Vegir Drottins

Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.

Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?

Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?

Um valdið sem brotnar

Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.

Trú?

Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.

Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.

Skíthælar

Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.

Sýndarlíf og völd

Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.

Elskan mest?

Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.

Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.

Húmor og leikur

Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.

Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari.