Axel. Sambýliskona Óttars er Eva Lind Gígja og börn hennar eru Skarphéðinn og Snæfríður.

Haukur lærði myndlist og hefur starfað sem sjómaður og vinnslustjóri á íslenskum og erlendum skipum. Hann býr nú á Spáni. Kona hans er Rannveig Gylfadóttir. Dóttir hennar er Urður Hákonardóttir og á hún dæturnar Kríu og Örk.

Sigurjón er heimspekingur.

Minningarnar

Síðustu árin hefur Selma búið á Droplaugarstöðum vegna Alzheimersjúdómsins. Og þökk sé starfsfólki Droplaugarstaða. Þolendur Alzheimer og ástvinir líða fyrir og ganga í gegnum alls konar álag og tilfinningar þegar tilveran verpist, orðin hverfa og tengingar rofna. Selma naut langrar og inntaksríkrar æfi. Hún var hæfileikarík, fór víða og sá margt. Og nú er færi til að teygja sig aftur og rifja upp það sem hún var, gerði og gaf af sér.

Hvaða minningar áttu um Selmu? Manstu fagurkerann? Hún hafði skoðun á húsagerð og líka hvaða arkitektar voru bestir. Hún mat gæði mikils og vildi fremur það sem var vandað en hitt. Og svo hafði hún líka skoðun á uppröðun og fyrirkomulagi á heimili sínu. Hún hafði sem sé gott auga og fagurkerinn hafði líka auga fyrir fallegum fötum. En svo var í henni sveifla, hún gat jafnvel átt það til að gefa unga fólkinu fólkinu undirföt af djarfara taginu.

Manstu lestrardugnað Selmu? Hún las ekki bara reyfara og rómana heldur lagði í doðranta líka og rússnesku stórskáld 19. aldarinnar voru m.a. vinir hennar.

Manstu kátínu hennar og hlýju, hlátra og skemmtiefni? Mér þótti gaman að sjá hlýjuna í augum hennar þegar við hittumst á Droplaugarstöðum. Og við sjáum kímna glettnina á myndunum í sálmaskránni.

Og hvernig var maturinn hennar Selmu? Manstu hve góður kokkur hún var?

Manstu geðslag hennar og skapfestu? Selma var ákveðin og viljasterk, hafði skoðanir á sínum málum og fjölskyldunnar. Og manstu að hún var jafnan umtalsfróm? Og svo var sambandið við Ingu systur hennar gefandi.

Manstu hve ferðaglöð Selma var? Hún hafði gaman af að skoða veröldina. Hún fór með foreldrum sínum um landið og síðan með manni sínum um heiminn. Selma naut þess, að Ágústa og bræðurnir voru sjálfbjarga, og gat því farið með Friðþjófi í lengri og skemmri vinnu- og námsferðir. Þau hjón fóru víða og það var gaman hjá þeim. Þau voru samstiga.

Selma kenndi börnum sínum bænir. Það er gott að geta varðveitt traust barnsins og þora að vona. Vera í stöðu nýbura á vegi merkingarinnar. Og orð Jesú um veginn, sannleikann og lífið varða, að Guð er merkingarvaki lífsins og móðurfaðmur. Við vitum ekki hvernig handantilveran er því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing. Mál trúarinnar er myndræn hliðstæðu-orðræða. En við megum ímynda okkur að gæði og dásemd í vistarveru eilífðar taki dýrð Vestmannaeyja og Baltimoore fram.

Og svo verður sungið nú á eftir – og þetta eru brot af eilífðinni – himnaríkismyndir:

Ó, hve fegin vildi ég verða aftur

vorsins barn og hérna leika mér.

 

Kemur ekki vor að liðnum vetri?

Vakna ́ei nýjar rósir sumar hvert?

Guð geymi Selmu og varðveiti þig. Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskapellu 16. maí. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Hótel natura.