Páskafólk

Konur á leið út úr borginni og í ómögulegum erindagerðum. Þær voru vonsviknar og sorgbitnar. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Konurnar, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gætu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagskonur.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum öll föstudagsfólk, við eigum öll okkar löngu föstudaga í lífinu, verðum fyrir þungum raunum sem fylla okkur depurð og eru okkur raun. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Öllu varðar að reyna að læsast ekki inni. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar, bruminu á trjánum hér utan kirkju eða þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót? Er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf

Og þá er mál páskamorguns. Nýr dagur, dauðinn dó en lífið lifir. Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En verðirnir urðu fyrir mikilli reynslu, og það hefur væntanlega verið einhvers konar ljósvitrun. Það sem þeir urðu vitni að var svo rosalegt að þeir lögðu á flótta, sem varðmenn gerði ekki nema í ítrustu neyð því hlaup frá varðmennskunni var grafalvarlegt brot.

Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu líka fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum, sögð og endursögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við viðburðinum, nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt að nýju með boðskap páskadags.

Innri ákörðun

Hvað viltu með þessa frásögn þessa lífsdags? Hvað gerir þú með gleðifréttina að dauðinn dó og lífið lifir? Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið?

Ég veit um konu, sem sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” En alla ævi bjó hún þó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún sá ekki bara ógnir heldur tækifæri, gleði í stað sorga, líf í stað dauða.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni. Verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Það eru þær fréttirnar sem eru kallaðar fagnaðarerindi. Slíkar fréttir eru gleðifréttir, frábærar fréttir.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, þegar geisli sólar sem fer í gegnum okkur og umbreytir okkur. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Lífsfrásögn páskanna umbreytti veröldinni. Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Veröldin er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla. Heimurinn er ekki bara til dauða, heldur er opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn … Hann er upp risinn frá dauðum …“